Tryggvi Örn Gunnarsson verkfræðingur er búsettur í borginni Innsbruck í Týról-héraðinu í Austurríki. Hann hafði hug á að koma til Íslands þegar COVID-19 faraldurinn fór að færast í aukana, en kemst nú hvergi þar sem útgöngubann er í landinu og sífellt verið að herða þær takmarkanir sem því fylgja.
„Mig langaði til að komast heim til Íslands áður en öllu yrði lokað. Mér finnst margt benda til þess að útgöngubannið muni vara lengur en til 13. apríl eins og staðan er núna. Við erum við landamærin að Ítalíu og margir hér óttast að ástandið verði svipað hér og þar,“ segir Tryggvi.
Hann hafði fengið þær upplýsingar að hann ætti að geta komist yfir landamærin að Þýskalandi og þaðan til Íslands ef hann væri með gildan flugmiða, en við nánari eftirgrennslan reyndist það ekki vera rétt. „Við megum ekki fara út fyrir bæjarmörkin. Þannig að ég er ekki að fara eitt né neitt,“ segir Tryggvi.
„Það eina góða við þetta er að ég hef kynnst nágrönnum mínum talsvert betur.“
Útgöngubannið hert
Hann segir að útgöngubann hafi verið sett í landinu fyrir rúmri viku. „Það hefur verið hert enn frekar undanfarna daga. Til dæmis mátti fara út að hlaupa eða ganga til að byrja með, en það má ekki lengur. Við megum fara út í búð til að kaupa mat, í apótek, til læknis og fara örstutt út með hund. Ég fór síðast út á föstudaginn til að kaupa í matinn og ætli ég þurfi ekki að fara út í dag, það er orðið tómt í skápunum hjá mér.“
„Til dæmis mátti fara út að hlaupa eða ganga til að byrja með, en það má ekki lengur“
Tryggvi býr við eina fjölförnustu götuna í Innsbruck og segir að nú sé býsna tómlegt að litast út um gluggann. „Á daginn, á meðan búðir eru opnar, sér maður fólk á sveimi. En eftir klukkan 17, þegar þeim hefur verið lokað, er sorglegt að horfa út. Það er enginn úti.“
Fangelsi og fjársektir liggja við broti á útgöngubanni
Skíðabærinn Ischgl hefur verið talsvert til umfjöllunar í tengslum við COVID-19 faraldurinn, en fjölmörg smit fólks víða að, meðal annars héðan frá Íslandi, hafa verið rakin þangað. Bærinn er í sama héraði og Innsbruck og segir Tryggvi að allt samneyti á milli bæja sé bannað. Í héraðinu búa um 750.000 manns og þar eru um 280 borgir og bæir, sumir mjög fámennir og litlir. Verði fólk uppvíst að því að fara á milli bæja geti það átt yfir höfði sér háa fjársekt og jafnvel fangelsisvist, að sögn Tryggva.
Mikil aukning hefur orðið á smitum í landinu undanfarna daga. Í dag höfðu um 4.800 smit verið staðfest og 25 hafa látist í landinu af völdum veirunnar. Tryggvi segir að austurrísk heilbrigðisyfirvöld og ráðmenn í héraðinu hafi verið gagnrýndir harðlega fyrir viðbrögð sín. „Það var ekkert verið að taka almennilega á þessu til að byrja með, miðað við það sem var í öðrum löndum. Síðan tóku yfirvöld við sér.“
Stendur á svölunum og talar við nágranna sína
Tryggvi starfar sem verkfræðingur hjá fyrirtæki sem framleiðir róbóta fyrir skurðaðgerðir og ýmsa heilbrigðisþjónustu. Hann hefur unnið heima í rúma viku, hann býr einn og segist sakna samneytis við fólk, þrátt fyrir tíða fjarfundi í vinnunni og rafræn samskipti og símtöl við vini og ættingja. „Ég hef staðið úti á svölum og talað við nágranna mína. Ég hef kynnst þeim miklu betur undanfarna daga. Það er þó eitthvað gott við þetta.“
Athugasemdir