Hinn 25. janúar var réttur settur í bænum Evry skammt frá París. Ákærandinn var víetnömsk kona, sjötíu og átta ára að aldri, Tran To Nga að nafni og ein síns liðs, en sakborningarnir sem andspænis henni sátu voru engir aukvisar, það voru fjórtán risar efnaframleiðslunnar, þar á meðal Monsanto-Bayer og Dow Chemicals. Þeim var gefið að sök að hafa framleitt eiturefni sem bandaríski herinn stráði yfir Víetnam og Laos á dögum Víetnamstríðsins í því skyni að eyða gróðri – og uppskeru bænda í leiðinni – svo skæruliðar ættu sér hvergi skjól. Ekki verður sagt að mikill jöfnuður hafi verið með málsaðilum, og höfðu hinir ákærðu beitt alls kyns brögðum, með her lögfræðinga að liði, til að tefja fyrir málinu og spilla því. Vonuðust þeir væntanlega til að geta tafið fyrir því þangað til frú Tran To Nga væri komin á æðra tilverustig, þar sem enginn er efnaiðnaðurinn, en það tókst ekki; eftir sex ára málastapp og nítján frestanir kom það loks fyrir rétt.
Fór Ho Chi Min-leiðina
Þessi málaferli eiga sér langan aðdraganda. Tran To Nga byrjaði kornung að taka þátt í frelsisbaráttu Víetnama, að áeggjan móður sinnar, og man það lengst að hún geymdi leynileg skilaboð til skæruliða í skólatöskunni. Þá stóð baráttan gegn frönsku nýlenduherrunum og lyktaði henni svo að Frakkarnir urðu að snauta burt. En nokkrum árum síðar var komið nýtt Víetnamstríð, þá voru það Bandaríkjamenn og leppstjórn þeirra í Suður-Víetnam sem börðust gegn uppreisnarmönnum, hinum svokölluðu „Víetcong“, en þeir höfðu stuðning Norður-Víetnama sem voru sjálfstæðir. Í janúar 1966 lagði Tra To Nga af stað með tvö hundruð öðrum ungmennum af stað yfir fjöll og skóga eftir hinni svokölluðu „Ho Chi Minh-leið“, sem var aðalsamgönguæðin milli Suður- og Norður-Víetnams, þúsund kílómetra löng, og notuð til að flytja birgðir til skæruliða. Hún gekk fjóra mánuði með þunga byrði á baki. Eftir þetta lifði hún mörg ár í skóginum í hópi með uppreisnarmönnum, fæddi barn ein, var fangelsuð og sætti pyndingum.
Á þessum tíma – það var haustið 1966 – gerðist örlagaríkur atburður í lífi hennar. Hún var stödd í bækistöð frelsishreyfingarinnar í þorpi nálægt Saigon, þegar bandarísk flugvél flaug þar yfir og dreifði yfir svæðið hvítu skýi, eins konar límkenndum úða, líkt og slökkviliðsflugvél væri að verki. „Þetta var óþægilegt“, sagði hún, „mjög ógeðslegt“. Hún var þá aðstoðarkona móður sinnar sem var hátt sett í hreyfingunni, formaður „Sambands kvenna fyrir frelsun Saigon“, og vann við greinaskrif fyrir hana. Hún lét því nægja að þvo sér og hugsaði svo ekki meira um þetta, „það gerist svo margt í stríði“. Enginn hafði þá áhyggjur af því „hversdagslega“ eitri sem Bandaríkjamenn notuðu til að eyða gróðri. „Þetta vex allt aftur þegar stríðinu er lokið“, sögðu menn. Þremur árum síðar eignaðist hún dóttur sem dó fljótlega. „Þetta var fallegt barn, en skömmu eftir fæðingu fór skinnið að detta af henni í bútum, svo ég gat ekki tekið hana í fangið; hún átti erfitt með að anda.“
Tíminn eftir að Víetnam sameinaðist og fékk sjálfstæði var ekki eins auðveldur og Tra To Nga hafði vonast til. Hún starfaði í skólakerfinu, en fann að hún var ekki í náðinni hjá yfirvöldum – enda var hún ekki kommúnisti og hafði aldrei verið – svo hún fór fram á að fara á eftirlaun og fékk það. Þá setti hún á stofn litla ferðaskrifstofu fyrir Frakka sem vildu heimsækja landið þar sem þeir höfðu áður dvalist, ekki síst fyrrverandi hermenn (að því best verður heyrt er hún tvítyngd). En um þetta leyti fór hún að hafa afskipti af málefnum munaðarleysingjahæla, og sá þá með eigin augum hvernig komið var fyrir börnum sem fædd voru á stíðsárunum og eftir þau: hún sá börn með vatnshöfuð, án handleggja, blind og heyrnarlaus, börn sem þroskuðust ekki, gátu ekki staðið upp og gengið, og hristust af ósjálfráðum hreyfingum. Um leið fór hana að gruna hvaða tengsl kynnu að vera milli þessa „límkennda úða“ sem hún fékk yfir sig haustið 1966 og örlaga dóttur hennar. Hún eignaðist tvær aðrar dætur sem lifðu, en við illa heilsu, önnur þeirra verður stöðugt að hafa öndunarvél nálægt sér. Sjálf hefur hún orðið að berjast við krabbamein, eins og fjölmargir þeir sem höfðu fengið yfir sig þennan „límkennda úða“ úr lofti eða komist í snertingu við hann á landi.
Á þessum tíma fór einnig að koma í ljós að sá gróður sem Bandaríkjamenn höfðu eytt með þessu eitri óx ekki aftur eins og hann var fyrir árásirnar, í staðinn spratt undarlegt, hávaxið gras sem menn kölluðu „Ameríkanagras“. Trjágróður veslaðist upp. Læknar tóku nú að rannsaka áhrif eiturefnanna, þar á meðal kona að nafni Ngoc Phuong, fæðingalæknir og sérfræðingur í vansköpun fóstra. Hún birti niðurstöður af rannsóknum sínum og fór auk þess til Bandaríkjanna til að kynna þær. En í Víetnam var þetta feimnismál fram undir 1988, því menn vildu forðast að hræða fjölskyldur, en síðan breyttist það, og nú eru ófrískar konur hvattar til að fara í rannsókn.
80 milljónir lítra jurtaeiturs
Ýmsar alþjóðastofnanir, svo sem UNESCO, gengu í málið og tóku saman yfirlit yfir það sem gerst hafði. Á árunum milli 1964 og 1975 úðuðu Bandaríkjamenn áttatíu milljónum lítra af jurtaeitri úr flugvélum og þyrlum yfir landið, það var af ýmsu tagi þótt innihaldið væri einkum díoxín; sterkasta og illræmdasta eitrið var kennt við appelsínugulan lit, eftir umbúðunum. Á þennan hátt eyddu Bandaríkjamenn 400.000 hekturum af ræktuðu landi, tveimur milljónum hektara af skóglendi, og 500.000 hekturum af fenjaviðarþykkni. Þúsundir þorpa fengu heimsóknir þessara eiturspúandi finngálkna. Einn fimmti hluti af skógum Suður-Víetnams fór forgörðum. Þessi styrjöld var mesta eiturefnastríð sögunnar. Fyrir mannfólk voru afleiðingarnar skelfilegar, eitrið réðst á taugakerfið og ónæmiskerfið, og þótt tölur séu á reiki er áætlað að á milli 2,1 og 4,8 milljónir Víetnama hafi orðið fyrir eitrinu. En það versta er að þessum hörmungum var ekki lokið þegar stríðið tók enda, eitrið festist í jaðveginum, allt niður á tveggja og hálfs metra dýpi, svo og í drykkjarvatninu, og þannig liggur það í leyni fyrir þeim sem nú lifa, þótt þeir séu fæddir löngu eftir stríðið, og það vofir yfir óbornum kynslóðum. Konur gefa börnum það óvitandi með móðurmjólkinni.
Tran To Nga tók að sér að vekja athygli á þessum stríðsglæp – því ekki er hægt að nefna hann öðru nafni, þar sem hann bitnar ekki aðeins á óbreyttum borgurum nútímans heldur framtíðarinnar líka og hlýtur auk þess að teljast glæpur gegn umhverfinu – en markmið hennar er ekki að fá neinar skaðabætur heldur vekja athygli manna á því sem gerðist, fá það viðurkennt og vara við hættunni. Um þetta skrifaði hún bók á frönsku, „Mitt eitraða land“, sem kom út árið 2016, tveimur árum eftir að hún höfðaði málið.
En hún var þó ekki að öllu leyti rödd hrópandans í eyðimörkinni. Fleiri höfðu orðið fyrir eitrinu en Víetnamar einir – bandarískir hermenn sem höfðu meðhöndlað þennan appelsínugula óvætt ógætilega höfðu einnig sýkst. Og þeir höfðuðu mál gegn framleiðendunum. Á það var sæst að lagðar væru fram 180 milljónir dollara til að bæta ýmsum uppgjafarhermönnum heilsutjónið. En fyrrum andstæðingar þeirra hafa aldrei fengið neitt, samtök fórnarlamba eitursins hafa þrisvar tapað máli fyrir bandarískum dómstólum, og einu sinni fyrir Hæstarétti. Þeirra mál var höfðað á grundvelli Genfarsáttmála frá 1925 sem bannar notkun eiturefna í styrjöld, en dómari kvað upp þann úrskurð að jurtaeitur teldist ekki eitur samkvæmt alþjóðalögum.
Fædd til fransks ríkisborgararéttar
Tran To Nga hefur getað nýtt sér smugur í frönskum lögum. Þar sem hún fæddist 1942 þegar „Indókína“, eins og það hét þá, var frönsk nýlenda, á hún rétt á að teljast franskur ríkisborgari, og þá getur hún lagt fram kæru fyrir frönskum dómstól vegna tjóns sem hún hafi orðið fyrir, þó það hafi verið í öðru landi. Mál hennar er því persónulegt, það snertir einungis það heilsutjón sem hún varð sjálf fyrir, en það gæti orðið fordæmi fyrir aðrar málshöfðanir. Efnaframleiðendurnir eru í erfiðri stöðu og eiga mikið í húfi – það væru öfugmæli að segja að Monsanto, sem Bayer hefur nú lagt undir sig, hafi góða pressu um þessar mundir, fyrirtækið verður hvaðanæva fyrir harðri gegnrýni vegna skaða af völdum jurtaeiturs sem er notað í landbúnaði, og drepur t.d. býflugur unnvörpum. Eitt mál af þessu sama tagi er í fréttunum um þessar mundir, það er út af jurtaeitri sem notað var við bananarækt í frönsku Vestur-Indíum og hefur valdið skaða af svipuðu tagi og varð í Víetnam; sýnt er að jarðvegurinn verður þar mengaður um langt árabil, jafnvel öldum saman, íbúum til varanlegs heilsutjóns. Í þessum skrifuðum orðum segja fjölmiðlar frá hörðum mótmælum eyjarskeggja í vestri vegna þess að horfur eru á að málinu verði vísað frá á þeim forsendum að það sé fyrnt. Ef efnaframleiðendur eru nú dregnir til ábyrgðar fyrir tjón af völdum þess eiturs sem þeir framleiða – og kannske er um leið farið að spyrja hvort þeir hafi ekki sjálfir vitað um hætturnar og reynt að leyna þeim – er hætt við að þeir verði að þola þungar skriftir.
Barátta Tran To Nga vekur mikla athygli í heimalandi hennar og hún á aðgang að æðstu mönnum landsins, en stjórnvöld styðja hana þó ekki opinberlega, og veldur því „realpolitik“. Víetnömum er nú mjög í mun að hafa sem best samband við fjendur sína fyrrverandi, Bandaríkjamenn. Þeir líta svo á, vafalaust réttilega, að Bandaríkjamenn geti einir varið þá gegn yfirgangi Kínverja sem láta nú sem dólgslegast í þessum heimshluta og færa sig stöðugt upp á skaftið. Að þessu leyti fara hagsmunir Víetnama og Bandaríkjamanna mjög saman.
Baráttan gegn stríðinu reyndist réttlát
Nú er rétt að beina sjónum aftur í tímann. Eitt það kennileiti sjöunda áratugarins sem hvað skýrast blasir við úr áratuga fjarska er hin svokallaða uppreisn ungmenna með öllu því sem henni fylgdi, nýjum viðhorfum, nýju siðferði, nýrri tónlist og ýmsum smærri þáttum, svosem nýrri hártísku. En einn burðarásinn í því öllu voru mótmælin gegn Víetnamstríðinu sem fóru af stað í Bandaríkjunum, þar sem ungir menn áttu yfir höfði sér að vera kvaddir í herþjónustu, en breiddist víða um heim; þau risu hátt í Vestur-Þýskalandi og Frakklandi og voru ein rótin að óeirðunum ´68. Gegn þessari hreyfingu hömuðust hægri sinnaðir fjölmiðlar og völdu ungmennunum, „stúdentunum“ eins og þau voru oftast kölluð, öll þau ónefni sem þeir kunnu, og hefðu brúkað fleiri ef þeir hefðu kunnað þau. Enn eru þeir til sem rekja flestöll vandamál heims til þessarar unglingauppreisnar, svosem „siðferðilega upplausn“ eins og þeir kalla það. En þessi barátta gegn Víetnamstríðinu var réttlát, og nú er augljóst að hún var réttlátari en jafnvel mótmælendurnir vissu, því varla gátu þeir ímyndað sér að börn myndu fæðast bækluð og vansköpuð af völdum styrjaldarinnar mörgum árum eftir að henni væri lokið.
Til að rifja þetta upp og veita Tran To Nga jafnframt andlegan stuðning í baráttu hennar, ættu menn að gefa sér tóm til að raula einhverja mótmælasöngva frá þessum örlagaríku árum og senda henni sönginn í hugskeyti.
Dómur verður kveðinn upp í málinu 10. maí.
Athugasemdir