Höfuðeinkenni þýzka efnahagsundursins frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari 1945 hefur verið óbilug áherzla stjórnvalda á stöðugt verðlag fyrir tilstilli sjálfstæðs seðlabanka, fyrst Seðlabanka Þýzkalands meðan hann var og hét og síðan Evrópska seðlabankans eftir að evran kom til skjalanna 1999. Brýna nauðsyn þótti bera til að halda verðbólgu í skefjum enda voru Þjóðverjar skaðbrenndir af óðaverðbólgu áranna milli stríða. Erfiðara virtist að átta sig á tortryggni þýzkra stjórnvalda í garð hagstjórnar til sveiflujöfnunar af því tagi sem tók að tíðkast í Frakklandi og á Ítalíu árin eftir 1960 líkt og í Bretlandi og Bandaríkjunum og einnig annars staðar. Nýjungin gafst vel. Eins og hendi væri veifað dró mjög úr sveiflugangi í efnahagslífi. Til þess var leikurinn gerður.
Hugmyndin um hagstjórn til sveiflujöfnunar í þjóðarbúskapnum varð til sem uppreisn gegn máttlausum viðbrögðum stjórnvalda gegn heimskreppunni 1929–1939. Menn vissu ekki betur. Brezki hagfræðingurinn John Maynard Keynes, háskólakennari í Cambridge á Englandi, leiddi uppreisnina með höfuðriti sínu þar sem hann lagði grunninn að þjóðhagfræði nútímans sem fræðigrein 1936. Höfuðhugmyndin var einföld. Stjórnvöld geta mildað hagsveiflur og girt fyrir djúpar kreppur með því að örva efnahagslífið með auknum útgjöldum, minni skattheimtu, lægri vöxtum o.fl. Þau geta einnig hamlað þenslu í efnahagslífinu þegar það á við með því að stíga á bremsurnar frekar en bensíngjöfina.
Tortryggnin í Þýzkalandi í garð sveiflujöfnunar sýndist að sumu leyti vera af hugmyndafræðilegum rótum runnin. Þjóðverjar áttu sinn eigin Keynes, lítt þekktan þarlendan hagfræðing, sem lagði annan skilning í gangverk efnahagslífsins og lagðist gegn sveiflujöfnun líkt og læknir sem leggst gegn bólusetningum. Þessi afstaða þýzkra stjórnvalda kom þó ekki að sök, að minnsta kosti ekki heima fyrir, enda var mikil gróska í þýzku efnahagslífi eftir styrjöldina, gróska sem var knúin áfram af auknum útflutningi á þýzkum vörum og þjónustu. Þó hefur atvinnuleysi í Þýzkalandi sveiflazt meira til sem hlutfall af mannafla síðan 1990 en í Frakklandi, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Þýzkt aðhald án sveiflujöfnunar dró þó dilk á eftir sér erlendis eins og Grikkir fengu að kenna á eftir fjármálahremmingarnar 2007–2009. Það var þá sem þríeykið svo nefnda – Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópski seðlabankinn og Evrópusambandið – settu að kröfu þýzku stjórnarinnar strangt aðhald sem skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð við Grikkland, svo strangt aðhald að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn baðst velvirðingar nokkru síðar og bar fyrir sig skekkjur í útreikningum.
Ekki einu sinni heldur tvisvar
Hvað sem þessu líður brugðust Þjóðverjar vel heima fyrir við fjármálahremmingunum 2007–2009. Samdráttur landsframleiðslu Þýzkalands varð miklu minni en í Frakklandi, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Atvinnuleysi í Þýzkalandi minnkaði smám saman úr 11% af mannafla in 2005 niður í 3% in 2019. Smávægileg aukning atvinnuleysis 2009 breytti litlu sem engu um þessa heillavænlegu þróun.
Hvernig fóru Þjóðverjar að þessu? Svarið er einfalt. Þeir stigu svo sem vera bar á bensíngjöfina með auknum útgjöldum ríkisins og minni skattheimtu til mótvægis við samdráttinn í einkageiranum. Keynes var mættur á svæðið. Þannig stóð á því að framleiðsla í Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu dróst miklu minna saman 2008–2010 en raunin varð í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fyrirstaðan í Bretlandi og Bandaríkjunum var hugmyndafræðilegur mótþrói gegn ríkisafskiptum af hálfu brezkra íhaldsmanna og bandarískra repúblikana sem heimtuðu strangt aðhald heima fyrir líkt og Þjóðverjar heimtuðu af Grikkjum. Þess vegna jókst atvinnuleysi þessi ár mun meira í Bretlandi og Bandaríkjunum en í Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu. Brezk og bandarísk stjórnvöld höfðu snúið bakinu við Keynes þótt mikið lægi við.
Sagan býst nú til að endurtaka sig. COVID-19 heimsfaraldurinn hefur fært mönnum heim sanninn um eitt af grundvallarlögmálum efnahagslífsins: Útgjöld eins eru tekjur annars. Þegar tekjur hrundu frá 2019 til 2020 jókst atvinnuleysi (sjá töflu). Í Þýzkalandi var aukningin smávægileg líkt og í Frakklandi og á Ítalíu. Í Bandaríkjunum hefur atvinnuleysi á hinn bóginn meira en tvöfaldazt og einnig á Íslandi.
Hvernig gat þetta gerzt? Þýzka stjórnin beitti markvissum aðgerðum í ríkisfjármálum sem dugðu til að örva efnahagslífið og halda aukningu atvinnuleysis við eitt prósentustig eða þar um bil, úr 3% af mannafla í 4%, borið saman við 7% atvinnuleysi þar í landi að jafnaði frá 1990. Í marz 2020, skömmu eftir upphaf faraldursins, kunngerði þýzka ríkisstjórnin metnaðarfulla björgunaráætlun (Soforthilfe) til verndar lýðheilsu, atvinnu, fyrirtækjum og samheldni. Framhaldsaðgerðir voru kynntar í júní. Til að standa straum af bjargráðunum þarf þýzka ríkið að taka að láni 300 milljarða evra. Fjárhæðin jafngildir næstum 10% of landsframleiðslu Þýzkalands and 3.600 evrum á hvert mannsbarn í landinu. Keynes hefði tekið ofan fyrir Þjóðverjum.
Hvernig metum við árangurinn?
Þessi bjargráð, hin metnaðarfyllstu í sögu Þýzkalands, þarf að vega og meta, ekki með því að einblína á útlát ríkisins í evrum talið heldur með því að skoða efnahagsárangurinn af þessum útlátum. Árangurinn er aðalatriðið, ekki aðferðin. Féð sem þýzka ríkisstjórnin lét af hendi rakna náði hratt og örugglega í réttar hendur. Sjálfstætt starfandi einstaklingar – t.d. listamenn – og fyrirtæki með allt að fimm manns í vinnu fengu 9.000 evrur (1,5 mkr.) í hendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar og fyrirtæki með allt að tíu manns í vinnu fengu 15.000 evrur (2,4 mkr.). Markmiðið var að fleyta viðtakendum yfir fyrstu þrjá mánuði faraldurins og halda óþolinmóðum lánardrottnum og leigusölum í hæfilegri fjarlægð. Það tókst bærilega. Til að flýta fyrir voru greiðslurnar ekki tekjutengdar fyrstu sex mánuðina.
Frakkar hleyptu hliðstæðri björgunaráætlun af stokkunum. Hún kostar ríkið 235 milljarða evra auk 330 milljarða evra lánsfjártrygginga. Bjargráðin á Ítalíu kosta 110 milljarða evra auk 400 milljarða evra lánsfjártrygginga. Öll löndin þrjú hafa einnig notið góðs af slökun peningastefnunnar af hálfu Evrópska seðlabankans sem lætur ekki sitt eftir liggja.
Seint í marz leið samþykkti Bandaríkjaþing sína björgunaráætlun (CARES) sem er flókin blanda ýmissa aðgerða í ríkisfjármálum og peningamálum og kostar 2.300 milljarða Bandaríkjadala. Við bætast lán bandaríska seðlabankans að svipaðri fjárhæð til fólks og fyrirtækja. Þingið hefur ekki komið sér saman um frekari aðgerðir. Bandaríska fjármálaráðuneytið leitar nú leiða til að draga til baka boð um hjálp sem hefur ekki enn borizt ætluðum viðtakendum, væntanlega vegna þess hversu ómarkviss áætlunin var.
Reynslan frá Bandaríkjunum afhjúpar ósamræmið milli umfangs bjargráðanna á pappírnum og mikillar aukningar atvinnuleysis sem hefur þar að auki svipt tugi milljóna bandarískra launþega heilbrigðistryggingum að svo miklu leyti sem þær eru á vegum vinnuveitenda sem er algeng skipan vestra. Fjórða hvert heimili í Bandaríkjunum býr við fæðuöryggisleysi í faraldrinum. Í því felst að fólkið veit stundum ekki hvaðan næsta máltíð kemur ef hún kemur.
Þetta á samt ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Ríkisstjórnir í fáræðislöndum eins og í Bandaríkjum Trumps, fráfarandi forseta, hafa önnur mál í forgangi en ríkisstjórnir óskoraðra lýðræðis- og félagsréttarríkja á borð við Þýzkaland, Frakkland og Ítalíu.
Bandaríkin eru ekki ein á báti. Með tvöföldun atvinnuleysis í vændum frá 2019 til 2020 samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (sjá töflu) vegna ómarkvissra viðbragða við efnahagsafleiðingum faraldursins skipar Ísland sér eina ferðina enn í sveit með Bandaríkjunum frekar en Evrópu. Listamenn og annað sjálfstætt starfandi fólk hér heima þurfti að bíða tekjulaust langt fram á haust eftir mun minni fjárhagsaðstoð en þeirrri sem þýzka ríkisstjórnin reiddi fram strax í vor leið. Ríkisstjórnin hefur ekki enn lagt fram fagmannlega greinargerð um efnahagsvandann af völdum faraldursins og rétt viðbrögð við honum heldur veður hún áfram í villu og svíma.
Bandaríki Trumps og Ísland eiga fleira sammerkt. Í Bandaríkjunum hafa repúblikanar fyrir opnum tjöldum beitt sér fyrir stjórnarbyltingu til að snúa við úrslitum forsetakjörs sem þeir töpuðu með miklum mun. Annað eins hefur aldrei áður gerzt í landinu. Hér heima er staðan þessi: Ríkisstjórnin, undirgefin útvegsmönnum sem Alþingi gerði að auðmönnum með því að færa þeim fiskinn í sjónum á silfurfati, heldur áfram að vanvirða yfirgnæfandi úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá sem er einmitt ætlað að leysa stjórnmálamenn undan ofurvaldi útvegsmanna og gera Alþingi kleift að strjúka aftur um frjálst höfuð og endurvinna traust fólksins í landinu. Annað eins hefur aldrei áður gerzt í nokkru nálægu landi.
Þegar lýðræði er í uppnámi hneigjast brestirnir til að bitna á almannahag.
Athugasemdir