Í skugga COVID-19 faraldursins þrífast falsfréttir og rangar staðhæfingar. Þetta fullyrða Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO og breska ríkisstjórnin sem sjá ástæðu til að vara við fölskum fullyrðingum um COVID-19 veiruna. Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur segir að öfgahópar muni notfæra sér ástandið til að breiða út falsfréttir.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar nú við fullyrðingum um að granda megi veirunni með því að bera hendurnar undir rafmagnshandþurrku. Í tilkynningu WHO sem birt var á Twitter segir að fullyrðingar þessa efnis, sem farið hafi víða á samfélagsmiðlum, séu skaðlegar. „Hjálpumst að við að stöðva útbreiðslu rangra upplýsinga,“ segir í Twitter-færslu WHO. „Kannið sannleiksgildi áður en þið deilið.“
Og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sér ástæðu til að kveða fleiri töfraráð í kútinn. Meðal annars að óhófleg áfengisneysla drepi veiruna og það, að halda niðri í sér andanum í tíu sekúndur, geri það líka.
„Það er fyllsta ástæða til að hafa miklar áhyggjur,“ segir Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, í viðtali við Jyllands-Posten. „Það leikur enginn vafi á að stórveldi muni nýta sér krísuásandið. Það er meðal annars hætta á útbreiðslu vísvitandi rangra upplýsinga sem geta skaðað orðstí Danmerkur og haft neikvæð áhrif á viðskipti og ferðaþjónustu,“ segir Bramsen.
Hún segir að sér sé kunnugt um falsað myndskeið, sem sé í dreifingu í Kína, sem sýni dönsk skólabörn syngja níðvísur um Kína.
Í sama streng taka yfirmenn leyniþjónusta og öryggislögreglu Noregs og Svíþjóðar í umfjöllun Jyllands-Posten. Þeir segjast hafa orðið varir við að öfgahópar nýti sér ástandið.
Stofna deild gegn falsfréttum og -tölvupóstum
Breska ríkisstjórnin hefur nú skorið upp herör gegn falsfréttum um COVID-19 og falstölvupóstum sem sendir eru til fólks með allskyns misvísandi upplýsingum og loforðum um lækningu og hefur sérstakri deild verið komið á fót innan breska stjórnkerfisins til að leiðrétta rangan fréttaflutning af veirusmitinu.
Í tilkynningu, sem breska ríkisstjórnin sendi frá sér í gær, segir að deildin kallist The Rapid Response Unit, í henni starfi sérfræðingar í stjórnsýslu og tölvumálum, hún starfi undir forsætisráðuneytinu og meðal verkefna hennar er að bera kennsl á falsfréttir, hafa samband við þær efnisveitur sem birta slíkt efni og fræða almenning um hvernig bera megi kennsl á slíkar fréttir. Þá mun deildin starfa með heilbrigðiskerfinu við að koma á framfæri réttum upplýsingum um veiruna og ráðum til að koma í veg fyrir sýkingar.
Í samstarfi við samfélagsmiðla
Í tilkynningu bresku ríkisstjórnarinnar segir að í hverri viku berist stjórnvöldum um 70 tilkynningar um misvísandi og jafnvel hættulegar fréttir og umfjallanir. Þar er haft eftir Oliver Dowden, menningarmálaráðherra Breta, að ríkisstjórnin eigi nú í samstarfið við ýmsa samfélagmiðla og að hann muni þrýsta á þá til að grípa til frekari aðgerða til að koma í veg fyrir rangfærslur og falsfréttir sem gætu kostað mannslíf.
Ekki hægt að prófa sjálfan sig
„Það er ekki hægt að prófa sjálfan sig fyrir COVID-19 með því að halda niðri í sér andanum í tíu sekúndur,“ segir Penny Mordaunt, ráðherra í bresku ríkisstjórninni.
„Og það er ekki hægt að lækna veikina með því að skola kverkarnar með vatni í 15 sekúndur. Þetta er sá falski fréttaflutningur sem við höfum séð koma frá þeim sem fullyrða að þeir séu sérfræðingar í heilbrigði.“
Athugasemdir