Síðastliðið haust skrifaði ég svar fyrir Vísindavef Háskóla Íslands þar sem ég leitaðist við að svara spurningunni hvort það sé siðferðilega rétt að veiða lax í þeim tilgangi að sleppa honum aftur í ána. Ég hef skrifað tugi svara fyrir Vísindavefinn (næstum öll í eigin nafni en einnig nokkur sem mér þykir sérstaklega vænt um í nafni ritstjórnar vefsins í flokknum „föstudagssvör“) en aldrei fengið önnur eins viðbrögð. Líklega var helsta ástæðan sú að fjölmiðlar klipptu út eina setningu í svarinu þar sem ég sagði að þegar öllu er á botninn hvolft felist stangveiði í að ein dýrategund er að kvelja aðra sjálfri sér til ánægju og yndisauka. Í samanburði við aðra réttlætingu á veiðum á villtum dýrum virðist „veiða-sleppa“ aldrei geta keppt við að „sleppa-að-veiða“ í siðferðilegum skilningi. Siðferðileg réttlæting á veiðum takmarkast við tiltekin atriði sem sportveiðar tengjast ákaflega lítið og þá einungis í mjög afmörkuðum tilfellum.
Svarið var raunar – vona ég – aðeins margbrotnari smíð heldur en birtist í fjölmiðlum og kommentum þeirra sem lásu umfjöllun um svarið. Þrjú atriði voru þau mikilvægustu sem ég vildi koma á framfæri. Í fyrsta lagi þau sem ég hef þegar nefnt um hefðbundin siðfræðileg rök fyrir veiðum og hvernig ekki er hlaupið að því að flokka sportveiðar undir þau rök. Í öðru lagi viðurkenndi ég að það væru líklega vistfræðileg rök fyrir því að sleppa öllum fiski. Best væri þó alltaf að láta fiskinn í ánum í friði ef verndarstarf væri fólki efst í huga. Efasemdum um ástand stofna ætti að mæta með fullkominni friðun, ef siðfræðileg rök væru á annað borð dregin inn í málið. Síðasti og mikilvægasti punkturinn var sá að það væru alls konar önnur rök til fyrir því að veiða lax með agni sem gerir það mögulegt að sleppa aftur öllum afla. Þau rök eru hins vegar ekki dregin fram með aðstoð siðfræði. Ég gat mér þess til að betra væri að gera grein fyrir þeim eftir leiðum fagurfræði eða menningarfræði. Það sé óumdeilanlega meira smart að bæta allan brag í kringum stangveiði. Maðkaleifar og blóðugt plast er ekki sérlega lekkert.
Að friða samviskuna
En hvers vegna er ég að rifja upp þetta svar hér í nýrri grein? Ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að svarið tengist stærra máli sem erfitt var að gera grein fyrir í stuttu svari á Vísindavefnum. Spurningar um hvaða aðferð í laxveiðum sé siðferðilega best er einungis angi af miklu stærri umræðu í samtímanum. Í sem stystu máli mætti segja að sú umræða snúist um hvernig okkur gengur – og hvort okkur takist – að láta lífsstíl okkar falla að þeim siðferðisviðmiðum sem umhverfi okkar heldur á lofti. Við vonumst til þess að annað fólk telji okkur vera góðar, réttsýnar og siðferðilega þenkjandi manneskjur. Við viljum sýnast dygðugt fólk. Það er kannski klisja að benda á að vissulega hafa samfélagsmiðlar haft mikil áhrif í þessu sambandi. Fáir komast upp með að misstíga sig án þess að það sé fyrir allra augum. Spurningin vaknar hins vegar hversu djúpt þessi hegðun okkar ristir. Og þá er einnig oft auðvelt að benda á tvískinnunginn sem skín í gegn þegar við reynum að láta hegðun okkar og lífsstíl koma sem best út í augum annarra, án þess að færa í raun sérstakar fórnir eða neita okkur um hluti sem veita okkur ánægju. Þótt réttilega megi oft gagnrýna þá sem láta eins og siðferðilega rétt hegðun feli óhjákvæmilega í sér einhvers konar meinlætalíf, þá verður ekki hjá því komist að horfast í augu við það að siðferðileg hegðun kallar á einbeitta sjálfsgagnrýni á langanir okkar og þrár.
Mér sýnist sem sagt við vera komin ansi langt í samtímanum að finna nýjar leiðir til að friða samvisku okkar. Á henni kviknar býsna oft í upplýsingaflóðinu sem dynur á okkur. Við vitum hvaða áhrif bruni jarðefnaeldsneytis hefur á loftslag jarðar. Við gerum okkur grein fyrir hvernig farið er með dýr í því þauleldi sem nútímalandbúnaður kallar á. Við könnumst mæta vel við hnignandi ástand vistkerfa allt í kringum okkur. En til þess að komast hjá því að bregðast í raun við þessum upplýsingum hefur samfélagið fundið leiðir til að láta neysluna líta aðeins betur út. Og þannig sannfærum við okkur um að við séum að breyta á siðferðilega réttmætan máta. Best er þegar hægt er að setja upp starfsemi í kringum neyslu okkar sem virkar eins og nokkurs konar aflátsbréf. Svo auglýsum við það hversu góð við erum. Kolefnisjöfnun, hamingjusamar hænur og siðprýði við veiðar eiga að greina okkur frá þeim sem leita ánægju á kostnað umhverfis og samfélags. Vandamálið er að umhverfiskostnaðurinn er enn til staðar þótt hann kunni að lækka eitthvað.
Að láta eftir sér
Það geta verið góðar ástæður fyrir því að gera ólíka hluti. Það hvarflar ekki að mér að gagnrýna kolefnisjöfnun eða ásættanlegri aðbúnað húsdýra. Oft liggja mjög góðar ástæður fyrir því hvers vegna við ættum að velja slíkar lausnir – og leggja í aukinn fjárhagslegan kostnað vegna þeirra. Vandamálið er að slíkar ástæður þurfa ekki allar að vera hluti af því sem við teljum vera siðferðilega réttlætingu. Við viljum gera svo ótal marga hluti sem veita okkur ánægju. Sældarhyggja, eða hedónismi, er eðlilega lífsafstaða sem tekur tillit til grunnþarfa okkar. Hún er ráðandi afstaða í samtímanum vegna þess að það eru svo ótal margir hlutir sem veita okkur ánægju og lífsfyllingu. Án þeirra væri lífið fremur litlaust. Flestum okkar er nauðsynlegt að ferðast, njóta útiveru – til dæmis með sportveiðum, og borða sem bestan og fjölbreyttastan mat. Líklega má segja að aldrei áður í sögu mannkyns hefur verið eins auðvelt að veita sér þá ánægju sem maður sækist eftir. Umhverfisáhrifin af þessari sókn okkar í ánægju eru því miður óumdeild.
„Öll gerum við hluti sem við getum réttlætt en sem eru ekki þar með siðferðilega réttir“
Öll gerum við hluti sem við getum réttlætt en sem eru ekki þar með siðferðilega réttir. Við ættum, með öðrum orðum, að láta þá vera ef einungis siðferðileg meginviðmið eru höfð í huga. Vissar aðstæður gætu vissulega tengt svipaðar athafnir siðferðilegum veruleika okkar en slíkt er oftar undantekning heldur en við höldum. Þegar við erum að réttlæta neyslu okkar eins og að framan greinir, þá erum við að vísa til ólíkra röksemda sem geta verið mismundi siðferðilegar, en eru þegar öllu er á botninn hvolft flestar annars eðlis. En þær eru ekki verri fyrir vikið. Við eigum ekki þar með að fordæma þær. Það getur verið „rétt“ að breyta á ákveðinn hátt fyrst maður er á annað borð að gera eitthvað, en til þess að sú athöfn öðlist siðferðilegt inntak þyrftum við að bera hana saman við það að láta athöfnina vera. Ýmislegt af því sem við tökum okkur fyrir hendur verður ekki siðferðilega rétt fyrir það eitt að við bætum fyrir það eftir bestu getu.
Við eigum ágætis orðtak sem lýsir því sem ég er að reyna að draga fram hér. Við „látum hluti eftir okkur“ vegna þess að þeir veita okkur ánægju. Og ég er ekki viss um að það sé alltaf svo slæmt, þótt það kunni að vera ámælisvert í siðfræðilegri greiningu. Við getum ekki einungis gert hluti sem eru réttir og góðir, eða skaðlausir. Áhugamál okkar og þrár eru fjölbreytt flóra – sem betur fer – sem fyllir líf okkar tilgangi og gleði. Stangveiðar eru gott dæmi um þetta. Fólk sem fær lífsfyllingu út úr þeim lætur eftir sér að kvelja aðra dýrategund sér til skemmtunar. Auðvitað væri gott ef enginn skaði hlytist af. En slíkt er óraunhæft. Við sem stundum stangveiðar látum þetta eftir okkur. Það eru svo alls konar önnur hliðarrök sem vert er að taka tillit til, eins og þau sem snúa að vistfræði og öðrum umhverfisþáttum. En það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að við erum fyrst og fremst að láta ánægjuna sem við fáum út úr veiðunum stjórna okkur. Og auðvitað er ekkert nýtt í þessu. Þegar ég vísa til „sældarhyggju samtímans“ þá er ég að vísa til þess að okkur hættir mörgum til þess að láta eins og athafnir okkar séu með hreinan siðferðilegan skjöld þegar við erum í raun að láta eitthvað eftir okkur sem – þegar öllu er á botninn hvolft – við ættum að láta vera.
Þurfum við öll að vera dygðug?
Er ég að gefa í skyn að við þurfum ekki öll að vera dygðug og að við getum bara látið ánægjuna eftir okkur? Nei, þvert á móti vona ég. En það að breyta rétt er ekki eitthvað sem maður kippir ofan úr hillu, vottað í bak og fyrir af einhverjum sem telur sig til þess umkominn. Aflátsbréf gengu ekki upp í gamla daga og þau gera það ekki í dag þótt þau hafi tekið á sig nýja mynd. Það er nefnilega mörgum í hag að við réttlætum athafnir og leiðum ekki lengur hugann að þeim afleiðingum sem þær í raun hafa. Ef við göngum of langt með að réttlæta hegðun okkar er hætt við að við gleymum að við erum í raun „að láta hluti eftir okkur“ og förum að líta á þá sem eftirsóknarverða. Að uppfylla nautnir og finna ánægju hríslast um okkur er hluti af mannlegri tilveru. En þetta á að vera undantekning, eitthvað sem við leyfum okkur í fullri vitneskju um að okkur ber að gera það af hófsemi. Það er óraunhæft að gera kröfu um að við séum öll englar öllum stundum. Stanslaus flöggun tilbúinna dygða í samtímanum getur leitt til þess að við gleymum að leiða hugann að því sem er mikilvægast. Siðferðileg sældarhyggja kallar á að við séum meðvituð um að ánægja á kostnað vistkerfa eða annarra lífvera má ekki vera annað en undantekning. Ánægjan er ekki góð í sjálfri sér.
Vonbrigðin með Cop26 sem haldin var um daginn tengist svo einmitt því sem ég hef verið að ræða hér að ofan. Í stað þess að grípa til nauðsynlegra aðgerða er enn og aftur reynt að þvæla umræðuna með orðræðu sem virðist góð á yfirborðinu en er í raun tilgangslaus. Hvað getum við öll gert? er mantra sem stöðugt er verið að kyrja. Stórfyrirtæki flykkjast inn í rýmið sem mantran skapar, tilbúin að sjá um lausnina og styðja einstaklinga til að bæta ráð sitt í umhverfismálum. Og við kaupum alls konar lausnir. Ef neysla okkar verður örlítið siðferðilegri þá verður allt gott, er það ekki? Í stað þess að horfast í augu við það að við neytum of mikils, notum of mikla orku og kaupum of mikið af hlutum er reynt að selja okkur þá hugmynd að neyslan sé ekki vandamálið heldur að hún hafi ekki verið nógu siðleg hingað til. Auðvitað er mikið af þeim lausnum sem boðið er upp á til bóta og sjálfsagt að reyna að milda áhrif neyslu okkar sem mest. En lausnin hlýtur alltaf að felast í því að leiða hugann fyrst og fremst að því hvaða skaði hlýst af breytni okkar. Við megum ekki falla í þá freistni að klæða skaðann í búning sem fellur að smekk okkar og fegurðarskyni – og túlka það svo sem siðferðilega réttlætingu.
Athugasemdir (1)