Líklega hefur Davos-fundur World Economic Forum frestast í ár vegna Covid-19. Að minnsta kosti hef ég ekki orðið var við neinar fréttir af þeim vettvangi núna í byrjun árs. Það er synd þar sem ég hafði nokkurn áhuga á að heyra hvernig þeir ætluðu að fylgja eftir fundi síðasta árs. Þá gerðust þau tíðindi að tónninn í fundinum virtist gefa það í skyn að nú væri kominn tími til að endurskapa kapítalismann, að markaðshagkerfið eins og við þekkjum það væri gengið sér til húðar. En niðurstöður fundarins voru óljósar með smáatriðin. Ætluðu öflugustu aðilar markaðshagkerfis heimsins að fara að greiða hærri gjöld til samfélagsins og í öllum þeim löndum sem þeir starfa? Stendur til að hætta að ýta sífellt fleira launafólki úr starfsöryggi og út í svokallað „gigg-hagkerfi“? Á ekki lengur að hafa áhrif á lýðræðislegar ákvarðanir stjórnvalda með brögðum og lobbíisma? Hvað svo sem nákvæmlega á að einkenna hið nýja markaðshagkerfi er ljóst að forvígisfólk þess telur þörf á nýjum gildum. Að siðferðisstig fjármála- og viðskiptalífs þurfi að vera annað.
Hvort og hvernig svona umræða skilar sér til Íslands er alltaf erfitt að segja fyrir um. Á síðasta ári gekk mikið á og mörg mál voru til umræðu sem tengjast siðferði í viðskiptalífinu. Við sem samfélag vorum enn að reyna að gera okkur grein fyrir hvað átti sér stað í Namibíu á vegum Samherja. Förgun skips hjá Eimskipi kom einnig til tals. Og umræða fór fram um hvort fyrirtæki hefðu rétt á að nýta sér allar aðgerðir stjórnvalda vegna Covid eða hvort þau þyrftu að svara fyrir umsóknir sínar um mótvægisaðgerðir. Í ár verður svo væntanlega sala Íslandsbanka ofarlega í huga þeirra sem fylgjast með siðferði í viðskiptalífinu ásamt almennari vangaveltum um afdrif þess mikla fjármagns sem stjórnvöld hafa með réttu látið renna út í hagkerfið undanfarið ár.
Gagnsæi á að vera mikið töfraorð þegar kemur að þessum málum. Það er líka ágætt eins langt og það nær. Við getum talað um það sem nauðsynlegt en ekki nægjanlegt skilyrði þess að gera okkur grein fyrir því hvað er siðferðilega ásættanlegt. Vandamálið er að við komumst ekki hjá því að svara fjölmörgum öðrum spurningum um þessa siðferðilegu hlið um leið. Lög og lagarammi, til dæmis um gagnsæi, eiga vissulega að svara fjölmörgum spurningum um hvað er ásættanlegt í samfélaginu en um leið vitum við að hinar skráðu reglur samfélagsins eru eins og toppurinn á ísjaka, meginhlutinn þess hvað við teljum vera ásættanlegt eða ámælisvert verður aldrei skráður. Samfélagið þarf að greina hverjar aðstæður fyrir sig.
Hugmynd markaðshagkerfisins sjálfs um það hvernig við höldum okkur réttum megin við hið ásættanlega var lengi tiltölulega einföld. Ramminn sem á að koma í veg fyrir að við upplifum reglulega alls konar hneykslismál á að samanstanda af þremur þáttum. Í fyrsta lagi höfum við eftirlitsstofnanir, í öðru lagi ólíkar gerðir viðurlaga og að lokum samkeppnisumhverfi sem meðal annars á að láta fyrirtæki og rekstraraðila huga að orðsporsáhættu. Þetta er ágætis hugmynd en við vitum vel að hún virkar ekki alltaf í samtímanum. Fyrirtæki krefjast þess að hafa sífellt meira eftirlit með sjálfum sér, enda telja þau sig best til þess fallin. Viðurlög eru svo væg að alls konar brot borga sig einfaldlega og samkeppnin er nú bara ekki alltaf til staðar þrátt fyrir fögur fyrirheit. Það er kannski ekki að furða að fundurinn í Davos á síðasta ári vildi að spilin yrðu stokkuð upp á nýtt.
Tvö vinsæl sjónarhorn
Ég bíð spenntur eftir nákvæmum útfærslum þeirra sem fremst standa í viðskiptalífi heimsins. Eins og alltaf liggur skrattinn í smáatriðunum og útfærslunum. Það er eitt að segjast ætla að starfa af meiri heilindum og með fleiri gildi að leiðarljósi, en það er annað að útfæra það á merkingarbæran máta þannig að við getum litið svo á að verið sé að efla traust á heimi viðskipta. Sjálfur hef ég fylgst náið með þróun þess sem við getum kannski kallað siðferðileg skilaboð til atvinnulífsins undanfarin ár. Mér hefur sýnst þau fara um víðan völl og ekki felast í neinum tilteknum skilaboðum. Þó hefur mér sýnst að greina megi tvö meginviðhorf sem helst er vísað í þegar til stendur að bregðast við ákallinu um aukin heilindi. Þessi tvö meginviðhorf kenni ég stundum við þekkt siðferðileg hugtök, það er að segja dygð og ábyrgð.
Fyrra sjónarhornið, dygðahugsunin, sprettur fram við ólík tækifæri og í mismunandi samhengi. Og sum þau eftirminnilegustu eru ekki endilega tengd viðskiptalífinu beint. Mér er til dæmis minnisstætt núna að hafa verið að horfa á CNN þegar sjónvarpsstöðin lýsti yfir sigri Joe Biden í kosningunum í Bandaríkjunum síðastliðið haust. Álitsgjafi í sjónvarpssal komst við í beinni útsendingu þegar hann sagði að í ljósi þessara niðurstaðna yrði auðveldara að segja börnum sínum að mannkostir, eða karakter, fólks skipti í raun máli. Með því átti hann við að úrslit kosninganna sýndu hvernig meirihluti kjósenda hefði hafnað skorti á dygðum hjá öðrum frambjóðandanum. Svipuð hugsun kemur oft upp í sambandi við viðskiptasiðferði. Ef einstaklingar sem taka ákvarðanir búa bara yfir nægum mannkostum þá gerum við ráð fyrir að við munum ekki lenda í neinum vandræðum.
Það er engin spurning að dygðahugtakið leikur lykilhlutverk í siðferðilegu lífi okkar, hvort sem við notumst við það hugtak eða önnur sem lýsa mannkostum og eftirsóknarverðum karakter einstaklinga. Hér er átt við tilhneigingu einstaklinga til að bregðast við aðstæðum á lofsverðan máta. Raunar má þó segja að við ræðum þetta oftast, eins og í dæminu hér á undan, í sambandi við andstæðuna – þegar einstaklingar sýna reglulega af sér ámælisverðar tilhneigingar. Oft þegar siðareglur eru skráðar er reynt að ná utan um þessa dygðahugsun. Þar eru tiltekin viðmið sett á blað og vonast til þess að þau leiði af þeim mannkostum sem starfsfólk býr yfir. Dæmi um slík viðmið eru til dæmis heilindi og samhygð. Jafnvel hugrekki í krefjandi aðstæðum.
Vandamálið við þetta viðhorf er að fókusinn verður heldur þröngur. Hann endar oft á einstaklingum og í samhengi viðskipta kemur þetta oft út sem einhvers konar persónudýrkun á einstaklingum sem við vitum í raun ekkert um. Oft er talað um „leiðtoga“ í þessu sambandi. Þó vitum við að ákvarðanataka í fyrirtækjum er flókið ferli þar sem menning skiptir meira máli heldur en maðurinn sjálfur. Þá verður einnig að taka tillit til þess að fólk með tiltölulega dapran persónuleika getur alveg tamið sér að taka ekki ámælisverðar ákvarðanir í faglegu samhengi. Ef lögð er ofuráhersla á dygðahugsun getur það mögulega leitt til þess að vinnustaðir leggi of litla áherslu á ígrundun og röklega ákvarðanatöku en bíði þess í stað eftir því að tilteknir leiðtogar marki kúrsinn.
Ef framangreint sjónarhorn þykir of þröngt þá fara margir yfir í töluvert vítt sjónarhorn og leggja allt samfélagið undir, ef svo má segja. Samfélagsleg ábyrgð hefur verið töluvert mikið í umræðunni á undanförnum árum og sú hugsun styrkst í sessi að verkefni fyrirtækja sé að skilgreina leiðir og ferla sem sýna að þau axli ábyrgð í samfélaginu um leið og þau starfa á forsendum markaðshagkerfisins. Í sem stystu máli gera þau það með því að sýna fram á að þau gerist ekki sek um hugsunar- eða skeytingarleysi í rekstri sínum. Umhverfi, samfélag og starfsfólk á ekki að standa verr eftir þegar reksturinn er gerður upp. Traust á að verða til við að gríðarmagni upplýsinga er safnað saman og gert aðgengilegt um áhrif rekstursins. Grunnhugmyndin á bak við þessa leið er að sannfæra fólk um að fyrirtækið hafi fært athygli sína frá hluthöfum eingöngu og til svokallaðra „haghafa“. Í raun er þeirri hugmynd gefið undir fótinn að haghafar séu nokkurs konar andlag rekstursins, það sem allt snýst um að lokum.
Þetta síðarnefnda sjónarhorn hefur orðið svo áberandi á síðustu árum að sumir virðast telja að þarna sé komin lausnin fyrir hið nýja markaðshagkerfi. En þá gleymist stundum að þessi lausn er ekki hafin yfir gagnrýni. Sjálfur hef ég til dæmis átt erfitt með að greina nákvæmlega hvaða röksemdir liggja þarna að baki. Þær eru fjölbreyttar og vísa í margar áttir. Að sumu leyti er það styrkleiki þeirra en að sama skapi getur maður spurt sig hvort heildarhugsun sé í raun til staðar. Hópur mögulegra haghafa er svo stór að þar liggja oft óteljandi og ósamrýmanlegir hagsmunir að baki. Þá er hugmyndin sú að haghöfum er stefnt gegn hluthöfum þegar kemur að ákvarðanatöku, en samt eru kostir sjónarhornsins yfirleitt kynntir á þann hátt að ekki dragi úr hagnaðarmöguleikum til langs tíma. Að lokum má nefna að þarna virðist vera gengið nokkuð langt í því að leyfa atvinnu- og fjármálalífi að byggja upp sinn eigin eftirlitsiðnað. Margir hafa því spurt hvort verið sé að færa eftirlit og leikreglur frá yfirvöldum og hvort það sé í raun rétta leiðin til að efla traust á viðskiptalífinu.
Er rými fyrir nýja nálgun?
Það er ekki óeðlilegt að dygðir og ábyrgð séu þau hugtök sem mest hefur verið sótt í þegar leitast hefur verið við að finna leiðir til að styrkja tiltrú á leikendur innan markaðshagkerfis. Ég hef hins vegar verið að velta fyrir mér hvort tími sé kominn á nýja nálgun og nýtt hugtak til að túlka hana. Hugtakið sem liggur kannski mest í augum uppi er skylduhugtakið. Það hefur þó einnig sína ókosti og er ekki sérstaklega vinsælt í samtímanum. Ég hef því reynt að máta annað hugtak sem nær kannski yfir sama hlut. Hugtakið sem ég á við er hæfni. Hæfnin sem ég er velta fyrir mér er nánar tiltekið hæfnin til að skilja og greina þann siðferðilega veruleika sem maður stendur andspænis í því hlutverki sem maður finnur sig í.
Traust er kannski ekki flóknasta siðferðilega hugtakið sem maður fæst við. Það er ágætlega þekkt hvað skapar traust og viðheldur því. Traust er ekki gildi sem maður getur valið til að skreyta sig með. Hugtakinu er ætlað að lýsa sambandi þess sem er berskjaldaður í ákvarðanatöku og þess sem hefur yfirburðastöðu en hefur um leið skapað sér trúverðugleika í þeirri stöðu. Traust er með öðrum orðum mikilvægt þar sem upplýsingar og gagnsæi getur ekki verið til staðar – og okkur finnst kannski eftirsóknarvert að hafa ekki allt uppi á borðum. Sá aðili sem ætlar sér að ávinna sér trúverðugleika þarf að sýna fram á að hann skilji til hvers er ætlast af honum, að hann hafi ekki einungis nærtækustu hagsmuni sína í huga og að hann geti útskýrt hvers vegna hann ætti að gera eitt fremur en annað. Það er þetta síðastnefnda atriði sem ég kenni við hæfni. Hún er lykilþáttur í því að geta svarað fyrir ákvarðanir sínar.
Og hvers vegna er þetta allt saman mikilvægt? Mig grunar að það sé eilítil sjálfsblekking í gangi um að við getum búið við markaðshagkerfi sem starfar í sátt við allt og alla. Togstreita milli ólíkra hagsmuna er ekki af hinu illa ef við reynum meðvitað að skapa rými sem getur orðið vettvangur þess að trúverðugleiki ólíkra aðila komi í ljós í krafti hæfni þeirra. Að sætta sig við málamiðlanir getur verið dæmi um eina birtingarmynd þessarar hæfni. Önnur birtingarmynd væri að grípa tækifærið til að sýna skilning á anda laga við erfiða ákvarðanatöku.
Trúverðugleikinn fælist því ekki í að breyta markmiðum rekstursins heldur í því að sýna að maður sætti sig við tilteknar takmarkanir á honum. Að maður hafi bæði þekkingu og leikni til að vinna innan opinberra takmarkana. Flestir aðilar í markaðshagkerfi sýna einmitt af sér þá hegðun að þeir gangist við nokkurs konar sáttmála við samfélag sitt. Þeir reyna að falla ekki í þá freistni að nýta sér veikleika í samkeppnisumhverfi, eða leita eftir opinberum stuðningi til að takmarka samkeppni. Þeir reyna að varpa ekki kostnaði yfir á aðra en þá sem greiða fyrir vörur og þjónustu, og skapa þannig óeðlilega verðmyndun. Svona mætti lengi telja. Lykilfólk í atvinnulífinu þarf að hafa tækifæri til að þróa hjá sér hæfni í vel skilgreindum hlutverkum. Hæfnin kemur fram í skilningi á þeim opinbera ramma sem við setjum um sameiginlegar ákvarðanir.
Það er augljóslega ekki ætlun mín með þessum skrifum að tala gegn dygðugu líferni eða gera lítið úr mikilvægi þess að fyrirtæki skrásetji alls konar stefnur um það hvernig þau ætla að sýna ábyrgð í áhrifum sínum á umhverfi og samfélag. Í mínum huga snýst þetta um það hvort mögulegt sé að nýta það besta frá báðum sjónarhornum og sameina í leið til aukinnar sáttar og trausts til viðskiptalífsins. Við megum hvorki einfalda né flækja það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Hver veit nema fundarmenn í Davos á síðasta ári hafi einmitt fundið hinn vandrataða meðalveg, en fyrri spor þeirra hræða. Í bili held ég að verkefnið sé að finna leiðir til að efla hæfni stjórnenda og starfsfólks til að starfa af heilindum í umhverfi sem hefur trú á mikilvægi og eðli opinbers eftirlits, raunverulegra valdheimilda og virkrar samkeppni.
Athugasemdir