Alvarlegast er ástandið í Bandaríkjunum þar sem 250 þúsund manns hafa nú látið lífið af völdum veirunnar. Það gerir um fimmtung allra dauðsfalla af völdum veirunnar um heiminn enda þótt íbúafjöldi Bandaríkjanna sé aðeins um 4% af fjölda jarðarbúa. Fjöldi smitaðra þar í landi er nú kominn upp fyrir 10 milljónir samanlagt og eykst um meira en 100 þúsund á degi hverjum, bráðum 200 þúsund á dag fari svo sem horfir.
Bandaríkin eru í 8. sæti listans yfir þau lönd þar sem flestir hafa látið lífið af völdum veirunnar miðað við mannfjölda. Flest hafa dauðsföllin verið í Belgíu þar sem einn af hverjum 880 íbúum hefur látizt og næstflest í Perú þar sem einn af hverjum 950 er fallinn í valinn. Þar næst kemur Spánn með einn af hverjum 1.200 og síðan koma Brasilía, Síle, Bólivía, Argentína og Bandaríkin í þessari röð með einn af hverjum um það bil 1.300 í valnum.
Ef við horfum fram hjá örríkjunum San Marínó og Andorra, sem eru ekki talin með að framan, eru Bandaríkin í 8. sæti listans á eftir tveim Evrópulöndum og fimm Suður-Ameríkulöndum. Mexíkó fylgir fast á hæla Bandaríkjanna sem hafa þokazt upp eftir listanum undangengnar vikur.
Látum það vera að fyrsta bylgja faraldursins hafi komið stjórnvöldum í Evrópu og Ameríku í opna skjöldu, það er skiljanlegt. Hitt er illskiljanlegt og afleitt að þau skyldu ekki læra rétta lexíu af reynslunni heldur sleppa annarri bylgju lausri. Sama gerðist reyndar í San Francisco 1918. Snör viðbrögð borgaryfirvalda héldu fyrstu bylgju spænsku veikinnar frá borginni, en yfirvöldin fylltust þá fölsku öryggi og voru því óviðbúin þegar önnur bylgjan skall á borginni.
Dráttarvélar og vodka
Hvernig gat þetta gerzt? Í Belgíu og á Spáni virðist röð óhappa eiga talsverðan þátt í hvernig fór þrátt fyrir öflugar sóttvarnir. Um Bandaríkin gegnir öðru máli. Þar virðist nærtækasta skýringin á skelfilegu ástandi vera handvömm og hugvömm, einkum fyrir tilstilli Trumps forseta sem talaði út og suður um vandann, mælti með stíflueyði – eða var það bara klór eða arseník? – sem sóttvörn líkt og Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sem talaði fyrir dráttarvélum og vodkadrykkju í sama skyni. Þeir bera hvor af öðrum, vinirnir.
Hvíta húsið er nú alræmt sóttarbæli þar sem veiran veður milli herbergja og fáir þora að bera grímur af ótta við að særa fegurðarskyn forsetans. Einn ráðherrann í ríkisstjórninni smitaðist ásamt fleiri gestum á kosningavöku í Hvíta húsinu fyrir fáeinum dögum. Joe Biden, nýkjörinn forseti, ætlar að láta það verða sitt fyrst verk að hverfa frá þessum fíflagangi og grípa til virkra sóttvarna.
Asía vísar veginn
Hvert geta Bandaríkin og Evrópulönd sótt fyrirmyndir í viðnáminu gegn veirufaraldrinum meðan við bíðum eftir bóluefni? Til Asíu – og Nýja-Sjálands.
Skoðum Taívan. Íbúafjöldinn þar er 24 milljónir. Þar hafa 580 manns smitazt og sjö – já, sjö! – látið lífið, eða einn af hverjum 3,3 milljónum íbúa. Höldum áfram.
- Taíland? Þar hefur einn af hverri 1,1 miljón íbúa látið lífið vegna veirunnar.
- Nýja-Sjáland? Singapúr? Einn af hverjum 200 þúsund íbúum.
- Suður-Kórea? Einn af hverjum 111 þúsund íbúum.
- Japan? Einn af hverjum 71 þúsund íbúum.
- Ísland? Einn af hverjum 15 þúsund íbúum.
- Svíþjóð? Einn af hverjum 1.680 íbúum.
Þessar tölur eru ekki einhlítar þar eð þær ná aðeins yfir þau dauðsföll sem læknar skrifa beint á kórónuveirufaraldurinn. Tíminn á eftir að leiða hugsanleg óbein áhrif faraldursins í ljós. Innilokun fólks á heimilum og minni umferð utan dyra kann fyrir sitt leyti að fækka dauðsföllum. Erfitt ástand á spítölum og hik sjúklinga við að leita sér læknishjálpar af ótta við að smitast eða dreifa smiti kann að fjölga dauðsföllum á móti. Enn vitum við ekki hvort lóðið vegur þyngra. Þegar upp er staðið hlýtur mat á áhrifamætti sóttvarna í ólíkum löndum að fara meðal annars eftir samanburði á fjölda umframdauðsfalla, það er fjöldi dauðsfalla meðan faraldurinn gekk yfir umfram fjölda dauðsfalla í meðalári án faraldurs.
Hvernig fóru Asíulöndin að því að hemja kórónufaraldurinn? Þau gerðu það markvisst með víðtækum smitprófum, smitrakningu, sóttkvíum, samkomuhömlum, einangrun og öðru því sem sóttvarnalæknar um allan heim hafa komið sér saman um að nauðsyn krefjist. Forskriftina er m.a. að finna í handbók bandarískra stjórnvalda um sóttvarnir, bók sem Trump forseti og menn hans virtust ekki vita af eða kæra sig um. Kjarni forskriftarinnar er þessi: Til að vernda þá sem höllum fæti standa gegn lífshættulegri veiru þurfa stjórnvöld að gefa fólki skýr fyrirmæli um skilvirkar varnir gegn veirunni í tækan tíma og fólkið þarf að geta treyst stjórnvöldum og fyrirmælum þeirra um varnir. Allt þetta og meira var gert í Asíulöndunum og einnig á Íslandi undir fumlausri forustu þríeykisins góða.
Árangurinn í Singapúr er sérlega eftirtektarverður vegna þess að borgríkið er iðandi mannhaf og þess vegna kjörlendi fyrir kræfa veiru. Árangur Nýja-Sjálands og Taílands er með líku lagi markverður vegna þess að löndin eru eftirsótt ferðamannalönd. Ástralía, Kína og Víetnam hafa einnig náð góðum árangri.
Asíulöndin hafa mikla reynslu af árangursríkum vörnum gegn mannskæðum farsóttum. Þekkt er dæmið frá Japan þar sem eiturlyfjafíkn var fyrir mörgum árum skilgreind í lögum sem farsótt. Í krafti þessara laga var hægt að meðhöndla eiturlyfjaneytendur sem smitbera. Eiturlyfjamarkaðurinn hrundi. Þetta er ein helzta skýringin á því að eiturlyfjavandinn er að heita má úr sögunni í Japan. Götur japanskra stórborga eru friðsælar á öllum tímum sólarhrings. Staðtölurnar tala skýru máli. Í Bandaríkjunum létust 22 af hverjum 100 þúsund íbúum landsins 2017 af völdum ólöglegra lyfja (og einnig áfengis) og 20 í Rússlandi. Til samanburðar létust sex af hverjum 100 þúsund íbúum á Íslandi af sömu völdum eins og í Svíþjóð. Japanska talan 2017 var 0,8 af hverjum 100 þúsund íbúum.
Efnahagsafleiðingar og viðnám
Spænska veikin 1918–1919 kostaði allt að 50 milljónum mannslífa um heiminn, þar af 675 þúsund í Bandaríkjunum. Þetta þýðir að einn af hverjum 1.500 Bandaríkjamönnum lét lífið í veikinni. Á Íslandi létust tæplega 500 manns af völdum veikinnar, einn af hverjum tæplega 200 íbúum landsins þá. Eigi að síður hafði spænska veikin engin umtalsverð áhrif á efnahagslífið í Bandaríkjunum eða hér heima á heildina litið þar eð uppsveifla var í fæðingu að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni 1918 og við tók mikill uppgangur á 3. áratug aldarinnar sem endaði með kreppunni miklu sem skall á 1929, en það er önnur saga.
Nú er öldin önnur. Ytri skilyrði bjóða ekki upp á gósentíð líkt og gerðist fyrir 100 árum. Að vísu eru vextir víða lágir enn svo að lántaka er venju fremur ódýr. Almannavaldið hefur því óvenjugóð skilyrði til að fjármagna björgunaraðgerðir handa fólki og fyrirtækjum með lánasláttu. Samt hefur Bandaríkjastjórn haldið að sér höndum vegna ágreinings og úlfúðar í þinginu þar. Atvinnuleysi þar vestra hefur því aukizt verulega og er nú um 9% af mannafla borið saman við tæp 4% í fyrra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir endurheimt fullrar atvinnu í Bandaríkjunum 2022–2023.
Einnig á Íslandi hefur atvinnuleysi meira en tvöfaldazt milli ára og er nú tæp 8% af mannafla borið saman við 4% atvinnuleysi að jafnaði frá 1991. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 4% atvinnuleysi á Íslandi 2023–2025, sem myndi þýða afturhvarf innan þriggja ára til meðaltalsins fyrir 1991–2019 ef spáin gengur eftir.
Atvinnuleysi í Þýzkalandi hefur aukizt mun minna, eða úr 3% í fyrra 2019 í 4% í ár 2020 og mun haldast á því bili næstu ár samkvæmt spá AGS. Það má kalla vel af sér vikið. Til samanburðar var atvinnuleysi í Þýzkalandi rösk 7% að meðaltali frá 1991.
Hvað gerðu Þjóðverjar?
Þýzka stjórnin greip til öflugra björgunaraðgerða strax í byrjun faraldurins í marz leið, hinna metnaðarfyllstu í sögu landsins. Markmiðið var að standa vörð um lýðheilsu og atvinnu, efla samheldni og styðja þannig við bakið á fólki og fyrirtækjum. Neyðaráætlunin gengur undir nafninu Soforthilfe. Til að fjármagna aðgerðirnar þarf þýzka ríkið að taka lán sem nemur um 2.000 evrum á hvern íbúa landsins. Lánsfjárhæðin nemur 1,2 mkr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.
Með þessu móti virðist Þjóðverjum ætla að takast að girða fyrir stóraukið atvinnuleysi með róttækum aðgerðum í ríkisfjármálum. Þessar aðgerðir eru til fyrirmyndar og í fullu samræmi við hagstjórnarfræði nútímans sem rekja má til Johns Maynards Keynes í kreppunni miklu 1929–1939. Aðgerðirnar vekja sérstaka athygli nú og aðdáun vegna þess að þýzk stjórnvöld hafa mörg undangengin ár látið sem viðnám gegn verðbólgu með aðhaldssamri stjórn peningamála sé upphaf og endir árangursríkrar hagstjórnar frá ári til árs og sveiflujöfnun með stjórntækjum ríkisfjármálanna í anda Keynes sé varhugaverð. Nú hafa þau snúið við blaðinu.
Aðgerðir ríkisstjórnar Íslands vegna faraldursins mega sín lítils borið saman við Þýzkaland. Íslenzk stjórnvöld hafa ekki einu sinni birt og trúlega ekki heldur látið gera rækilega úttekt á umfangi efnahagsvandans. Eitt dæmi segir meira en mörg orð. Íslenzkir listamenn voru þúsundum saman tekjulausir að heita má frá marz og langt fram á haust þegar almannavaldið rétti fram síðbúna hjálparhönd. Sjálfstætt starfandi listamenn í Þýzkalandi fengu 9.000 evrur (1,5 mkr.) hver og einn til að komast yfir fyrstu þrjá mánuði tekjuleysisins strax í vor leið.
Bjargráðin náðu ekki bara til listamanna, nema hvað, heldur til allra sjálfstætt starfandi manna. Einyrkjar og fyrirtæki með allt að fimm manns í vinnu fengu 9.000 evrur og fyrirtæki með allt að tíu manns í vinnu fengu 15.000 evrur (2,4 mkr.). Greiðslurnar bárust fljótt og voru fyrsta kastið ótengdar tekjum viðtakenda til einföldunar. Aðrir þættir björgunaraðgerðanna voru sömu ættar. Þannig er Þýzkaland.
Athugasemdir