Skólastarf í leik- og grunnskólum verður með eðlilegum hætti frá og með 4. maí. Heimilt verður að opna framhaldsskóla og háskóla og fjöldatakmörk á samkomum verða rýmkuð. Íþróttastarf barna og unglinga verður leyft með vissum skilyrðum. Þetta verður meðal þeirra breytinga sem verða gerðar á þeim höftum sem sett hafa verið vegna COVID-19 faraldursins og taka gildi 4. maí.
Þetta kom fram á upplýsingafundi forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra sem haldinn var í Safnahúsinu við Hverfisgötu nú í morgun. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að nú væri mikilvægur tímapunktur, eins og að vera í fjallgöngu þar sem bara síðasta brekkan væri eftir. Freistandi væri að sleppa henni, en það þýddi þrjár vikur til viðbótar af hörðum takmörkunum á samkomum. Ekki mætti heldur flýta sér of hratt niður brekkuna, þar sem það gæti þýtt að smitið blossaði upp aftur.
Þessar afléttingar eru að tillögu sóttvarnalæknis. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að COVID-19 faraldurinn væri líklega stærsta verkefni sem íslenskt samfélag hafi tekist á við í sameiningu.
Enn geta komið upp hópsmit
„Faraldurinn er í rénun, það er ljóst. En það geta komið upp hópsmit,“ sagði Svandís. Hún kynnti síðan þær breytingar sem verða 4. maí. Fjöldamörk samkomubanns munu miða við 50 manns, skólastarf í grunn- og leikskólum verður með eðlilegum hætti og ýmis þjónusta getur hafist aftur, en halda skal tveggja metra fjarlægð eins og kostur er. Ýmis heilbrigðisþjónusta sem fallið hefur niður mun einnig verða opnuð aftur.
Skipulagt íþróttastarf barna og ungmenna utandyra verður leyft, svo framarlega að ekki verði fleiri en 50 í hóp. Líkamsræktarstöðvar og sundlaugar verða áfram lokaðar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að mikilvægt væri að fara hægt í að afnema höftin. Það væri mat helstu sérfræðinga heims í þessum efnum. Margir í samfélaginu væru afar viðkvæmir fyrir sýkingum.
Athugasemdir