Styttri skóladagur, tómstundastarf fellur niður og mörg ný orð í fréttum. Daglegt líf íslenskra grunnskólabarna hefur tekið talsverðum breytingum að undanförnu eftir að gripið var til aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunnar.
Þeir Ottó Örn Ragnarsson, Jakob Már Kjartansson og Alexander Sigursteinsson eru allir níu ára og eru í 4. bekk í Vatnsendaskóla í Kópavogi. Þeir æfa allir handbolta og fótbolta og stunda einnig skákæfingar af kappi, allar slíkar æfingar hafa nú fallið niður en félagarnir láta ágætlega af sér, þrátt fyrir allt, og segjast litlar áhyggjur hafa af stöðu mála.
Spurðir hvað hafi breyst í þeirra lífi undanfarið svarar Jakob að allar æfingar hafi fallið niður.
„Skólinn styttist, alveg um tvo klukkutíma,“ bendir Ottó á. „Við erum í fríi. Það er ekkert mikið að gera,“ segir Jakob. „Við þurfum líka að taka aukaæfingar, því það eru engar æfingar,“ segir Alexander og bætir við að slíkar æfingar geri þeir vinirnir í bílskúr foreldra sinna.
Styttri skóladagur þrjá daga í viku
Félagarnir segja að búið sé að skipta árganginum þeirra niður í fleiri og smærri hópa en áður var.
Jakob: „Þú átt ekki að fara út úr stofunni þinni nema bara til að fara á klósettið og í nesti.“
Alexander: „Og líka til að ná í eitthvað.“
„Þetta byrjaði með leðurblöku eða snák“
Ottó: „Og fara í útivist.“
Alexander: „En það má bara einn hópur fara í útivist í einu.“
Auk þess að vera búnir tveimur tímum fyrr í skólanum, eru þeir eingöngu þrjá daga vikunnar í skólanum og hafa því umtalsvert meiri frítíma nú en áður, sem þeir verja á ýmsan hátt. Jakob segist vera svolítið í tölvunni og Ottó spilar á spil. „Við erum í fótbolta mjög lengi, í þrjá tíma,“ segir Alexander.
Þetta byrjaði með leðurblöku eða snák
Og blaðamaður Stundarinnar kom ekki að tómum kofunum hjá félögunum þegar þeir voru spurðir um ástæðu þessa alls. Þeir hafa fylgst grannt með stöðu mála og höfðu meðal annars kynnt sér uppruna kórónaveirunnar.
Ottó: „Þetta byrjaði með leðurblöku eða snák.“
Jakob: „Og svo er þetta bara búið að dreifast.“
Aðspurðir segjast þeir ekki þekkja neinn sem hefur veikst, en vinur þeirra er í sóttkví. Þá eiga þeir líka afa og ömmur í sóttkví.
Hafa aukið við orðaforðann
Spurðir hvort þeir viti hvað orð eins og sóttkví, samkomubann, einangrun og útgöngubann þýða segjast félagarnir hafa kynnt sér það, enda hafa þeir fylgst vel með fréttum.
„Ég hef áhyggjur af ömmu minni og afa“
Jakob: „Sóttkví er þegar þú mátt ekki fara út í tvær vikur.“
Ottó: „En þú mátt samt fara í göngutúr. Bara hitta ekki neinn.“
Jakob: „Bara hitta ekki neinn í tvær vikur. Bara þann sem býr hjá þér. Útgöngubann þýðir að þú átt ekki að fara út nema fara í apótek eða versla í matinn. Samkomubann er að þú setur einhvern takmarkaðan fjölda á stað.“
Spurðir hvort þeir hafi áhyggjur svara þeir neitandi. „En ég hef áhyggjur af ömmu minni og afa,“ segir Ottó.
Athugasemdir