Árið 732 fyrir Krist komu hersveitir hinna grimmu Assyríumanna eins og óstöðvandi engisprettuplága yfir Palestínu, Sýrland og hina fornu Fönikíu. Í fararbroddi hermannanna var hinn ógurlegi herkonungur Tíglaþpíleser 3.
Í hæðardrögunum kringum Galíleuvatn varð fyrir honum lítið ríki, þó furðu fjölmennt, hét Ísrael. Þar heita nú Galílea og Samaría.
Í 2. konungabók Gamla testamentisins segir frá því að íbúar í þessu Ísraelsríki hafi einmitt um þær mundir verið farnir að syndga illa gegn Guði sínum og Guð hafi því gengið í lið Assyríumanna og lagt ríkið í duft og „þannig var [lýður Ísraels] herleiddur burt úr landi sínu til Assýríu og hefir verið þar fram á þennan dag“, eins og segir í 17. kapítula, 23. versi.
Samkvæmt arfsögnum Gyðinga skiptust þeir í 12 ættkvíslir þegar þeir komu til Palestínu frá Egiftalandi um árið 1200 fyrir Krist. Þeir mynduðu fyrst eitt ríki sem svo klofnaði í tvennt, Ísrael í norðri og Júdeu í suðri. Þar bjuggu tvær ættkvíslir (Júda og Jósef) og miðpunktur ríkisins var Jerúsalem.
„Þvílík ókjör af fólki“
Assyríumenn þyrmdu Júdeu en fluttu á brott til Mesópótamíu þær tíu ættkvíslir sem búið höfðu í norðurríkinu Ísrael. Karlar, konur, börn voru hrakin burt og flutt fyrst til Assyríu, en annað fólk flutt inn frá Mesópótamíu í staðinn, segir Biblían.
Nágrannar, frændur og vinir Ísraelsmanna suður í Júdeu gleymdu þeim þó ekki. Og þeir virðast líka hafa haldið þjóðareinkennum sínum og -vitund lengi vel, eða að minnsta kosti 600–700 ár.
Því um það bil árið 100 eftir Krist skrifaði sagnaritarinn Jósefus, Gyðingur í þjónustu Rómverja, um Gyðinga að „aðeins tveir ættbálkar þeirra eru undir stjórn Rómverja í Evrópu og Asíu en tíu ættbálkar til viðbótar búa nú handan fljótsins Efrat [í Mesópótamíu] og teljast til þeirra þvílík ókjör af fólki að engin leið er að giska á hve margir þeir eru“.
Nú er vissulega margt málum blandið um hinar fornu sagnir Gyðinga um sjálfa sig. Hin upprunalega saga um flótta hinna tólf ættbálka frá Egiftalandi er til að mynda nær áreiðanlega seinni tíma tilbúningur frá upphafi til enda.
Og allar frásagnir Konungabóka Gamla testamentisins eru vægast sagt vafasamar.
En það er þó alls ekki ólíklegt að Assyríumenn hafi vissulega herleitt burt íbúa Galíleu og Samaríu um það leyti sem Tíglaþpíleser var kóngur. Þeir voru kunnir að einmitt slíku.
Æ síðan hefur arfsögnin um hinar „týndu ættkvíslir Ísraels“ hins vegar lifað góðu lífi í vitund fyrst Gyðinga (eins og sést af skrifum Jósefusar) og síðan kristinna manna líka.
Sjaldgæft dæmi
Langlíklegast verður vissulega að telja að hinir herleiddu Ísraelsmenn (sem hafa eflaust verið í mesta lagi nokkrir tugir þúsunda) hafi á endanum horfið í þjóðahafið í Mesópótamíu og Persíu og tekið upp háttu og tungumál innfæddra.
Slík eru nær óhjákvæmileg örlög þjóðarbrota sem setjast að í öðrum löndum og fjölmennari.
En þegar menn hafa fyrir augunum sjaldgæft dæmi um hið gagnstæða – þjóð sem lifir innan um aðra í aldir og jafnvel þúsaldir en heldur ævinlega sérstöku sinni, siðum, tungu og trú – og svo vill til að þetta dæmi eru einmitt Gyðingar – íbúar hinnar fornu Júdeu sem tóku að dreifast frá heimkynnum sínum kringum Krists burð en héldu þjóðerni sínu hvar sem þeir fóru í tvö þúsund ár – þá er náttúrlega svolítið freistandi að ímynda sér að Ísraelsmennirnir sem Tíglaþpíleser herleiddi kynnu líka að hafa sýnt sömu staðfestu.
Og vert er að hafa í huga að í þúsundir ára og raunar allt fram undir það síðasta var öflugur kjarni Gyðinga í Mesópótamíu, fyrst í Babýlon og síðan Bagdad.
Eru Íslendingar týnd ættkvísl Gyðinga?
Enda hefur það verið mikill samkvæmisleikur söguáhugamanna – sem sumir hafa að vísu stundað í djúpri alvöru – að finna eina eða fleiri af hinum „týndu ættkvíslum“ Ísraels og hafa flest þjóðabrot og þjóðir verið nefnd þar til sögu.
Þar á meðal við Íslendingar, þótt viðurkenna verði að þeir fræðimenn sem fundu hina týndu ættkvísl Benjamíns hér á landi voru kannski ekki meðal þeirra allra fremstu í sinni röð.
Yfirleitt eru hugleiðingar um þessar týndu ættkvíslir reyndar lítils virði nema sem gamanmál, en nýlega hefur ísraelska blaðið Jerusalem Post þó rifjað upp eina kenningu af þessu tagi sem verður að teljast af frumlegra taginu.
Hatursmenn Gyðinga
En skríbent blaðsins fullyrðir þó að ástæða gæti verið til að kanna nánar.
En skella ekki bara upp úr.
Því kenningin er sú að talibanar, hinir ofsatrúuðu múslimar í Afganistan, einhverjir mestu hatursmenn Gyðinga og altént Ísraels í veröldinni, þeir séu í rauninni ein af hinum týndu ættkvíslum Ísraels.
Nú hrista sjálfsagt einhverjir höfuðið.
Því eru ekki talibanar trúarsöfnuður, ekki ættbálkur og hvað þá þjóð?
Jú, vissulega, en hugmyndafræði talibana og uppruna má þó allt eins rekja til þjóðernissinnaðra Pastúna, en tæplega helmingur Afgana telst vera af þeirri írönskkynjuðu þjóð. Það þýðir að þeir eru 13–14 milljónir af um það bil 32 milljónum Afgana.
Frá dögum Alexanders mikla
Enn fleiri Pastúnar búa í Pakistan en eru þar þó ekki nema um 15 prósent íbúanna. Þegar fólk slær því fram að einhver sé afganskur að ætt er yfirleitt átt við að hún eða hann sé Pastúni.
Og rót talibana er sem sagt ekki bara sprottin úr bókstafstrú múslima, heldur einnig pastúnskri þjóðernishyggu. Það segja mér fróðir menn!
Pastúnar eru í grunninn hirðingjar og skiptast í ýmsa ættbálka sem hafa gegnum aldirnar haldið blýfast í hefðir, menningu og tungu, og láta ekki hlut sinn fyrir neinum, eins og mörg stórveldi hafa fengið að reyna síðustu aldir og árþúsund, allt frá því á dögum Alexanders mikla.
En uppruni þeirra er reyndar hulinn mistri sögunnar og margar mótsagnakenndar kenningar á kreiki. Það þarf ekki djarfar og ögn óforskammaðar kenningar eins og skyldleika Pastúna við hinar horfnu ættkvíslir Ísraels til að allt fari upp í loft á málþingum um uppruna Pastúna.
Leitað að uppruna Pastúna
Einn helsti sérfræðingur Evrópumanna um málið segir einfaldlega:
„Að grafast fyrir um uppruna Pastúna og Afgana er svolítið eins og að leita að uppruna Amazon-fljótsins. Er til ein upphafleg uppspretta? Og voru Pastúnar upphaflega alveg sama þjóð og [við köllum nú] Afganar? Þótt Pastúnar séu núna skýrt skilgreint þjóð með sitt eigið tungumál og menningu, þá eru nákvæmlega engar sannanir til um að allir Pastúnar á vorum dögum eigi sér einn og sama upprunann. Það er meira að segja mjög ólíklegt.“
En einmitt þessi óvissa gerir það að verkum að kenningunni um ævaforn áhrif horfinna hirðingjaættbálka Gyðinga á frum-Pastúna hefur tekist að smeygja sér inn í umræðuna – og vill bara ekki lognast út af.
Hvað segja DNA-rannsóknir?
Best er að taka fram strax að DNA-rannsóknir á Afgönum hafa ekki sýnt fram á sérstakan skyldleika Pastúna og Gyðinga. Með einni mikilvægri undantekningu þó. Árið 2017 birtist í tímaritinu grein þar sem sagt var frá rannsóknum sem þóttu gefa til kynna einhvern erfðafræðilegan skyldleika Khattak-ættbálksins við Gyðinga.
Khattakar eru Pastúnar og telja nú um þrjár milljónir. Flestir búa í Pakistan eftir að hafa flust frá Afganistan fyrir fáeinum öldum en slæðingur þeirra býr þó enn í Afganistan.
En nú er löngu tímabært að snúa sér að þeim vísbendingum sem höfundur Jerusalem Post-greinarinnar tínir til og telur geta rennt stoðum undir kenninguna um að fleiri eða færri Gyðingar hafi flust austur í afgönsku fjöllin um 500–600 árum fyrir Krists burð.
Íslam í Afganistan
Þá er fyrst til að taka að eftir að Arabar hófu útrás frá Arabíuskaga á 7. öld eftir Krist náðu þeir á rúmri öld yfirráðum í Afganistan og síðan ruddi hið arabíska íslam smátt og smátt úr vegi fyrri trúarbrögðum fjallabúa. Þeir höfðu flestir verið búddistar – að minnsta kosti að nafni til – en gamlar hefðir og trúarhugmyndir voru þó alls ekki upprættar með öllu.
Íslam festi svo rætur þarna í fjalladölunum, sem við erum farin að þekkja svo vel af fréttamyndum í sjónvarpinu undanfarna áratugi, og núorðið – sérstaklega eftir að harðneskjuleg íslömsk bókstafstrú tók að breiðast þar mjög út á seinni tímum – þá taka Pastúnar yfirleitt ekki annað í mál en öll þeirra trú, siðir og lífsviðhorf sé komið úr Kórani spámannsins.
Í raun vita þó allir sem vilja vita að lífslögmál Pastúna – sem kallast Pastúnvalí – er mun eldra en íslam. Þrjár eru helstu stoðir þess lögmáls: gestrisni og grið, sem allir skulu njóta sem fara með friði, og svo mjög ströng hefndarskylda. Og vissulega er margt skylt með Pastúnvalí og lögmáli Gamla testamentisins. Það segir þó ekki margt í sjálfu sér, því margar fornar þjóðir höfðu svipaðar áherslur.
„Synir Ísraels“
Hins vegar eru þekkt dæmi allt aftur frá 13. öld um að Pastúnar hafi litið á sjálfa sig sem „Bani Israel“ eða „syni Ísraels“ og það hugtak mun hafa dúkkað upp reglulega í frásögnum ferðamanna um Afganistan næstu aldirnar. Og franski ferðamaðurinn Joseph-Pierre Ferrier sagði í bók sinni um sögu Afgana, sem gefin var út á ensku 1858:
„Afganar telja það vera vísbendingu um gyðinglegan uppruna sinn að þegar [Persakonungurinn] Nader Shah Ashfar marseraði með herinn til Indlands [árið 1738] og hafði viðdvöl í Peshavar [nú í Pakistan], þá færðu höfðingjar Yusufzai-ættbálksins honum Biblíu á hebresku og ýmsa hluti aðra sem þeir höfðu notað til að tilbiðja Guð í árdaga og Gyðingar [við hirð Naders] báru undir eins kennsl á [sem gyðinglega tilbeiðsluhluti]. Sé það rétt þýðir það þó ekki að aðrir ættbálkar en Yusufzai-fólkið séu af sama [gyðinglega] upprunanum, enda eru Afganar mjög ólíkir, jafnt að útliti sem menningu þótt þeir tali sama tungumálið.“
Hópar Gyðinga á Indlandi
Annar höfundur, Bretinn Henry Bellew, vakti um svipað leyti athygli á að mörg staðar- og ættbálkanöfn á leiðinni frá Mesópótamíu til Indlands gætu bent til skyldleika við Gyðinga.
Og svo er að minnsta kosti ljóst að á Indlandi eru tveir hópar, Bene Israel og Bnei Menashe, sem telja sig Gyðinga og afkomendur þeirra Ísraelsmanna sem Tíglaþpíleser og fautar hans herleiddu frá Palestínu um 700 fyrir Krist. Og Bnei Menashe geymir í sínum sagnaarfi heilmiklar sögur um alllanga dvöl í Afganistan á leiðinni til Indlands. Þá gætu sem hægast einhverjir hafa orðið eftir.
Yitzchak Ben-Zvi benti í bók frá 1957 á ýmsa siði að minnsta kosti sumra ættbálka Pastúna sem virtust skyldari siðum Gyðinga en múslima, og nýlega hafa þeir doktorarnir Navraz Aafreedi (Indverji af Pastúnaættum) og Eyal Be’eri (helsti fræðimaður Ísraels um Pastúna) gert slíkt hið sama.
Svipaðir siðir?
Meðal slíkra siða má nefna umskurð piltbarna á áttunda degi, hömlur við að mjólk og kjöti sé blandað saman, kerti sem kveikt er á í þann mund að hvíldardagur hefst, þá skyldu karlmanna að giftast ekkju bróður síns og fleira.
Ekki ber að taka kenningar af þessu tagi of hátíðlega. Ólíkar þjóðir geta átt áþekka siði. Og maðurinn sem skrifar greinina í Jerusalem Post (Michael Freund) er formaður samtaka sem gera í því að leita uppi hina týndu ættbálka. Og hann bendir á það sjálfur að taka beri varlega þessari kenningu um gyðinglegan uppruna talibana.
En samt, þetta er nú allt dálítið merkilegt eigi að síður. Og kæmi vel á vondan ef talibanar þyrftu að horfast í augu við að vera að minnsta kosti að hluta komnir af Gyðingum.
Athugasemdir