Það vakti hörð viðbrögð í þjóðfélaginu þegar stærstu eigendur Samherja framseldu hlutabréf í innlendri starfsemi til barna sinna. Það var margt við þennan gjörning sem fór fyrir brjóstið á fólki, ekki sýst að þarna var slegið Íslandsmet í arfi, auk þess sem þetta fól í sér framsal á yfirráðum á allnokkrum hluta þjóðarauðlindar frá einni kynslóð til annarrar.
Þessi stóra tilfærsla á peningum og völdum frá foreldrum til barna sinna truflar fólk. Við búum hins vegar í þjóðfélagi þar sem það þykir eðlilegt að börn erfi foreldra sína. Sumum þykir jafnvel óeðlilegt að arfur sé skattlagður, það sé sjálfsagður réttur fólks að ráðstafa eignum sínum til afkomenda. En viðbrögðin benda til þess að það séu einhver mörk, að það skipti máli bæði hvað og hve mikið fólk erfir eftir foreldra sína. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta samt bara eitt frekar öfgakennt dæmi um eitthvað sem er frekar almennt í þjóðfélaginu okkar. Börn erfa ósjaldan félagslega og efnahagslega stöðu foreldra sinna, hvort sem sú staða felur í sér yfirráð yfir hluta þjóðarauðlindar, þægilega innivinnu eða fátækt.
Lagskipt þjóðfélög
Ef við ímyndum okkur þjóðfélag með fullkomlega lokaðri lagskiptingu þá tilheyrir fólk þeirri stétt sem það fæðist inn í og færanleiki á milli ekki mögulegur eða í það minnsta afar fáheyrður. Fólk finnur maka innan sömu stéttar og börnin þeirra erfa stéttarstöðuna. Stéttirnar eru ólíkar að lífsháttum og ójafnar hvað varðar virðingu, völd og auð. Dæmin sem eru gjarnan tekin í kennslubókunum er Evrópa á tímum lénsveldisins og erfðastéttakerfið í Indlandi.
Vestræn þjóðfélög eru stéttskipt. Ein leið til að lýsa slíkum þjóðfélögum er að líkt og í þjóðfélögum með lokaðri lagskiptingu tilheyrir fólk mismunandi þjóðfélagshópum sem eru ójafnir að virðingu, völdum og auð og jafnvel ólíkir í lífsháttum, upp að vissu marki. Mörkin á milli laga þjóðfélagsins eru hins vegar óljósari, viss hreyfanleiki á milli laga er mögulegur, hjúskapur þvert á lög þjóðfélagsins er leyfður (en ekki endilega vel liðinn) og auður, völd og virðing hanga ekki saman að sama marki og þau gera í þjóðfélögum með lokaða lagskiptingu. Það þýðir að sumar stéttir njóta til dæmis virðingar án þess endilega að því fylgi auður eða völd, þótt það sé óneitanlega tilhneiging til að þau fari saman. Opin lagskipting er þannig mun flóknari en lokuð og það má ef til vill lýsa henni sem hálfopinni lagskiptingu. Nákvæmlega hversu opin lagskiptingin er breytist frá einum tíma til annars og er mismunandi á milli ólíkra þjóðfélaga.
Það liggur í hlutarins eðli að lagskipt þjóðfélög eru ójöfn þjóðfélög. Þótt það geti verið erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvernig stéttir raðast, þegar allt er talið, er það engu að síður þannig að sumar stéttir raðast klárlega neðar en tilteknar aðrar stéttir og ljóst að sumar stéttir tilheyra efstu lögum þjóðfélagsins og aðrar þeim neðstu. Fólk sem er í efstu lögunum hefur tilhneigingu til að eiga meiri peninga, njóta meiri virðingar, hafa meiri áhrif, borða betur, lifa lengur og við betri heilsu og njóta meiri munaðar en fólk í lögunum fyrir neðan.
Félagslegur hreyfanleiki
Ýmsar rannsóknir benda til þess að fólk sé almennt ekki hrifið af lagskiptingu og ójöfnuði en telji ójöfnuð að einhverju leyti óhjákvæmilegan fórnarkostnað þróttmikils efnahagslífs. Það sem gerir ójöfnuðinn ásættanlegan er sú hugmynd að allir njóti svo gott sem sömu tækifæra. Ójöfnuður er minna mál ef hver sem er getur náð á toppinn. Þetta er spurning um félagslegan hreyfanleika. Ef hreyfanleikinn er fullkominn er ekkert samband á milli aðstæðna fjölskyldunnar sem við fæðumst inn í og þess í hvaða lagi þjóðfélagsins við lendum. Ekkert þjóðfélag hefur náð slíkum hreyfanleika.
Menntun hefur verið helsta tækið til að stuðla að félagslegum hreyfanleika. Hugmyndin er sú að menntun stýri því í hvaða lagi fólk lendir. Ef allir hafa sama aðgang að menntun skiptir efnahagur foreldra fólks ekki máli, fólk velur einfaldlega það nám sem leiðir það í það lag þjóðfélagsins sem það setur stefnuna á.
Það er auðvitað ekki sjálfgefið að þjóðfélag tryggi jafnan aðgang að menntun. Í Bandaríkjunum og Bretlandi eru menntakerfin til dæmis lagskipt og efnahagur foreldra ræður miklu um gæði þeirrar menntunar sem fólk hefur aðgang að. En þegar aðgengi að menntun er almennt og jafnt þá er auðvelt að gangast inn á þá hugmynd að við búum í lagskiptu verðleikasamfélagi. Lagskiptingin í slíku þjóðfélagi væri alveg opin fremur en hálfopin eða lokuð. Vissulega er ójöfnuður til staðar en það er allt í lagi því ójöfnuðurinn er afleiðing af mismunandi verðleikum fólks, bæði hæfileikum og dugnaði. Þaðan er svo stutt skref yfir í að sjá efri lög þjóðfélagsins sem á einhvern hátt betri og að erfiðleikar fólks í neðri lögunum séu þeirra eigin sök.
Menntun er ekki nóg
Rannsóknir benda til þess að á meðan almennt og jafnt aðgengi að menntun jafni tækifæri þá þurfi meira til. Efnahagsleg og félagsleg staða foreldra hefur eftir sem áður áhrif á lífshlaup barna þeirra. Ísland er ágætis dæmi með almennt menntakerfi rekið af hinu opinbera. Gögn sem snerta á félagslegum hreyfanleika eru af skornum skammti á Íslandi en Eurostat hefur þó birt tölur frá 2011 um samband menntunar fólks sem þá var á aldrinum 25–59 ára við menntun foreldra þeirra. Þetta vítt aldursbil er ekki að öllu leyti heppilegt en nægir þó til að gefa grófa vísbendingu (sams konar gögnum var safnað árið 2019 en niðurstöðurnar hafa ekki verið birtar enn).
Aðeins tæp 16% þeirra sem höfðu lokið háskólanámi áttu foreldra sem höfðu aðeins lokið grunnnámi
Af þeim sem höfðu aðeins lokið grunnmenntun áttu um 40% foreldra sem höfðu líka aðeins lokið grunnmenntun en aðeins 7,5% að minnsta kosti eitt foreldri sem hafði lokið háskólanámi. Ef stéttaskiptingin væri galopin myndum við sjá sömu hlutföll á meðal þeirra sem höfðu lokið háskólanámi en það er ekki raunin. Aðeins tæp 16% þeirra sem höfðu lokið háskólanámi áttu foreldra sem höfðu aðeins lokið grunnnámi en tæp 33% áttu að minnsta kosti eitt foreldri sem hafði lokið háskólanámi.
Þetta er mynd af þjóðfélagi þar sem lagskiptingin er hálfopin. Staða foreldra stýrir því ekki í hvaða lagi þjóðfélagsins við endum en hefur þó áhrif á það.
Urð og grjót
Það lag þjóðfélagsins sem við fæðumst inn í hefur áhrif á möguleika okkar í lífinu. Auðvitað eru fjölmörg dæmi um einstaklinga sem brjótast úr fátækt og jafnvel um fólk sem klífur upp í efstu lög þjóðfélagsins. Að sama skapi eru til dæmi um fólk sem glutrar niður góðu forskoti. Slík dæmi eru þó ekki nógu sterk vísbending um að allir búi við jöfn tækifæri.
Ef við hugsum um lífið eins og fjallgöngu þá hefur fólk gönguna á mismunandi stöðum í fjallinu. Leiðin á toppinn er mislöng og miserfið. Fyrir þau sem byrja nálægt toppnum er mun minna afrek að komast á tindinn en fyrir þau sem byrja við rætur fjallsins. Jafnvel þegar þau sem fæðast í efstu lögum þjóðfélagsins misstíga sig og hrökklast niður fjallið eru umtalsverðar líkur á að þau endi mun hærra í hlíðinni en dugmeira fólk úr neðsta laginu.
Jafnvel þegar allir hafa sama formlega aðgang að menntun er fjöldi þátta sem hefur áhrif á möguleika fólks til að nýta sér og fá sem mest út úr þeim aðgangi, svo sem tími, orka og færni foreldra til að styðja við nám barna sinna. Þá eru til rannsóknir sem benda til þess að almenn skólakerfi taki gjarnan mið af gildum og björgum barna úr millistétt sem getur valdið því að börn úr neðri lögum þjóðfélagsins upplifi sig utan gátta. Aðrar rannsóknir benda til þess að ákvarðanir um námsval, svo sem hvort það eigi að halda áfram í námi eða fara að vinna sem og val á milli námsleiða, horfi mjög ólíkt við börnum úr mismunandi lögum þjóðfélagsins.
Lagskipt forréttindi
Því lagi sem við ölumst upp í fylgja forréttindi og mótstreymi. Að því leyti er tilfærsla hlutabréfa í Samherja aðeins eitt dæmi um eitthvað sem gengur niður öll lög þjóðfélagsins. Á hinum endanum eru afleiðingar þess að alast upp í neðri lögum þjóðfélagsins sem getur falið í sér fátækt, færri tækifæri í lífinu og langvarandi áhrif á heilsu svo dæmi séu nefnd. Þar á milli eru mörg lög með mismunandi forréttindi og mótstreymi. Forréttindunum fjölgar því nær toppnum sem við fæðumst, mótstreymið eykst því nær botninum sem við erum. Þessi lagskipting forréttinda og mótstreymis er yfirleitt mun minni í sniðum en Samherjaarfurinn og flestum okkur að mestu hulin. Hún kann jafnvel að vera minni á Íslandi en víðast hvar annars staðar. Hún er engu að síður til staðar.
Athugasemdir