Yfir bænum heima er þrítugasta og þriðja skáldsaga Kristínar Steinsdóttur en í ár eru 33 ár síðan hún gaf út sína fyrstu bók, Franskbrauð með sultu. Það var árið 1987 og fyrir hana hlaut Kristín Íslensku barnabókaverðlaunin. Hún skrifaði mikið fyrir börn og unglinga en langaði þá að skrifa fyrir fullorðna og hefur nú gert það um árabil.
Sagan sem kom út í lok október er fjölskyldusaga sem gerist á Seyðisfirði í seinni heimsstyrjöldinni en sjálf er Kristín fædd þar og uppalin.
Foreldrar mínir upplifðu stríðsárin á Seyðisfirði, eldri systkini, nágrannar, frændur og frænkur líka. Sjálf er ég fædd ári eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk en samt fannst mér eins og stríðinu hefði aldrei lokið. Það lifði með okkur í endalausum sögum og leikjum í gömlum loftvarnabyrgjum í hlíðunum heima. Stundum var upplifunin svo sterk að ég heyrði hvininn frá flugvélum og loftvarnabyssum. Og sprengjurnar féllu allt í kringum mig. …
Athugasemdir