Það voru fagnaðarfundir þegar Lilja Rún Kristjánsdóttir losnaði loks úr tveggja vikna sóttkví og gat farið að sækja þriggja ára gamla dóttur sína, Lísu Maríu. Báðar voru þær búnar að telja niður dagana þar til þær gátu hist á ný og síðustu sólarhringana taldi Lilja Rún líka niður klukkutímana, svo erfið var biðin eftir því að fá að sjá þriggja ára gamla dóttur sína aftur.
„Lífið er töluvert betra núna,“ segir Lilja Rún sem lauk um helgina tveggja vikna sóttkví. Kærastinn hennar hafði farið í skíðaferð til Austurríkis og þegar svæðið var skilgreint sem háhættusvæði hafði hann ekki val um annað en að fara í sóttkví skömmu eftir heimkomuna. Þar sem Lilja Rún starfar sem rannsóknarlögreglumaður þá varð hún að fara með honum í sóttkví, þar sem hún var aðskilin dóttur sinni, sem reyndi verulega á þær mæðgur, enda hafa þær aldrei verið svo lengi frá hvor annarri.
Síðustu dagarnir erfiðastir
Lilja Rún ræddi við Stundina um miðja síðustu viku og þá bar hún sig vel. Þá sagði hún að fyrstu dagarnir hefðu verið erfiðastir, því þá var biðin eftir því að hún fengi að sjá dóttur sína aftur svo löng.
Nú segir hún að síðustu dagarnir hafi farið að reyna aftur á. „Mér fannst allt erfitt þessa síðustu daga. Bara að setjast niður að horfa sjónvarpið, ég var ekki að nenna því. Ég fékk ógeð á öllu. Þess vegna var ég farin að telja niður klukkutímana síðustu 72 tímana. Ég geri þetta ekki aftur nema að fara í járnum,“ segir hún hlæjandi. „Ég segi það samt í fyllstu alvöru að ég get ekki hugsað mér að lenda í þessu tvisvar. Fyrir okkur sem lentum svona snemma í sóttkví er mikil hætta á því að við þurfum að fara aftur. Ég fæ bara hroll við að hugsa um það, eins og ég segi þá geri ég þetta helst ekki aftur nema ég fari inn í járnum, vistuð á einhverja stofnun.“
Hvað sem því líður þá var allavega mikill léttir að vera komin út. „Það var mjög kærkomið. Þetta var alveg orðið gott. Þetta er agalegt.“
Á meðan sóttkvínni stóð heyrði Lilja Rún daglega í dóttur sinni og ræddi við hana í gegnum Facetime kvölds og morgna. „Ég talaði við hana tvisvar sinnum á dag og reyndi að hughreysta hana. Hún skildi þetta ekki, en hún skildi að við værum veik og að hún gæti smitast. Mér fannst betra að segja henni það heldur en að reyna að útskýra fyrir henni hvað sóttkví er. Jú, hún skilur þetta með bakteríurnar. Að það sé ekki hægt að fara í sunnudagsskólann eða sund vegna þess að þar séu bakteríur, en hún skilur ekkert mikið meira en það.“
Kærkomið knús
Á laugardagsmorgni var Lilja Rún loksins laus. Hún hafði ráðgert að sækja dóttur sína, sem er þriggja ára gömul. Lísa María vaknaði klukkan sex að morgni og beið móður sinnar, sem var komin til hennar um hálfellefu. „Hún var alveg tryllt úr spenningi. Þetta var mjög kærkomið knús sem við fengum þarna, við mægður og við höfum varla sleppt hvor annarri síðan. Hún er svo mikil mömmustelpa að hún var búin að telja niður síðustu þrjá dagana: Nammidagurinn, þá kemur mamma.“
„Mamma er komin, ekki sleppa“
Ljósmyndari Stundarinnar, Heiða Helgadóttir, var með í för. „Lísu brá svo þegar það fyrsta sem hún sá var Heiða. Hún stóð bara og horfði á hana. Svo sagði ég: Komdu þarna, þá kom hún hlaupandi til mín og sagði: Mamma er komin, ekki sleppa. Ég var búin að segja við hana að ég ætlaði að koma til hennar og aldrei að sleppa henni aftur.“
Stundin sem hélt mér gangandi
Sjálf var hún búin að sjá þessa stund fyrir sér. „Ég var búin að lifa fyrir þetta móment síðustu tvær vikurnar, tilhugsunin um að hitta hana aftur hefur haldið mér gangandi. Enda hefur hún sagt hundrað sinnum að hún elski mig síðan hún kom aftur. Hún er bara búin að vera inni í mér. Skiljanlega.“
Mæðgurnar fóru síðan saman í bakarí, í búð og loks heim í hádegislúrinn þar sem þær lágu saman og kúrðu. Síðan hafa þær notið þess að vera saman og leika sér. „Við reynum bara að njóta samverunnar. Ef það er eitthvað sem við getum lært af þessu þá er það hvað það er kærkomið að vera með sínum nánustu. Það er mjög vanmetið að eiga tíma með þeim sem manni þykir vænt um.“
Athugasemdir