Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Tsjernóbýl brennur

„Stund­um er svo mik­il bruna­lykt á gang­in­um að manni finnst sem kvikn­að sé í hús­inu,“ skrif­ar Val­ur Gunn­ars­son frá vett­vangi í Úkraínu. Mann­lausa svæð­ið í kring­um kjarn­orku­ver­ið í Thjernó­býl er að brenna.

Fyrirsögnin að ofan hljómar eins og eitthvað frá 9. áratugnum, enda verða 34 ár liðin þann 26. apríl frá þessu mesta kjarnorkuslysi sögunnar. Fyrirsögnin er þó spánný. „Hefurðu komið til Tsjernóbýl?“ spyr stúlka mig fyrir utan matvörubúðina Lotok á neðstu hæð. „Nei, en ég finn lyktina af því,“ segi ég.

Þann 5. apríl bárust fréttir af því að 140 eldar hefðu brotist út á bannsvæðinu í kringum Tsjernóbýl rétt fyrir norðan Kyiv, höfuðborg Úkraínu. Þyrlur fljúga fyrir ofan eins og þær gerðu árið 1986, nema að í þetta sinn kasta þær niður vatni en ekki sandi, blýi, leir og bór. Okkur er sagt að geislavirkni í loftinu sé undir hættumörkum en mengun er mikil og ekki á það bætandi þegar reynt er að vernda viðkvæm lungu á tímum COVID. Sem betur fer klæðast allir grímum hvort eð er sem minnkar skaðann, enda landslög að ekki megi fara út án slíkra.

Það er alvanalegt að kvikni í hér í landi. Eldar loga víða í görðum, fólk brennir úrgang, gras og þurr laufblöð enda ekki alls staðar sem ruslabílar komast að. Bændur hafa löngum kveikt í spreki og þurru grasi hér um slóðir til að undirbúa jörðina fyrir sáningu. Þetta hefur verið afar hlýr vetur í Úkraínu, svo hlýr að varla hefur snjóað og birnirnir ekki getað lagst í híði. Því hefur þetta farið úr böndunum og svæði á stærð við 4.200 fótboltavelli staðið í björtu báli í kringum Tsjernóbýl. 100 slökkviliðsbílar voru sendir á vettvang og 1.000 slökkviliðsmenn. Ekki er á það bætandi fyrir bágan ríkiskassa sem þegar er að fást við COVID og óklárað stríð í austri. Geislavirknin hér er rétt einn fjórði af því sem hún var rétt eftir slys og því alla jafna ekki hættuleg en trén og mosin soga hana í sig og nú þyrlast hún upp og stefnir í átt til byggða. Stundum er svo mikil brunalykt á ganginum að manni finnst sem kviknað sé í húsinu en kemst svo að því að einhver hefur skilið svalirnar eftir opnar.  

Fallnar hetjur og Hildur Guðna

Þegar Tsjernóbýl-slysið átti sér stað vildi svo heppilega til fyrir Úkraínumenn að það var norðanátt. Kyiv slapp en fimmtungur ræktunarlands Hvíta-Rús varð undir og náði geislavirknin allt norður til Noregs þar sem sum héruð hafa enn ekki fyllilega jafnað sig. Í þetta sinn eru Kænugarðsbúar ekki jafn heppnir og liggur mökkurinn þykkur yfir höfuðstaðnum. 27 ára karlmaður var handtekinn, grunaður um að verða valdur að eldsvoðanum. Útskýring hans var að hann hefði gert þetta sér til gamans og samkvæmt gamalli hefð, en hann á yfir höfði sér fimm ára fangelsi.  

Það virðist eins og horfinn heimur að íslenska þjóðin fylltist stolti þegar Hildur Guðnadóttir vann öll hugsanleg verðlaun fyrir tónlist sína við Jókerinn og HBO-þættina um Tsjernóbýl-slysið. Sýndu þeir hvernig öryggispróf, sem ákveðið var að framkvæma í snatri til að ganga í augun á yfirmönnum þvert á ráðleggingar sérfræðinga, leiddu til slyssins.

Allt að 4.000 manns létust í björgunaraðgerðum. 200.000 aðrir voru fluttir á brott þegar umhverfið í kringum Tsjernóbýl var girt af. Bærinn Pripyat, þar sem margir starfsmanna bjuggu, tæmdist og átti aðeins að vera til bráðabirgða. Voru diskar skildir eftir á borðum og leikföng á gólfinu en enn hefur ekki verið hægt að snúa aftur. Ekki farnaðist öllum íbúunum vel á þeim stöðum sem þeir voru fluttir til. Eldra fólk hefur því flutt aftur á bannsvæðið og dafnar betur þar en í útlegðinni. Þótt fæðið sem það ræktar sé geislavirkt er meðallíftími þess lengri en hjá þeim sem fluttust á brott, svo mikið betur líður þeim í heimahögunum. Fólkið á bannsvæðinu hefur að mestu fengið að vera þar í friði en nú hafa þeir verið fluttir á brott undan bálinu.

Nærri TsjernóbýlLoftmynd sýnir brunarústir eftir skógareld á aflokaða svæðinu nærri Tsjernóbýl-kjarnorkuverinu. Mörg hundruð slökkviliðsmenn hafa barist við eldana.

Túristar í Tsjernóbýl

Gorbastjoff telur slysið árið 1986 hina raunverulegu ástæðu falls Sovétríkjanna. Misheppnaðar þöggunartilraunir stjórnvalda í kringum slysið höfuð þveröfug áhrif og fólk varð reiðubúnara til að gagnrýna yfirvöld. Þá misstu margir einfaldlega trú á kerfi sem átti að færa þeim framtíðina en sáu nú helstu tækniundrin bráðna fyrir augum sér. Fyrir Úkraínumönnum var slysið Moskvuvaldinu að kenna enda ákvarðanir teknar þar og fóru menn að huga að sjálfstæði sem fékkst fimm árum síðar.

Líklega verður sá harmleikur sem fylgdi Tsjernóbýl-slysinu aldrei fyllilega mældur en í seinni tíð hefur svæðið orðið vinsæll túristaáfangastaður. Það þarf sérstök skilríki til að vera hleypt inn en ferðaskrifstofur og skipulagðar kynnisferðir sjá um slíkt. Talið er óhætt að vera á svæðinu í allt að því viku og þykir mikil upplifun. Hér er hægt að sjá heiminn án manna, hvernig náttúran hægt og rólega tekur aftur yfir og mylur mannanna verk undir sig. Ég spurði úkraínska stúlku eitt sinn hvort hún hefði komið til Tsjernóbýl og hún sagðist vera frá Kharkív, þar væri nóg af tómum verksmiðjum og hún hafði enga þörf á að fara til Tsjernóbýl til að sjá slíkar. En þetta var fyrir COVID-19. Nú er allur heimurinn orðin eins og Tsjernóbýl.

Þó er slysið ekki fyrirferðarmikið í úkraínskri sögu, ólíkt til dæmis seinni heimsstyrjöld sem enn er deilt um. Vissulega eru styttur af námuverkamönnum sem létust að finna hér og þar, rétt eins og styttur af þeim Úkraínumönnum sem börðust í stríði Sovétríkjanna í Afganistan. En fáir hafa séð þættina góðu sem að mestu voru teknir í Litháen. Slysið er liðið og lítið við því að gera en þetta er þó eitthvað fyrir túrista. Segja má að þættirnir leiki svipað hlutverk fyrir Úkraínu og Game of Thrones gerðu fyrir Ísland. Tsjernóbýl eru Þingvellir Úkraínu.

Tsjernóbýl Pútíns

Sumir finna þó söguleg líkindi og velta því fyrir sér hvort COVID gæti orðið Tsjernóbýl Pútíns. Í Rússlandi var lengi lítið gert til að bregðast við smitum en nú stefnir í óefni. Ljóst er að þetta ástand kemur sér ekki vel þegar forsetinn er að reyna að tryggja völd sín með nýrri stjórnarskrá. Hafa menn á borð við Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, verið meira áberandi en Pútín haldið ruglingslegar ræður þar sem hann vísar í frumsögu Rússa. Eitthvað svipað er upp á teningnum í Bandaríkjunum, þar sem ríkisstjóri New York virðist mörgum ábyrgðarfyllri en forsetinn.

Selenskíj Úkraínuforseti virðist höndla krísuna ágætlega enn sem komið er. Honum tókst að koma lögum í gegnum þingið sem eiga að uppræta spillingu í bankakerfinu og um leið tryggja 8 milljarða dala lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þó hafa aðrir þingmenn bætt við 16.000 athugasemdum til að tefja lögin. Úkraínumenn hafa síður ráð á því en aðrir Evrópubúar að vera í sóttkví þar sem sparifé landsmanna er takmarkað og ríkisaðstoð af skornum skammti.

Á meðan heldur stríðið í austri áfram. Sprengivarpa sprakk nýlega með þeim afleiðingum að einn sérsveitarmaður lést og átta særðust. Sumir kenna hönnunargalla um. Þá hefur verið hætt við pöntun á 90.000 öryggisbúningum gegn COVID sem var byrjað að framleiða innanlands en 70.000 keyptir frá Kína í staðinn á helmingi hærra verði. Bendir þetta til þess að hinir innlendu hafa ekki þótt nógu góðir. Þá hafa grímur skort fyrir þá sem berjast við eldana og þurfa að vernda vit sín gegn reykmengun.

Vísindaskáldsögur og brennuvargar

Páskar eru viku seinna hér en á Vesturlöndum. Þegar byrjaði að rigna vikuna fyrir páska virtist borginni vera borgið og eldarnir lognuðust út af. En svo varð þurrt og það fór að blása með þeim afleiðingum að það kviknaði í á ný og logarnir breiddust hratt í suður. Kyiv varð með mengaðasta andrúmsloft í heimi, helmingi verra en næstversti staður sem er í Kína.

Mögulega átti mengunin þátt í að fólk hélst heima um páskana en óttast var að heimsóknir og kirkjusóknir myndu breiða veiruna enn fremur út, en enn hefur ekki tekist að minnka smittíðnina. 150 manns hafa dáið en nýjum smitum fjölgar um 300 á dag. Ný vindátt hefur lagað ástandið í Kyiv eftir páska en hún er þó enn með versta andrúmsloft heims. Óttast er að logarnir nái til kjarnorkuversins sjálfs, en Evrópusambandið hefur nýlega byggt kjarnorkuhelt byrgi ofan á sem er víst stærsta færanlega mannvirki í heimi. Eru því ekki miklar líkur á að kjarnakljúfurinn fari af stað en hætta á að bærinn Prypiat verði illa úti eina ferðina enn.

SkógareldurinnSkammt frá kjarnorkuverinu sem brann fyrir 34 árum.

Bannsvæðinu var lokað fyrir túristum þann 16. mars vegna COVID en leiðsögumenn höfðu áður átt í illdeilum við undarlegan hóp vísindaskáldsöguáhugamanna sem hefst við á bannsvæðinu. Sækja þeir innblástur í skáldsögu frá 1972 sem Tarkovskí gerði myndina „Stalker“ eftir. Segir hún frá geimverum sem skilja eftir dót víðs vegar um jörðina, en sú skoðun heyrist stundum að Tsjernóbýl-slysið hafi verið til að hylma yfir samskipti við geimverur. Er því nú fleygt að þessir hópur, sem kallar sig „stalkers“, eigi sök á brunanum enda hófst hann á því svæði sem þeir halda oftast til á. Aðrir hópar fara í ólöglegar veiðiferðir þar sem dýralífið á bannsvæðinu er með eindæmum villt. Hætta er á að mannlífið á hinu nánast mannlausa svæði fari fyrir lítið nú þegar allt stendur í ljósum logum. Hverjum sem um er að kenna eru allar líkur á því að brunar á borð við þessa verði stöðugt algengari með hlýnandi veðurfari. COVID tekur sinn toll en loftslagsbreytingar líka.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár