Á síðasta ári lagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi umhverfisráðherra, fram frumvarp um hringrásarhagkerfið. Það frumvarp varð svo seinna að lögum. Samkvæmt þeim er lagt úrvinnslugjald á langflestar framleiddar og innfluttar umbúðir. Gjaldið á síðan að standa straum af endurvinnslu eða urðun umbúðanna.
Fyrirkomulagið er ekki nýtt. En með nýju lögunum voru auknar kröfur lagðar á framleiðendur og innflytjendur ýmissa UMBÚÐA og vörutegunda, frá því sem áður var. Ein tegund vara er þó eftir sem áður undanþegin úrvinnslugjaldi, með sérákvæði í lögunum: Veiðarfæri.
Íslenska stórútgerðin sparar sér þannig hundruð milljóna króna sem hún annars myndi greiða fyrir endurvinnslu, endurnýtingu eða urðun veiðarfæra eftir að notkun þeirra er hætt. Ólíkt öllum öðrum sem lögin ná til.
Hagsmunasamtök sjávarútvegsins hafa tryggt sér nær óbreyttan sérsamning, byggðan á gömlu óuppsegjanlegu samkomulagi við yfirvöld.
Samkomulagi sem þó hefur verið þverbrotið, eins og Stundin hefur sannreynt.
Athugasemdir (3)