Nýverið var ég beðinn um að rýna bókina Poverty Propaganda eftir Tracy Shildrick fyrir erlent fræðitímarit. Bókin fjallar um þær myndir af fátækt og fátæku fólki sem eru á kreiki í þjóðmálaumræðunni og hvernig þær hafa áhrif bæði á viðhorf almennings og stefnumótun stjórnvalda. Bókin fjallar um þær hugmyndir um fátækt sem eru ríkjandi í Bretlandi og fyrir vikið er mikið fjallað um atvinnuleysi og starfsgetumatið eins og það er útfært þar í landi en það er auðvelt að heimfæra nálgun höfundar á önnur samfélög þar sem orsakir fátæktar eru aðrar en í Bretlandi.
Hvernig flökkusögur?
Eitt af eilífðar viðfangsefnum hvers kyns fátæktarhjálpar er að greina þá sem bera á einhvern hátt ábyrgð á eigin örbirgð frá þeim sem sannanlega verðskulda hjálp samborgara sinna. Hugmyndin er sú að hluti þeirra sem býr við fátækt sé fórnarlömb aðstæðna en hluti þeirra sé einfaldlega hyskinn og kjósi einfaldlega að lifa á öðrum fremur en að sjá sjálfum sér farborða en slíku fólki skuldi samfélagið ekki neitt.
Við getum flest fallist á að fólk sem ber ekki ábyrgð á eigin ógæfu verðskuldi hjálp og að fólk sem einfaldlega nennir ekki að sjá sér farborða eigi ekkert tilkall til stuðnings samborgara sinna. Vandinn er bara hvernig eigi að greina hina verðugu frá hinum óverðugu. Drykkjuskapur hefur til dæmis oft verið talin vísbending um að fólk beri ábyrgð á eigin vanda en sú sýn að alkóhólismi sé sjúkdómur, niðurstöður rannsókna sem tengja fíkn við áföll og erfiðleika, stundum í æsku, og rannsóknir sem benda til þess að hvers kyns neysluvandamál séu oft afleiðing fátæktar frekar en orsök hennar, gefa tilefni til að staldra við slíkt viðmið.
Samkvæmt Shildrick stjórnast greiningin á ábyrgð hinna fátæku að miklu leyti af tíðarandanum, það er þeirra hugmynda sem eru ríkjandi í samfélaginu á hverjum tíma. Shildrick telur einnig að einstaklingshyggja undanfarinna ára hafi leitt til þess að við séum tilbúnari en áður til að ætla einstaklingum ábyrgð fremur en aðstæðum.
Megineinkenni flökkusagna um fátækt, samkvæmt Shildrick, er að þær gera undantekningar að aðalatriðum. Sem dæmi má nefna sögur af fólki sem hefur afkomu sína að mestu í félagslegum tilfærslum (bótum og lífeyri) sem virðast í raun búa við allsnægtir enda sé það í svartri vinnu eða hafi tekjur af afbrotum. Annað dæmið er „fátæklingurinn“ sem ver peningunum sínum óskynsamlega, hvort sem það er vegna ábyrgðarleysis og skorts á fjármálalæsi. Þessi meinti skortur á skynsemi þarf ekki endilega að vera mikið óhóf, það er nóg að panta pitsu eða kaupa sér kaffibolla á kaffihúsi til að vekja hneykslan. Þá er þessi viðvarandi ótti við að hyskið fólk leggist upp á velferðarkerfið, að fólk með fulla vinnugetu freistist til að fá atvinnuleysisbætur eða örorkulífeyri fremur en að vinna fyrir sér. Að lokum má nefna sögur af ættgengri hyskni þar sem tvær eða jafnvel þrjár kynslóðir hafa aldrei unnið.
„Það er nóg að panta pitsu eða kaupa sér kaffibolla á kaffihúsi til að vekja hneykslan“
Það sem gerir flökkusögurnar sannfærandi, að mati Shildrick, er að þær eiga sér oftast rætur í raunveruleikanum. Vandamálið er samt ekki að það séu sannarlega til bótaþegar sem búa við allsnægtir, að til sé tekjulágt fólk sem skortir fjármálalæsi, að einhverjir óprúttnir aðilar leggist upp á velferðarkerfið af því að þeir nenni ekki að vinna heldur það að slík dæmi eru ekki lýsandi fyrir allan þorra þess fólks sem býr við fátækt. Flökkusögurnar beina hins vegar athyglinni að undantekningunum, ýta undir fordóma í garð fólks sem býr við fátækt og stefnumótun hefur tilhneigingu til að einblína um of á hvernig megi koma í veg fyrir undantekningarnar og síður á hvernig sé best að styðja fátækt fólk.
Íslenskar flökkusögur
Eftir lesturinn fór ég að spá í það hvaða flökkusögur væru um fátækt í íslensku samfélagi. Bæði er fátækt fátíðari á Íslandi en í Bretlandi auk þess sem orsakirnar eru annars eðlis. Það þurfti ekki langa leit til að finna dæmi í umræðunni um örorku á Íslandi. Ýmsir hafa til dæmis fullyrt að í örorkulífeyriskerfinu felist sérstakir hvatar sem ýti undir fjölgun örorkulífeyrisþega sem þeir telja hafa verið afar mikla á Íslandi á undanförnum árum.
Ég hef áður tjáð mig um fullyrðingar um fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi, bæði að mikið sé ofsagt um fjölgunina auk þess sem athyglin hefur einkum beinst að ungum körlum þegar stærstan hluta fjölgunarinnar má rekja til kvenna 50 ára og eldri. Ég geri hinsvegar engan ágreining um að örorkulífeyrisþegum hafi fjölgað sem hlutfall af mannfjölda á sama aldri á undanförnum árum þó það verði að hafa í huga að um helming fjölgunarinnar megi líklega rekja til lýðfræðilegra þátta, svo sem hækkandi meðalaldurs íbúa landsins.
Á bak við umræðuna um meinta stjórnlausa fjölgun örorkulífeyrisþega glittir í flökkusögu um fátækt um fólk sem leggst upp á velferðarkerfið, að fjölgun öryrkja skýrist að einhverju leyti af því að tiltölulega heilsuhraust fólk velji líf á örorkulífeyri fremur en að vinna fyrir sér. Það glittir í sömu hugmynd í hluta af umræðunni um starfsgetumat, að það geti gagnast til að draga úr fjölda örorkulífeyrisþega með því að sýna fram á hvað og hve mikið fólk geti í raun unnið (það er hins vegar rétt að halda því til haga að hluti þeirra sem tala fyrir starfsgetumati gera það á öðrum forsendum svo sem einstaklingmiðaðra úrræða í starfsendurhæfingu sem má ætla að geti bætt líf að minnsta kosti hluta öryrkja). Áherslan á að örorkulífeyrir megi ekki vera of hár miðað við lægstu laun er hluti af þessari hugmynd, ellegar muni lífeyririnn freista fólks sem þarf ekki á honum að halda.
Á undanförnum árum hefur framfærsluviðmið örorkulífeyris dregist nokkuð aftur úr lægstu launum. Árið 2009 nam framfærsluviðmiðið fyrir einstakling sem deildi heimili með öðrum fullorðnum einstaklingi 95,4% af lægstu launum á vinnumarkaði. Árið 2019 var viðmiðið komið niður í 75,6% af lægstu launum. Það ætti, að öðru óbreyttu, að leiða til þess að örorkulífeyrisþegum hefði fækkað enda kjör á vinnumarkaði farin að líta mun betur út í samanburði við örorkulífeyri. En við vitum að það var ekki það sem gerðist. Þvert á móti fjölgaði örorkulífeyrisþegum frá 2009 til 2017, úr 7,2% í 8% af fólki á aldrinum 18–66 ára en eftir það dró svo úr fjölguninni. Þessi fjölgun er síður en svo í samræmi við hugmyndir um stjórnlausa fjölgun öryrkja, sérstaklega þegar horft er til þess að sennilega hefði hækkandi aldur þjóðarinnar skilað helmingnum af þessari fjölgun að öðru óbreyttu, en fjölgun engu að síður.
Fjölgun fylgir ekki upphæð bóta
Sumsé: Örorkulífeyrisþegum fjölgaði þrátt fyrir að framfærsluviðmið örorkulífeyris hafi dregist umtalsvert aftur úr lægstu launum. Það er ekki í samræmi við hugmyndina um að fjölgun örorkulífeyrisþega skýrist af örlæti örorkulífeyriskerfisins. Þvert á móti. Sambandið er í raun í hina áttina og nokkuð sterkt, fylgnin yfir tímabilið á milli upphæðar framfærsluviðmiðsins sem hlutfalls af lægstu launum og fjölda örorkulífeyrisþega sem hlutfall af mannfjölda á sama aldri er -0,823. Það þýðir ekki að það sé orsakasamband á milli, að örorkulífeyrisþegum hafi fjölgað vegna þess að framfærsluviðmiðið dróst aftur úr lægstu launum en það er alveg ljóst að örorkulífeyrisþegum fjölgaði ekki vegna þess að örlæti kerfisins hafi aukist. Við þurfum að leita eftir öðrum skýringum.
Á vissan hátt má líta á þróun framfærsluviðmiða örorkulífeyris undanfarinn áratug eða svo sem nokkurs konar tilraun, köllum það náttúrulega tilraun, því ég vil ekki ætla neinum að skerða lífskjör öryrkja meðvitað í tilraunaskyni. Tilraun til að svelta öryrkja til sjálfshjálpar. Niðurstaðan liggur fyrir, tilgátunni er hafnað. Það er löngu tímabært að leita raunverulegra skýringa á fjöldaþróun örorkulífeyrisþega og byggja stefnumótun á þeim skýringum fremur en flökkusögum.
Athugasemdir