Um 80% þeirra sem veikjast af COVID-19 ná sér að fullu án þess að þurfa sérstakrar meðferðar við. Einn af hverjum sex sem veikist verður alvarlega veikur með alvarlega neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu. Þetta kemur fram á vefsíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.
En hvernig verður sjúkdómurinn alvarlegur og hvað gerist í lungunum við sýkingu? Sif Hansdóttir, yfirlæknir lungnadeildar Landspítala, segir að nánast allir COVID-19 sjúklingar, sem hafi verið lagðir inn á spítalann, hafi verið með lungnabólgu á einhverju stigi. Skipta megi einkennunum í fjögur stig.
„Sem betur fer fá flestir þeirra, sem veikjast af COVID-19, tiltölulega væg öndunarfæraeinkenni,“ segir Sif. „Í upphafi, þegar veiran er að koma sér fyrir í líkamanum, finnur fólk gjarnan fyrir hita og slappleika og vægari öndunarfæraeinkennum. Það fær hugsanlega einkenni eins og til dæmis þurran hósta, en finnur ekkert endilega fyrir aukinni mæði.“
Og margir fá ekki meiri einkenni en þetta, að sögn Sifjar.
Þróast áfram hjá hluta þeirra sem veikjast
Hún segir að þessi einkenni þróist síðan áfram hjá hluta þeirra sem veikjast. „Nokkrum dögum eftir að veikindin byrja fara sumir að finna fyrir meiri einkennum frá lungunum. Þau einkenni tengjast því hvernig einstaklingurinn er að bregðast við sýkingunni. Þarna er líkaminn að berjast við sýkinguna og myndar því bólgusvörun. Á þessu stigi getur fólk fengið dýpri sýkingu og fengið lungnabólgu, sem er í flestum tilvikum væg“ segir Sif. Fólk í þessum hópi finni gjarnan fyrir meiri mæði, en þurfi ekki innlagnar eða mikillar meðhöndlunar við.
Þriðji hópurinn er fólk sem fær alvarlegri lungnabólgu. „Það er hópurinn sem kemur inn á lungnadeild hjá okkur,“ segir Sif. „Hjá þessum hópi hefur bólgan dreifst meira um lungun, fólk er með meiri mæði og er hugsanlega orðið lægra í súrefni. Þetta er sá hópur sem við á Landspítalanum viljum finna og greina.“
Ýmsar ástæður fyrir alvarlegri veikindum
Í fjórða hópnum er fólk sem verður mikið veikt vegna þess að það myndar mikla bólgusvörun gegn veirunni í líkamanum sem getur leitt til alvarlegrar öndunarbilunar.
„Það getur verið af ýmsum ástæðum. Sumir eru veikari í grunninn eða með undirliggjandi lungnasjúkdóma, sykursýki eða háþrýsting og hafa því minni getu til að vinna úr þessu aukna álagi sem verður á lungun. Þeir sem hafa komið á gjörgæslu vegna COVID-19 eru nánast allir úr þessum hópi.“
17 COVID-19 sjúklingar á þremur deildum Landspítala
Fyrstu COVID-19 sjúklingarnir sem lagðir voru inn á Landspítala lögðust inn á smitsjúkdómadeild. Síðdegis á fimmtudeginum 26. mars lágu þar samtals 17 sjúklingar með staðfest smit, samkvæmt tölum a vef Landspítala, og eru þeir á smitsjúkdómadeild, á lungnadeild og á gjörgæslu
„Ekkert bendir til annars en að flestir, sem fengið hafa lungnabólgu vegna COVID-19, muni jafna sig að fullu“
Spurð um meðferð segir Sif að hún felist fyrst og fremst í stuðningsmeðferð, eins og til dæmis súrefnisgjöf og g öndunarvélum í alvarlegustu tilfellunum, en núna eru þrír sjúklingar í öndunarvélum á gjörgæsludeild Landspítala, samkvæmt vefsíðu spítalans. Hún segir ekkert benda til annars en að flestir, sem fengið hafa lungnabólgu vegna COVID-19, muni jafna sig að fullu.
„En það er óvíst með allra alvarlegustu tilfellin, þar sem fólk fer í öndunarvél, jafnvel í lengri tíma. Það verður tíminn að leiða í ljós.“
Athugasemdir