Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Faraldurinn stóreykur hættu á sjálfsvígum

Ljóst er að kór­óna­veirufar­ald­ur­inn er far­inn að hafa al­var­leg áhrif á geð­heil­brigði þjóð­ar­inn­ar. Töl­ur lög­reglu benda til að sjálfs­víg séu um­tals­vert fleiri nú en vant er. Fag­fólk grein­ir aukn­ingu í inn­lögn­um á geð­deild eft­ir því sem lið­ið hef­ur á far­ald­ur­inn og veru­lega mik­ið fleiri lýsa sjálfsskaða- og sjálfs­vígs­hugs­un­um.

Faraldurinn stóreykur hættu á sjálfsvígum
Depurð eykst Fleiri glíma við kvíða, depurð og sjálfsvígshugsanir en áður samkvæmt fagaðilum. Mynd: Shutterstock

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa að minnsta kosti 30 manneskjur svipt sig lífi það sem af er þessu ári. Sérfræðingar telja að talan sé enn hærri en það fæst ekki staðfest, og raunar neita bæði lögregla og Embætti landlæknis einnig að staðfesta umrædda tölfræði.

Símtöl í Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, hafa tæplega tvöfaldast milli ára og þar af hefur símtölum þar sem fólk lýsir hugsunum um sjálfsskaða eða sjálfsvíg fjölgað um tæp 19 prósent.

Fjöldi viðtala starfsfólks Píeta-samtakanna, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, við skjólstæðinga jókst um þriðjung á milli aprílmánaðar og ágústmánaðar á þessu ári.

Ungt fólk sem leitar til Bergsins, stuðnings- og ráðgjafarseturs fyrir fólk upp að 25 ára aldri, greinir í auknum mæli frá því að það glími við sjálfsskaða- og sjálfsvígshugsanir. Á tímabilinu frá því í september á síðasta ári og fram í apríl á þessu ári greindu 15 prósent þeirra sem sóttu þjónustu Bergsins frá því að þau hefðu slíkar hugsanir. Á tímabilinu maí til ágúst á þessu ári greindu 22 prósent þeirra sem þangað komu frá slíkum hugsunum.  

Þeir sem Stundin hefur rætt við telja augljóst að heimsfaraldur kórónaveirunnar, COVID-19, eigi hér stærstan hlut að máli. Grípa þurfi til aðgerða á víðum skala, samstarf þurfi að verða milli aðila og bregðast þurfi við af festu. Allir eru í forvarnarhlutverki gegn sjálfsvígum og hægt er að sækja aðstoð víða. Minna þarf á að það er von.

Símtölum í 1717 hefur fjölgað gríðarlega

Sandra Björk BirgisdóttirVerkefnastjóri Hjálpar­síma Rauða krossins.

Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, segir ljóst að COVID-19 veirufaraldurinn leggist þungt á marga. Þannig hafi fjöldi símtala þar sem fólk lýsir vanlíðan og kvíða margfaldast, tekið hafi verið við tæplega tvöfalt fleiri símtölum í ár en á sama tímabili í fyrra og nú þegar hafi verið tekið við ríflega 4.000 fleiri símtölum en allt síðasta ár. Þetta rekur Sandra Björk beint til ástandsins í þjóðfélaginu og óvissunnar sem fylgi faraldrinum.  

„Við höfum fundið fyrir verulegri aukningu símtala til okkar. Mesta aukningin er í símtölum er varða almenna vanlíðan og kvíða, það virðist vera mikil aukning á kvíða hjá fólki. Félagsleg einangrun fólks hefur aukist sem er orsakaþáttur í þessu.“

„Við höfum fundið fyrir talsverðri aukningu í símtölum þar sem fólk lýsir sjálfsvígshugsunum“

Sömuleiðis hefur símtölum þar sem fólk lýsir sjálfsvígshugsunum fjölgað töluvert, um tæplega 10 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. „Við höfum fundið fyrir talsverðri aukningu í símtölum þar sem fólk lýsir sjálfsvígshugsunum. Þessi símtöl eru á talsvert breiðum skala, allt frá því að vera óljósar sjálfsvígshugsanir og upp í alvarleg sjálfsvígssamtöl þar sem fólk er á leiðinni með að láta verða af því að svipta sig lífi.“

Hjá Rauða krossinum starfa sjálfboðliðar sem hafa fengið þjálfun í að takast á við símtöl af þessu tagi. Þeir veita sálrænan stuðning og beina fólki áfram í átt að úrræðum sem í boði eru til að takast á við hugsanir sem þessar og leita sér hjálpar hjá fagaðilum. Í 1717 getur fólk hringt nafnlaust og í trúnaði. „En þegar um alvarlegar sjálfsvígshugsanir er að ræða, þar sem líf fólks er í hættu, ber okkur skylda til að tilkynna það, rétt eins og öllum öðrum í raun. Við erum í beinu sambandi við Neyðarlínuna í slíkum tilvikum.“

Vegna þess hversu mikið aukið álag hefur verið á Hjálparsímann hefur Rauði krossinn brugðist við og aukið þjónustu sína. „Við höfum fjölgað á vöktum og það eru fleiri sem svara í símann. Á tímabili í fyrstu bylgju vorum við með fimmtán manns við símsvörun, sem er töluvert meira heldur en vant er. Símtöl koma allan sólarhringinn og það er enn mjög mikið álag hjá okkur, við fáum töluvert fleiri símtöl á viku nú en vanalega. Við fáum að öllu jöfnu um 15 þúsund símtöl á ári en erum nú þegar búin að fá hátt í 18 þúsund símtöl. Það er gríðarleg aukning, það var mest í upphafi faraldursins en við finnum enn fyrir því að álag er mjög mikið og fer aftur vaxandi.“

„Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé vegna COVID-19“

Sandra Björk segir að starfsmenn 1717 greini mjög skýr merki þess að COVID-faraldurinn sé orsök aukins fjölda símtala sem berast Hjálparsímanum. „Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé vegna COVID-19. Við höfum til dæmis ekki áður séð svona stórt stökk upp á við í fjölda símtala vegna kvíða, það er mjög stórt stökk upp á við milli ára. Fólk er í óvissu um það hvernig allt muni fara vegna veirunnar. Þá eru margir sem hafa misst vinnuna og hafa áhyggjur af peningum og hvernig fólk muni hafa það af næstu mánuði. Það er líka mikil félagsleg einangrun, það eru dæmi um fólk sem hefur nánast alveg verið einangrað svo mánuðum skiptir og það tekur mjög á fólk. Vanlíðan sem orsakast af þessum þáttum kemur líka gjarnan fram síðar, svo við búumst við að áfram verði aukning á símtölum.“

Hjálparsíminn 1717 hefur ýtt úr vör nýju verkefni þar sem boðið er upp á samtöl við fólk á pólsku. Enn sem komið er er aðeins boðið upp á slík samtöl einu sinni í viku, á fimmtudögum, og í gær var fjórða skiptið sem sú þjónusta var á boðstólum. Sandra segir að þrátt fyrir að lítil reynsla sé komin á þjónustuna sýni fjöldi samtala fram til þessa að þörfin sé til staðar. „Það er búið að vera draumur hjá okkur lengi að geta boðið upp á þessa þjónustu en vegna COVID-ástandsins ýttum við þessu nú úr vör. Pólverjar eru langstærsti hópurinn hér á landi sem talar annað móðurmál en íslensku og mjög mikilvægt að geta komið til móts við þau.“

Margar sögur fá góðan endi

Neyðarlínan 112 tekur við um 570 símtölum á dag af ýmsu tagi, þar á meðal frá fólki sem er í sjálfsvígshættu. Hins vegar eru þau símtöl ekki flokkuð sérstaklega í tölfræði 112, að sögn Tómasar Gíslasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar. Neyðarlínan fái fjölda hringinga frá fólki sem líði illa andlega og því fólki sé reynt að hjálpa til að hafa samband á rétta staði, þar sem það fái faglega aðstoð.

„Við skráum ekki símtöl inn til okkar með þessum hætti, fyrst og fremst erum við að reyna að átta okkur á hvort möguleiki sé á því að bjarga fólki. Við veltum okkur því lítið upp úr orsökum þess að fólk þarfnast okkar aðstoðar. Okkar forgangsvinna er sú að meta hvaða bíla eigi að ræsa og hversu hratt þeir eigi að keyra. Ég hef þó heyrt af því frá mínu fólki að því finnist þessum símtölum hafa fjölgað, en það er bara tilfinning og við höfum því miður ekki tölur til að bakka það upp.“

Neyðarlínan á í góðu samstarfi við Hjálparsíma Rauða krossins og starfsmenn 112 beina fólki í vanlíðan þangað. „Það er talsvert algengt að fólk með sjálfsvígshugsanir hringi í Neyðarlínuna og í okkar bókum endar það yfirleitt með skráningunni „afgreitt án aðgerða“. Það er ekki nema fólk hringi og segist beinlínis vera að enda líf sitt, þá höfum við samband við lögreglu og reynt er að finna út hvar viðkomandi er staddur, til að reyna að koma honum til hjálpar. Það sama á við um aðstandendur, það er ekki óalgengt að til okkar hringi fólk sem segist visst um að vinur þess eða fjölskyldumeðlimur sé að fremja sjálfsmorð. Eins fáum við upplýsingar um það frá Hjálparsíma Rauða krossins ef þangað hringir fólk sem starfsmenn Hjálparsímans telja að sé að því komið að fremja sjálfsmorð. Þá sendum við lögreglu á staðinn ef hægt er að finna út hvar viðkomandi er.“

„Það tókst að koma manneskjunni undir læknishendur áður en það var um seinan“

Tómas segir að til séu margar sögur af því að tekist hafi að koma fólki sem var við það að grípa til örþrifaráða til bjargar, með samstarfi Neyðarlínunnar og lögreglu, auk annarra. „Ég man eftir einni slíkri sögu sem kom inn á borð til okkar. Þá hringdi til okkar maður, sem sagðist hafa séð vin sinn greina frá því á Snapchat að hann væri búinn að koma sér fyrir með pillur og hygðist fremja sjálfsmorð. Það mál var unnið þannig að það var reynt að staðsetja vininn og það tókst með því að sá sem hringdi inn gat notað Snapmap til að staðsetja hann. Þá gátum við ræst út lögreglu, og vinurinn mætti raunar sjálfur einnig á staðinn, og það tókst að koma manneskjunni undir læknishendur áður en það var um seinan. Við gátum fylgst með þessu, og þó við vitum auðvitað ekki hver eftirleikurinn var þá er alltaf ánægjulegt að vita að okkur hafi tekist að koma manneskju til bjargar. Svona sögur með góðum endi eru því margar til.“

Tómas segir að hann hafi lagst yfir það hvort breyting sé á tölfræði innhringinga til Neyðarlínunnar á þeim tíma sem COVID-19 faraldurinn hefur geisað í samanburði við fyrri tímabil. Hann segir að um grófan samanburð sé að ræða en hann sjái ekki markverðar breytingar. „Ef eitthvað er hefur símtölum heldur fækkað, en það má draga þá ályktun að það sé vegna þess að það eru fáir á ferðinni. Ef það er enginn á götunum þá verða engin umferðarslys til að mynda. Sú fjölgun sem gæti verið á innhringingum vegna þess að það eru mögulega fleiri þunglyndir og fleiri í sjálfsmorðshugleiðingum, hún týnist þá í þessari fækkun á heildarfjölda innhringinga.“

Þriðjungsfjölgun í viðtölum frá því COVID reið yfir

Píeta-samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, bjóða einstaklingum sem til þeirra leita, sem og aðstandendum þeirra sem glíma við slíkar hugsanir eða þeirra sem hafa fallið fyrir eigin hendi, stuðnings- og meðferðarúrræði. Samtökin eru ríflega tveggja ára gömul og halda úti símsvörun allan sólarhringinn í Píeta-símanum, 552-2218,  til að sinna hópi sem er í sjálfsvígshættu og í hættu á sjálfsskaða. Sólarhringssímsvörun var tekin upp þar til að létta á Hjálparsímanum 1717.

Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna, segir að aukning sé í fjölda þeirra sem sæki sér þjónustu samtakanna frá mánuði til mánaðar. Að hluta til telur hún að megi skýra það með því hversu ung starfsemin er og samtökin hafi fengið meiri kynningu eftir því sem á hefur liðið. En aðrir þættir spili inn í. „Það eru vissar vísbendingar um það í samfélaginu að okkur sé að líða verr og það er áhugavert að skoða hvers vegna. Nú er COVID kennt um og ég skil það og það er eðlilegt. En það eru fleiri vísar, sem voru komnir fram áður, um að fólki líði verr.“

„Við erum mótsvar við þeim galla sem er í opinbera kerfinu, þar sem sálfræðiþjónusta er lúxusvara“

Viðtölum hjá Píeta-samtökunum hefur fjölgað um þriðjung frá því að fyrsta COVID-bylgjan skall á. Í mars á þessu ári fóru fram 183 viðtöl en mánuðina á eftir fór þeim hratt fjölgandi og í ágúst voru þau 310. Það er þess utan tvöföldun frá sama tíma á fyrra ári en í ágústmánuði 2019 voru viðtöl við skjólstæðinga Píeta 141. Inni í þessum tölum eru ekki viðtöl við aðstandendur eða syrgjendur, heldur einungis viðtöl við fólk sem hafði sjálfsvígshugsanir og var í sjálfsvígshættu. Píeta hefur fyrir vikið þurft að fjölga starfsfólki hjá sér og þannig eru til að mynda tíu fagaðilar sem vinna hjá samtökunum, fyrir utan þá sem sinna hjálparsíma samtakanna. Kristín segist fagna því heils hugar að fólk leiti sér aðstoðar og komi til samtakanna. Hún sé hins vegar uggandi yfir stöðunni. „Við erum gat sem varð að fylla upp í vegna þess að þessi þjónusta var ekki í boði í samfélaginu. Það er dýrt að ganga til sálfræðings og við trúum því að allir eigi rétt á aðstoð, óháð efnahag. Við stöndum fyrir utan kerfið, erum ekki á fjárlögum. Þrátt fyrir það erum við úrræði sem félagsþjónustan, heilsugæslur, Landspítalinn og geðdeild vísa á. Við erum mótsvar við þeim galla sem er í opinbera kerfinu, þar sem sálfræðiþjónusta er lúxusvara,“ segir Kristín og bendir á að Píeta-samtökin hafi útskrifað yfir 200 manns frá sér, fólk sem hafi náð bata. Það sýni öllum að það sé von.

Kristín segir að í hinu opinbera heilbrigðiskerfi fái fólk ekki þá hjálp sem það þurfi á að halda. Þess vegna hafi Píeta-samtökin verið stofnuð. En meira þurfi til. „Það er gat í heilbrigðiskerfinu. Manneskja sem gerir tilraun til sjálfsvígs er færð á bráðamóttöku, þar er gert að sárum hennar en svo er viðkomandi sendur heim þegar það er búið, með þau skilaboð að hún geti farið upp á geðdeild í fyrramálið. Manneskjan stendur þá bara úti á bílaplani og við fáum oft hringingar frá fólki í þessari stöðu. Það er engin lausn að bjóða fólki að fara inn á geðdeild daginn eftir. Við verðum að breyta þessu, svo fólk sé ekki skilið eftir eitt með sinn andlega sársauka.“

Marktæk aukning á hugsunum um sjálfsvíg og sjálfsskaða

Hjá Berginu getur ungt fólk upp að 25 ára aldri sótt sér stuðning, fræðslu og ráðgjöf hjá fagaðilum, endurgjaldslaust. Sigurþóra Bergsdóttir er framkvæmdastjóri Bergsins en hún er jafnframt stofnandi úrræðisins. Hvatinn að stofnuninni var reynsla Sigurþóru, en sonur hennar, Bergur Snær, glímdi við mikla vanlíðan eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hann fékk aldrei þá hjálp sem hann þurfti á að halda og svipti sig á endanum lífi árið 2016, þá nítján ára gamall.

Sigurþóra segir að marktæk aukning hafi orðið á því að ungt fólk sem leitar til Bergsins lýsi því að þau glími við sjálfsskaða eða sjálfsvígshugsanir eftir því sem COVID-faraldurinn hefur undið upp á sig. „Við fundum ekki neina breytingu fyrr en í lok maí og byrjun júní. Það varð raunar veruleg fækkun á komum til okkar í mars og apríl, krakkarnir voru bara að hugsa um að vera í einangrun og voru ekki mikið að leita sér hjálpar.“

Hins vegar hafi komum aftur fjölgað í maí þegar fyrsta bylgja COVID-faraldursins tók að réna. Þá hafi mátt greina þessa aukningu. „Á tímabilinu frá því í september á síðasta ári og út apríl á þessu ári lýstu 15 prósent þeirra ungmenna sem til okkar komu hugsunum um sjálfsskaða eða sjálfsvíg. Á tímabilinu maí og út ágúst á þessu ári var þessi tala hins vegar komin upp í 22 prósent.“

Eva Rós Ólafsdóttir, félagsráðgjafi hjá Berginu, tekur á móti stórum hluta þeirra ungmenna sem þangað leita. Hún segir að COVID-19 faraldurinn hafi augljós áhrif á þau. „Við finnum verulega aukna vanlíðan tengda COVID-19 faraldrinum hjá þessum krökkum. Þau geta ekki verið í skólanum, þau hitta ekki samnemendur sína, þau einangrast heima hjá sér í heimilisaðstæðum sem eru ekki alltaf viðunandi. Þessi mikla einvera hefur vond áhrif á þau og það hefur aukin áhrif á vanlíðan þeirra. Þessir þættir hanga síðan saman, ef þessir krakkar eiga sögu um þunglyndi eða sjálfsskaða, þá hafa þessar aðstæður áhrif í þá átt að auka á eða valda hugsunum um sjálfsskaða og sjálfsvíg. Ég get ekki fullyrt um að COVID-faraldurinn valdi auknum slíkum hugsunum en eins og ég segi, þetta hangir saman. Þeim líður verr, það er alveg ljóst.“

„Ég held að við séum ekki búin að sjá afleiðingarnar af þessum veirufaraldri“

Eva Rós og Sigurþóra hafa áhyggjur af því að frekari afleiðingar af einangruninni sem fylgir faraldrinum eigi eftir að koma fram og hitta krakkana fyrir. „Við finnum fyrir þessum afleiðingum eftir á, eins og gerðist eftir að fyrsta bylgjan rénaði. Nú erum við aftur stödd í viðlíka fasa, það hefur verið hert á öllum samkomutakmörkunum og þau koma síður til okkar núna. Ég á von á því að þegar aftur fer að slakna á þá munum við finna fyrir eftirköstunum og það kæmi mér ekki á óvart þó það myndi fjölga í þeim hópi sem kemur til okkar, og þá með þessar hugsanir líka,“ segir Eva Rós.

Sigurþóra segist hafa áhyggjur af afleiðingum þeirrar bylgju COVID-19 sem nú stendur yfir, sökum þess að hún hitti ungt fólk fyrir í enn meiri mæli en áður, leggst þannig á fjölda ungs fólks í grunn- og framhaldsskólum, sem hafi vonast til að félagslíf þeirra færi aftur af stað nú í haust og þannig yrði einangrun þeirra rofin. „Ég held að við séum ekki búin að sjá afleiðingarnar af þessum veirufaraldri og ég er hrædd við þessa bylgju núna.“

Eva Rós tekur undir það og segir að bregðast verði við stöðunni af miklu meiri krafti en gert hefur verið. „Krakkar sem ekki ná að fylgja fjarnámi munu detta út úr skóla, með aukinni vanlíðan og minni virkni, hugsanlegu atvinnuleysi til lengri tíma. Þetta þarf að skoða í heild, eins hvernig atvinnuleysi og fjárhagsvandræði foreldra fara með fjölskyldur. Afleiðingarnar munu koma fram og þetta verður ekki búið þó að finnist bóluefni.“

Flestir þekki fólk sem hefur fallið fyrir eigin hendi

Hugarafl telst stærsti virki notendahópur í geðheilbrigðismálum á Íslandi, en yfir 220 félagsmenn sækja þjónustu samtakanna í hverjum mánuði. Fjölgun hefur orðið í hópi félagsmanna síðustu mánuði og segir Auður Axelsdóttir, framkvæmdastjóri Hugarafls, að rekja megi það til COVID-19 faraldursins.

Skjólstæðingar Hugarafls eru margir hverjir í mjög brothættri stöðu, segir Auður, og hætta á sjálfsvígshugsunum þeirra á meðal. Reglulega greini fólk sem þangað leiti frá því að það glími við hugsanir um sjálfsskaða og sjálfsvíg. „Við greinum aukna vanlíðan, ótta og kvíða, og það höfum við gert allan tímann frá því fyrra samkomubannið var sett á. Okkar hópur er hins vegar alltaf viðkvæmur, getur verið í sjálfsvígshættu og það á öllum tímum. Við fórum því af stað strax um miðjan mars með mjög öflugt starf til að halda utan um okkar hóp, með dagskrá í gegnum Zoom, með símtölum og viðtölum. Við lögðum sem sagt mjög hart að okkur. Þess vegna held ég að við höfum ekki séð fjölgun sjálfsvíga í okkar hópi. Ég heyri hins vegar frá okkar fólki að mjög margir, kannski flestir, þekkja fólk sem hefur fallið fyrir eigin hendi síðustu mánuði. Af því hafa þau, og við öll, mjög miklar áhyggjur.“

Komum á geðsvið fjölgaði eftir fyrstu bylgju

Eyrún Thorstensen, staðgengill forstöðumanns geðsviðs Landspítala og deildarstjóri á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild, segir flesta sem leggist inn á geðsvið Landspítalans hafa sjálfsvígshugsanir, misalvarlegar þó. „Í vor, í mars og apríl, dró úr komum á bráðaþjónustu geðsviðs. Það var eins og fólk væri að halda að sér höndum, það vildi ekki trufla starfsemi spítalans. Ég fékk það alla vega á tilfinninguna. Svo kom hins vegar mjög erfitt tímabil í lok júní og byrjun júlí á geðsviði Landspítala. Komum fjölgaði, það voru fleiri innlagnir og fólk sem lagðist inn var almennt veikara heldur en alla jafna er. Þessi álagskúfur kom eftir að ákveðin ró hafði færst yfir COVID-faraldurinn. Við sjáum núna aftur, þegar COVID-19 faraldurinn hefur færst í aukana, að það hefur dregið úr komum á geðsvið.“ Þó ekki sé hægt að fullyrða að COVID-19 faraldurinn sé orsakaþátturinn hvað þetta varðar segir Eyrún þó að hún telji að svo sé.

„Ástandið er alvarlegt og það þarf að bregðast við því af festu“

Eyrún lýsir því að dæmi séu um að álag á geðsvið sé það mikið að vegna nauðsynjar á að leggja inn bráðveikt fólk hafi þurft að útskrifa aðra sem hefðu gott af því að dvelja lengur á spítalanum. Það hafi meðal annars gerst í sumar. Nauðsyn sé að auka enn og meira þá þjónustu sem fólki standi til boða sem á við geðrænan vanda að stríða. „Ástandið er alvarlegt og það þarf að bregðast við því af festu.“

Unnið hefur verið að breyttum verklagsreglum geðsviðs Landspítala frá árinu 2017 eftir að tvö sjálfsvíg áttu sér stað inni á einni deild geðsviðs spítalans. Bæði hefur verið unnið að því að uppfræða starfsfólk og þjálfa það í að greina merki um sjálfsvígshættu. Þá hafa umhverfisþættir geðdeildar verið teknir til endurskoðunar. Sömuleiðis hafa tengsl við fjölskyldur sjúklinga verið aukin.

Tölur um sjálfsvíg liggja ekki fyrir hjá landlækni

Embætti landlæknis kallaði til fjölda aðila til að ræða forvarnarstarf gegn sjálfsvígum á samráðsfundi sem haldinn var 2. september síðastliðinn. Þó það hafi ekki fengist staðfest hjá embættinu þá herma heimildir Stundarinnar að ástæðan hafi ekki síst verið sú að lögregla hafi í sumar greint fjölgun á sjálfsvígum. Á fundinum var rætt að rannsóknir, hérlendis og erlendis, sýndu að heimsfaraldur kórónaveirunnar og efnahagskreppa í kjölfar faraldursins væru farin að hafa alvarleg áhrif á geðheilbrigði. Áríðandi væri að gripið yrði til aðgerða þegar í stað. Hinn 10. september, á alþjóðlegum forvarnardegi gegn sjálfsvígum, veitti heilbrigðisráðherra Píeta-samtökunum 6 milljóna króna styrk til að efla forvarnarstarf samtakanna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Þá lýsti ráðherra því að tryggðar yrðu 12 milljónir króna til að fjármagna stöðu verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá Embætti landlæknis út næsta ár.

Embætti landlæknis hefur sett sér það markmið að gefa út bráðabirgðatölur um sjálfsvíg fyrstu 6 mánuði ársins þegar öll gögn þar að lútandi liggi fyrir. Hins vegar hefur enn ekki orðið af þeirri útgáfu og ekki fást upplýsingar hjá embættinu um neinar tölur þar að lútandi fyrir þetta ár. „Við erum ekki enn þá komin með þessi gögn en erum að ýta á eftir því að fá krufningarskýrslur frá Landspítala,“ segir Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsu hjá Landlæknisembættinu.

Engu að síður er það svo að lögregla kynnti embættinu tölur sem hljóða upp á að 30 manns hafi fallið fyrir eigin hendi það sem af er ári, 12 fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Allt síðasta ár féllu 39 manns fyrir eigin hendi. Í svari við fyrirspurn Stundarinnar til Embættis landlæknis kemur meðal annars fram að dánartíðni, óháð dánarorsök, sé vöktuð reglulega svo hægt sé að grípa til aðgerða ef ástæða þykir til, til dæmis ef dánartíðni er hærri en vanalega í tilteknum aldurshópum. Hið sama ætti þá að gilda um sjálfsvíg.

„Við verðum að sjálfsögðu að taka öllum svona tölum alvarlega“

Spurð hvort að það sé ekki bagalegt að landlæknir hafi ekki staðfestar tölur til að miða við, og enn fremur hvort að tölur frá lögreglu gefi ekki tilefni til að grípa til sértækra aðgerða, samanber það sem nefnt er hér að ofan, segir Hildur að svo sé. „Við verðum að sjálfsögðu að taka öllum svona tölum alvarlega, þótt við höfum ekki staðfestar tölur. Þess vegna var þessi fundur haldinn 2. september og í framhaldi af honum veitti heilbrigðisráðherra fjármunum til að auka við starf í forvörnum gegn sjálfsvígum. Það er sömuleiðis samráðshópur starfandi á vegum Embættis landlæknis, Hjálparsíma Rauða krossins og Píeta-samtakanna sem fundar reglulega um til hvaða aðgerða sé hægt að grípa í þessum efnum.“

Umræddur starfshópur var settur á laggirnar sérstaklega vegna COVID-ástandsins. „Hann var settur á laggirnar í vor þegar Píeta-samtökin og Rauði krossinn greindu frá því að þau hefðu orðið vör við aukningu á símtölum til sín, frá fólki sem greindi frá sjálfsvígshugsunum. Það er erfitt að segja til um hvort það sé vegna þess að það sé meiri þörf á þjónustunni eða vegna þess að fólk sé orðið betur upplýst um þá aðstoð sem þessir aðilar geta veitt. Það var þó upplifun fólks sem starfar í þessum geira í sumar að það væri að verða breyting á líðan fólks, til hins verra,“ segir Hildur.

„Það var þó upplifun fólks sem starfar í þessum geira í sumar að það væri að verða breyting á líðan fólks, til hins verra“

Vistunarskrá heilbrigðisstofnana inniheldur rauntímagögn um starfsemi heilbrigðisstofnana, þar á meðal um komur og legur vegna sjálfsskaða og sjálfsvígstilrauna. Greining á gögnum þessa árs gefur ekki vísbendingu um aukinn fjölda sjálfsvígstilrauna og sjálfsskaða miðað við síðastliðin tvö ár. Það rímar hins vegar ekki við það sem rakið er hér að ofan, tölur lögreglu, tölur frá Píeta og Rauða krossinum. Hildur segir erfitt að segja til um hverjar ástæðurnar fyrir því kunni að vera. „Það er erfitt að segja. Það getur verið að netspjall og símtöl, sem hefur fjölgað verulega, hafi áhrif í þeim efnum þar sem fólk veigri sér við að fara út úr húsi vegna COVID-19 faraldursins. Við höfum því lagt áherslu á aukin rafræn samskipti á þessum tímum.“

Aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi var samþykkt í apríl 2018. Í áætluninni eru tillögur um ýmsar aðgerðir sem mikilvægt er að komist í framkvæmd, enn þá mikilvægara nú en áður, segir Hildur. „Sumar aðgerðanna eru komnar í gang en aðrar eru enn á byrjunarstigi. Þessari áætlun svipar til sambærilegra áætlana erlendis og þar hefur innleiðingartíminn verið á bilinu fimm til tíu ár. Það er hins vegar sérstaklega mikilvægt að við komum þessum aðgerðum á núna, til að mynda samræmdu mati og viðbrögðum við sjálfsvígshættu, þannig að allir heilbrigðisstarfsmenn, kennarar, aðilar innan félagsþjónustunnar og fleiri fái fræðslu til að takast á við og geta rætt um sjálfsvígshugsanir.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár