Landspítala berst nú fjöldi gjafa af ýmsum toga og úr mörgum áttum; allt frá orkudrykkjum og orkustöngum til öndunarvéla og þá er talsvert um að spítalanum berist fé úr stórum og smáum söfnunum og boð um ýmis konar aðstoð.
Margir hugsa greinilega hlýtt til Landspítala þessa dagana, enda gríðarlegt álag á starfseminni vegna COVID-19 faraldursins. „Það er greinilegt að þjóðin er öll saman í þessu,“ segir Benedikt Olgeirsson sem stýrir verkefninu Stöndum með Landspítala, en samnefnd vefsíða var opnuð á vef spítalans til að halda utan um þann fjölda erinda sem berst víðs vegar að með boðum um aðstoð og gjafir.
Allt samfélagið er með í þessu
Að sögn Benedikts koma gjafirnar bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum. „Við fengum 15 öndunarvélar að gjöf fyrir skömmu. Við fáum talsvert af orkugefandi matvöru eins og til dæmis bústi og orkustöngum handa starfsfólkinu sem er afskaplega vel þegið. Fólk, sem er með góð alþjóðleg viðskiptasambönd, hefur samband og býðst til að vera okkur innan handar við kaup á tækjum og búnaði og verkfræðimenntað fólk býðst til að aðstoða okkur við ýmsar lausnir sem fylgja þeim breytingum sem hefur þurft að gera á spítalanum. Svo hafa innlendir framleiðendur verið í sambandi og boðið okkur vöru sína. Það er greinilegt að allt samfélagið er með okkur í þessu.“
Læknar eiga sjúklingasamtöl með spjaldtölvum
Benedikt segir að margir vilji aðstoða spítalann við tækjakaup og fyrir tilstuðlan þess hefur spítalinn meðal annars keypt talsvert af litlum spjaldtölvum fyrir lækna. „Þær eru svo litlar að þær passa vel í vasann á læknasloppnum og sýna skýrar og góðar myndir sem nýtast vel í klínísku starfi . Með þeim geta læknar átt myndsímtöl við sjúklinga og þurfa þá ekki að fara inn á stofurnar til þeirra í þeim tilvikum sem um COVID-19 smit er að ræða.“
Benedikt leiðir að öllu jöfnu uppbyggingu Landspítalaþorpsins og meðferðarkjarna spítalans, en lagði það verkefni til hliðar tímabundið. Hann segir það eiga við um fleiri starfsmenn spítalans sem nú sinni verkefnum sem tengist COVID-19 faraldrinum. „Landspítali er undir miklu álagi, við höfum þurft að gjörbylta starfseminni að sumu leyti á skömmum tíma. Það eru allar deildir spítalans að vinna að því með einum eða öðrum hætti að komast í gegnum faraldurinn á sem bestan hátt og á sama tíma þurfum við að halda sjó með aðra starfsemi og aðra sjúklingahópa. Það er gríðarlegt álag á starfsfólk í framlínu en það er líka aukið álag á fólk í stoðdeildum. Meðal annars hefur upplýsingatæknideildin okkar unnið í að þróa nýjan hugbúnað til að styðja við þessar gjörbreyttar aðstæður.“
„Ég held að fá orð fái lýst því hvað við erum þakklát“
Benedikt segir ljóst að Landspítali eigi marga og góða vini. „Það er afskaplega jákvætt að finna þennan hlýhug, spítalinn er undir mklu álagi, mikið álag á öllum stoðeiningum. Ég held að fá orð fái lýst því hvað við erum þakklát fyrir þann samhug sem við finnum,“ segir hann.
Athugasemdir