Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Frumkvöðull í endurnýtingu heldur ótrauður áfram í jaðarsamfélaginu við Reykjavík

Í meira en hálfa öld hef­ur Valdi safn­að fölln­um hjól­kopp­um, gert við þá og sellt þá til end­ur­nýt­ing­ar. Hann held­ur ótrauð­ur áfram, þrátt fyr­ir kreppu í brans­an­um og þótt hann hafi ekki feng­ið neina Covid-styrki. Valdi og bróð­ir hans lýsa líf­inu í „jað­ar­sam­fé­lag­inu“ við mörk Reykja­vík­ur, sem nú er að ganga í end­ur­nýj­un lífdaga.

Frumkvöðull í endurnýtingu heldur ótrauður áfram í jaðarsamfélaginu við Reykjavík
Valdi koppasali Hjólkopparnir nærri Rauðhólunum eru komnir á útsölu. Mynd: Jón Trausti Reynisson

Það er haustkalt úti og þótt sólin blekki í fjarlægum fjöllunum játa laufin sig sigruð, fjúkandi fallin um Heiðmörk og nágrenni. Þorvaldur Sigurður Norðdahl stendur hins vegar úti og veifar vegfarendum sem kynnu að hafa rekið augun í auglýsingaskiltið hans við þjóðveginn: Hjólkoppar til sölu – Útsala.

Þótt lítið sé rætt um það vinnur Valdi þjóðþrifaverk og er frumkvöðull í hringrásarhagkerfinu. Þegar hjólkoppar falla af og rúlla út í náttúruna sem aðskotahlutir, finnur Valdi þá og þrífur og reynir að veita þeim framhaldslíf. Fyrstu koppana fékk hann hjá frænku sinni og seldi þá manni nokkrum, Hjálmari, árið 1964 eða '65. „Þá startaði hann mér í gang,“ segir Valdi.

Skiltið við SuðurlandsvegMargir hafa tekið eftir skiltinu á leið úr borginni, skömmu eftir Rauðhóla, þar sem boðnir eru hjólkoppar á útsölu.

Nú eru það helst starfsmenn Vegagerðarinnar sem veita Valda aðföng. „Vegagerðarkallar finna svo mikið af koppum þegar þeir gera við stikur og annað. Það verður að þrífa þetta upp, það má ekki henda þessu.“

Áratugum saman hefur Valdi auglýst hjólkoppa til sölu á leiðinni suður út úr Reykjavík, skammt frá Rauðhólum og Heiðmörk, þar sem hann hefur alltaf búið og býr nú með bræðrum sínum tveimur á bóndabænum Hólmi. Afi þeirra bræðra byggði þennan bæ og þar var faðir þeirra fæddur og uppalinn og þar bjó hann alla sína tíð. Fjölskyldan vann þar landbúnaðarstörf með handafli, án dráttarvélar, en með tímanum hefur borgin nálgast.

Bróðir Valda, Karl, lýsir þessu þegar hringt er með landlínunni á bæinn. „Það var gott fyrir okkur börnin uppeldislega að læra að vinna frá átta eða níu ára aldri, raka hey. Sjálfsagt að leyfa börnum að snattast og læra vinnubrögð.“ Hann segir að þetta hafi verið merkilegur tími, börnunum hafi sjaldan leiðst enda hafi frelsið verið meira en almennt tíðkast í dag. „Við vorum úti að ráfa um nágrennið og skoða ýmislegt. Við fundum kannski ónýta bíla og gátum hirt úr þeim dót. Valdi bróðir hefur haft áhuga á bílum síðan hann var bara barn og sá drossíur í fyrsta sinn.“

Hann minnist þess þegar frænka þeirra gaf Valda fyrsta hjólkoppinn. „Það var maður sem vildi kaupa hann.“ Ekki var aftur snúið.

Þeir búa nú þrír saman og Valdi heldur starfinu ótrauður áfram þrátt fyrir kreppu í hjólkoppasölu.

Salan minnkað

Við lagerinnValdi fínpússar hjólkoppana og geymir þá hér á lagernum þar til kaupendur koma.

Hér áður fyrr fór Valdi hjólandi eftir þjóðveginum og skimaði eftir koppum. Best var uppskeran á mótum malar og malbiks. Hann fór jafnvel alla leið til Keflavíkur til að finna koppa, sem hann rétti svo, pússaði og fægði, til að koma þeim aftur í umferð.

Síðustu áratugi hefur reglulega verið fjallað um fallandi hjólkoppasölu. „Dræm hjólkoppasala hjá Valda“, sagði í Morgunblaðinu 2001. Árið 2005 kom Valdi í viðtal við Fréttablaðið og hafði þá selt hjólkoppa í 40 ár. „Það gengur illa,“ sagði hann þá um söluna. 

Árið 1988 var þó aðra sögu að segja. Góðæri hafði verið í hjólkoppabransanum. „Ég er ekkert ríkur. En ætli ég sé nokkuð fátækari en blaðamenn!“ sagði hann það árið.

Löngu síðar bætti hann við orðinu „útsala“ á auglýsingaskiltið sitt við Suðurlandsveg. Salan er þó ekki alveg stopp. „Seldi á föstudaginn einn,“ segir Valdi. En þessi brautryðjandi í endurnýtingu og baráttumaður gegn sóun er ósáttur við Covid-aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

„Þeir mokuðu milljörðum í Flugleiðir. Þeir mokuðu engu í mig.“

„Þeir mokuðu milljörðum í Flugleiðir. Þeir mokuðu engu í mig. Ég fékk ekkert, það var lokað, stórtapaði, tugum þúsunda,“ segir hann.

„Ég stórtapaði, ég fékk ekkert út úr þessu; þetta er bara hobbí.  Maður er farinn að tína flöskur líka. Það er mikill sóðaskapur af þeim, hefurðu ekki séð flöskur liggjandi um allar götur?“ spyr hann vondaufur. „ Ég fæ engan skilning á þessu, ekki hjá ráðamönnum þjóðarinnar.“

Boruðu sjálf fyrir vatni 

Fjölskyldan í Hólmi fékk ekki alltaf stuðning eins og aðrir eiga vísan. 

Um árabil var vegurinn sunnan Hólmsár notaður sem vetrarvegur fyrir Suðurlandsveg, sem var snjóþungur í brekkunni norðan árinnar. Eftir að nýr Suðurlandsvegur var lagður upp úr 1970 hefur brúin á Hólmsvegi þjónað bæði heilsársbyggð og sumarhúsabyggð sunnan Hólmsár. Brúin var í svo slæmu ástandi að hún var nánast að hruni komin þegar þriðji bróðirinn lét loka brúnni. Búið var að gera borginni viðvart en hún aðhafðist ekkert. „Borgin hefur ekkert verið að sinna okkur of mikið,“ áréttar Karl og tekur annað dæmi af snjómokstri. „Stundum er ófært í tvo til þrjá daga.“

„Við erum svona jaðarsamfélag.“
Karl Nordahl í Hólmi

Svæðinu hefur verið ýtt lengra út á jaðarinn á síðustu árum. Nú gengur strætó ekki lengur þangað. „Við erum svona jaðarsamfélag,“ segir Karl. Vandræði voru með rafmagnið og þá kom í ljós að spennustöðin var ekki rétt við Norðlingaholt líkt og bræðurnir héldu heldur inni í Mosfellsdal. Reyndar var rafmagni ekki komið á fyrr en eftir stríð, en þegar fjölskyldan reyndi að sækja um það voru skilaboðin þau: „Þið þurfið ekkert rafmagn,“ rifjar Karl upp en eftir nokkurra ára baráttu þótti yfirvöldum kominn tími til að tengja árið 1947.

Fjölskyldan boraði líka sjálf eftir vatni úr Hólmsá fyrir þrjátíu árum síðan. „Samkvæmt öllum stöðlum ættum við að vera löngu dauð en við þrifumst ágætlega á þessu vatni.“ Stundum var vatnið gruggugt en það var engu að síður notað í bæði mat og bað. „Það var allt í lagi. Okkur varð ekkert mjög meint af því.“

„Nú er búið að bjóða okkur ljósleiðara á 350 þúsund krónur. Við sögðum bara nei takk. Við verðum með gömlu símalínurnar á meðan þeim er haldið við og netsambandið er alveg sæmilegt.“

Trúir á heiðarlegt fólk

Karl er tvíburabróðir Valda en segir að sambandið sé meira eins og hefðbundið samband bræðra. 

Bræðurnir hófu ekki skólagöngu fyrr en þeir voru orðnir átta ára gamlir, því það þótti langt að fara og móðir þeirra vildu ekki að þeir væru einir á ferð svo ungir. Fram að því kenndi hún þeim heima að lesa og skrifa. Skólinn var í Árbænum og þar voru þeir saman í bekk, þar til Valdi skipti um skóla eftir ellefu ára bekk og fór í Höfðaskóla. Karl segir að þeir hafi þurft að þola smá stríðni í skólanum, „kannski af því að við vorum úr sveit, eitthvað öðruvísi.  Börn þurfa ekki alltaf að fá neina ástæðu,“ en skólastjórinn í Árbæ tók málið föstum tökum og þar með var því lokið. 

Á sunnudögum var börnunum boðið í sunnudagaskóla og í eitt skiptið var því haldið fram að Jesús heyrði allt sem þau segðu. Er hann uppi á þaki? spurði eitt barnið úr hópnum, en Karl segir að boðskapurinn hafi ekki haft mikil áhrif á hann. „Ég trúi bara á heiðarlegt fólk.“ Svo einfalt er það. 

Strætisvagn gekk alveg upp að Lækjarbotnum og þegar mest lét voru strætisvagnaferðir á tveggja tíma fresti frá hálf átta á morgnana til ellefu á kvöldin. Þar bjó fólk í gömlum sumarbústöðum sem borgin leigði út til þeirra sem voru í húsnæðisvanda. Sumir bjuggu þar allt árið um kring, aðrir aðeins yfir sumartímann. Sumir héldu hæsni, einstaka voru með kindur en flestir þeirra sem voru að vinna sóttu flestir í borgina. Þannig kynntust krakkarnir öðrum börnum.  

Fjölgað í byggðinni

Undanfarið hefur fólk verið að snúa aftur í sumarbústaðabyggðina, kaupa upp gamla bústaði og gera þá upp. Á síðustu tíu til tuttugu árum hefur fjölgað aftur í byggðinni, þótt það hafi ekki beint myndast samfélag þar sem fólk þekkist og umgengst nágranna á næstu bæjum. „Það er ekki mikill samgangur á milli húsa,“ útskýrir Karl, „maður rétt kannast við nágranna í næstu húsum en þeir eru nú samt í nokkurra kílómetra fjarlægð.“

Sjálfur hefur Karl gert upp æskuheimilið og varði heilmiklum tíma í það eftir að hann sneri aftur að norðan svo nú er húsið í ágætu standi. „Það er oft þannig að fólk kaupir sín æskuheimili aftur. Það er einhver rómantík yfir því. Umhverfið er líka frábært, það er stutt í Heiðmörk og friðsælt allt í kring.“

Þótt þeir búi saman bræðurnir þá verja þeir ekki endilega miklum tíma saman, en stundum horfir Karl á sjónvarpið með Valda, sem er sérstaklega spenntur fyrir veðurfréttunum. „Hann er ekki alltaf sáttur við veðurfræðinginn ef það er slæm spá,“ segir Karl. „Mér finnst alveg ágætt að vera með bræðrum mínum en ég get líka verið út af fyrir mig.“

Alls eru systkinin sex. Ein systir þeirra, búsett í Noregi til rúmlega þriggja áratuga, er í litlu sambandi og kom ekki í jarðarför móður þeirra.

Sérfræðingur í hjólkoppumValda þykir vænt um hjólkoppana og honum sárnar að láta þá liggja ónýtta.

Heldur hringrásarhagkerfinu gangandi

Valdi gefst ekki upp þótt á móti blási.

„Heldurðu að viðtalið veki mikla athygli?“ spyr hann.

Við segjumst halda það. „Margir pæla í þessu af því þeir sjá skiltið: Útsala á hjólkoppum.“

En þótt margir hafi séð auglýsta hjólkoppa á útsölu, á leið sinni í fríið eða annað, er ekki víst að allir hafi leitt hugann að því að öll þessi ár hefur Valdi haldið gangandi því sem stjórnmálamenn dagsins í dag boða með viðhöfn, kallandi það hringrásarhagkerfi, svolítið eins og sömu hjólin á nýfægðum koppum.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár