Við ána Dnieper í Úkraínu var Zapóríska virkið, þar sem höfuðstöðvar zapóríska hersins voru til húsa. Í því og þar í kring bjuggu zapórískir kósakkar. Frá tyrknesku útleggst orðið kósakki sem frjáls maður. Meðal þeirra raða voru alls kyns hópar hvaðanæva að úr Evrópu sem höfðu margir hverjir komið af aðalsættum en flust á slétturnar til þess að flýja ofríki pólsk-litáíska samveldisins.
Pólitíska uppbygging samfélagsins við Zapóríska virkið var ekki ósvipuð þeim sem þekktust í sjóræningjasamfélögum Karíbahafsins. Þar voru stundaðar dýra- og fiskveiðar, viðskipti, sjóferðir til Ottóman-veldisins og svo studdu þeir einnig Khaninn af Krímeu og aðra sem þurftu á kröftum þeirra að halda í orrustum. Þeir voru eftirsóttir fyrir hernaðaraðgerðir og tóku þátt í skipulagi ýmissa byltinga gegn samveldi Póllands og Litáen, en voru minna að setja sig upp á móti konungsveldinu í Moskvu og Svíþjóð.
Athugasemdir