Frá og með klukkan 10 á morgun mega ekki fleiri en tíu koma saman í Danmörku, hvort sem er utan- eða innandyra. Bannið á að gilda til 30. mars. Þetta kom fram á blaðamannafundi dönsku ríkisstjórnarinnar sem nú stendur yfir.
Þetta er gert til að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Allar íþróttamiðstöðvar, líkamsræktarstöðvar og ýmis þjónusta, þar sem starfsfólk er í mikilli nálægð við viðskiptavini, eins og til dæmis hárgreiðslu- og snyrtistofur munu einnig loka og einnig veitingastaðir og kaffihús.
977 smit hafa nú greinst í Danmörku, að því er fram kom á fundinum. 82 Danir eru á sjúkrahúsum vegna veirunnar og 18 eru á gjörgæslu. Fjórir hafa látist í landinu af völdum veirunnar.
„Ástandið verður sífellt alvarlegra,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur á fundinum. „Við höfum gert margt og við höfum gert það hratt. Þetta eru einstakar aðstæður. En það er þörf fyrir harðari aðgerðir. Það er mikilvægt að við rjúfum smitkeðjuna núna. Við verðum að gera allt sem við getum. Þetta verður ekki auðvelt“
„Það er þörf fyrir harðari aðgerðir. Það er mikilvægt að við rjúfum smitkeðjuna núna. Þetta verður ekki auðvelt“
Blaðamannafundurinn var haldinn í svokölluðum speglasal í danska forsætisráðuneytinu og var einungis einum fréttamanni frá hverjum fjölmiðli hleypt inn á hann.
Danadrottning ávarpar þegna sína í kvöld
Margrét Þórhildur Danadrottning mun ávarpa þjóð sína núna á eftir klukkan 20 að staðartíma, klukkan 19 að íslenskum tíma. Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins, DR, segir að slíkt ávarp sé nánast fordæmalaust í sögu Danmerkur. Drottningin hafi hingað til ekki flutt opinber ávörp af þessu tagi nema um áramót. Hún hafi til dæmis ekki gert það þegar hryðjuverk var framið í Danmörku árið 2015.
„Ávarp Kristjáns 10. þegar danska þingið kom saman í fyrsta skiptið eftir heimstyrjöldina síðari, kemur upp í hugann,“ segir Sebastian Olden Jørgensen sagnfræðingur við Kaupmannahafnarháskóla í samtali við DR.
Danska ríkisstjórnin hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða til að hindra útbreiðslu veirunnar. Landamærum Danmerkur var lokað á laugardaginn og í síðustu viku var öllum skólum þar lokað og ríkisstarfsmenn sendir heim.
Athugasemdir