Bretland er eina rótgróna aðildarríkið sem sagt hefur skilið við Evrópusambandið. Bretar gengu í ESB 1973, samþykktu aðildina eftir á í þjóðaratkvæðagreiðslu 1975 þar sem 67% kjósenda lögðu blessun sína yfir ráðahaginn og ákváðu síðan í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu 2016 með 52% atkvæða gegn 48% að ganga út.
Þrjú önnur lönd urðu fyrri til að skilja við ESB, hvert með sínum hætti. Ekkert þeirra var þó sjálfstætt og fullgilt aðildarríki. Hér er sagan af þeim.
Fyrst Alsír
Alsír – já, Alsír! – reið á vaðið. Meðan Alsír var hluti Frakklands, samt ekki nýlenda, var Alsír aðili að ESB. Frakkar sóttu það fast við samningu Rómarsáttmálans 1957, þar sem stjórnskipulegur grunnur var lagður að sambandinu, að fjarlægir hlutar franska ríkisins væru hafðir með í sambandinu á sérstökum kjörum, þ.e. með eins konar aukaaðild eða fjaraðild. Meðal þessara fjarlægu hluta Frakklands var Alsír, sem hafði háð grimmilegt sjálfstæðisstríð gegn Frökkum frá 1954. Sjálfstæðisstríðið var einnig borgarastríð þar eð sjöundi hver íbúi í Alsír var þá Evrópumaður, mest Frakkar. Þegar stríðinu lauk með sigri Alsíringa gegn Frökkum 1962 og Alsíringar tóku sér sjálfstæði sögðu þeir sig úr tygjum við ESB.
Þegar Alsír var hluti Frakklands voru þjóðartekjur á mann fimm sinnum hærri í Frakklandi en í Alsír. Nú er munurinn tífaldur Frökkum í vil. Alsíringum hefur ekki vegnað vel á heildina litið. Land þeirra er gerspillt einræðisríki þar sem háð var önnur blóðug borgarastyrjöld 1991–2002. Flestir ferðamenn forðast landið. Ásókn stríðandi fylkinga í olíulindir landsmanna á ríkan þátt í ófremdinni. Mörg önnur lönd hafa svipaða reynslu af sambúð við auðlindir náttúrunnar sé auðlindunum ekki vel stjórnað til hagsbóta fyrir almenning, réttan eiganda.
Síðan Grænland
Grænland gekk í ESB 1973 sem hluti Danmerkur. Árið áður höfðu Danir samþykkt inngöngu með 63% atkvæða, en 70% grænlenzkra kjósenda höfðu greitt atkvæði gegn inngöngu. Eftir að Grænlendingar fengu heimastjórn 1979 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla 1982 um aðildina að ESB og greiddu þá 53% kjósenda atkvæði með útgöngu. Höfuðrök útgöngusinna voru að fiskiskip annarra ESB-ríkja sóttu afla í grænlenzka lögsögu án endurgjalds. Eftir að Grænlendingar gengu úr ESB 1985 var samið um áframhaldandi veiðar evrópskra fiskiskipa í grænlenzkri landhelgi gegn gjaldi sem er eina vitið. Samkomulagi um slíka gjaldtöku hefði að réttu lagi átt að vera hægt að ná án útgöngu en á það reyndi ekki.
Þrátt fyrir heimastjórn frá 1979 er Grænland enn hluti Danmerkur og notar danska krónu sem er rígbundin við evruna svo að Grænland er í reyndinni evruland eins og Færeyjar. Nú er almennur stuðningur við það í öllum flokkum á grænlenzka þinginu að landið taki sér fullt sjálfstæði frá Danmörku, m.a. vegna þess að margir Grænlendingar telja sig geta hagnazt á legu landsins og auðlindum. Reynslan mun leiða í ljós hvort þverpólitískur stuðningur á þinginu í Nuuk dugir til að sigla fullu sjálfstæði til sigurs í þjóðaratkvæðagreiðslu gegn vilja dönsku stjórnarinnar. Reynslan mun einnig leiða í ljós hvort viðskilnaður Grænlendinga við dönsku krónuna – og evruna! – mun leiða til verðbólgu og óstjórnar eins og raunin varð á Íslandi eftir 1939 og með líku lagi einnig í Nígeríu gagnvart brezka pundinu eftir að Nígería tók sér sjálfstæði 1960.
Þá Sankti Bart
Þriðja landið er Sankti Barthélémy, örlítil Karíbahafseyja þar sem höfuðborgin heitir Gústafía þar eð Svíar áttu plássið 1784–1878. Þetta er eldfjallaeyja, aðeins 25 ferkílómetrar að stærð, með tíu þúsund íbúa, eina fv. nýlenda Svía í Vesturheimi. Kristófer Kólumbus kom þangað fyrstur manna með áhöfn sinni 1493 og skírði eyjuna í höfuðið á Bartolomeo bróður sínum. Frakkar náðu síðan yfirráðum yfir eyjunni og Lúðvík sextándi seldi hana Svíum 1784 í skiptum fyrir hafnaraðstöðu í Gautaborg. Þetta voru þau ár. Óskar annar Svíakonungur skilaði eyjunni síðan aftur til Frakka 1878 þar eð Svíar töldu ekkert upp úr henni að hafa.
Sem hluti Frakklands, eða réttar sagt sem hluti af Gvadelúp sem er nálægur eyjaklasi, mun stærri, og hluti Frakklands líkt og m.a. Alsír var fram að 1962, var Sankti Barthélémy fjaraðili að ESB frá öndverðu. Eyjarskeggjar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2003 að segja sig úr tygjum við Gvadelúp. Það varð 2007. Nokkru síðar ákvað landsstjórnin á Sankti Bart, sem er annað og þjálla nafn á eyríkinu, að endurskoða sambandið við ESB í samráði við Frakka. Niðurstaðan varð sú að 2012 sagði Sankti Bart sig frá fjaraðild að EBS en var í staðinn sett á lista yfir þau lönd og svæði sem standa í sérstöku sambandi við ESB með gagnkvæmum réttindum og skyldum. Íbúar Sankti Bart eru eftir sem áður franskir borgarar og nota evruna sem gjaldmiðil. Staða eyríkisins gagnvart Frakklandi og ESB er formlega hin sama og staða Grænlands og Færeyja gagnvart Danmörku og ESB. Öðru máli gegnir um Gvadelúp sem heldur enn eins og Martiník og aðrir hlutar Frakklands í Karíbahafi og víðar fjaraðild sinni að ESB.
Tollfrjáls ferðaútvegur er helzti atvinnuvegur fólksins á Sankti Bart. Tíu þúsund íbúar taka á móti 250.000 ferðamönnum á ári. Gréta Garbo, leikkonan dáða sem prýðir nú sænska hundraðkrónuseðilinn, kom þangað oft. Gústafía skartar bara fáeinum götum sem þykja hver annarri fallegri og eyjan öll. Ein gatan er kennd við Charles de Gaulle Frakklandsforseta, önnur við Frakkland og hin þriðja við Óskar annan Svíakonung sem fyrr var nefndur og hafði braskað með eyjarskeggja líkt og búfénað. Götuskiltin eru bæði á frönsku og sænsku.
Óskar annar var gestgjafi Rama konungs fimmta í Síam, sem heitir nú Taíland, þegar Rama kom í heimsókn til Svíþjóðar 1897 að sækja sér fyrirmyndir og upplyftingu. Svo vel fór á með kóngunum tveim að Rama færði Óskari síamskan fíl að gjöf í kveðjuskyni. Hvernig endurgeldur maður svo höfðinglega gjöf? spurði Óskar konungur æðstaráðgjafa sinn. Hvað get ég gefið Rama í staðinn? – Kannski Noreg? spurði ráðgjafinn á móti. Norðmenn rufu konungssambandið við Svíþjóð 1905, tveim árum áður en Rama V kom aftur til Svíþjóðar 1907 á síðari yfirreið sinni um Evrópu og fór þá m.a. norður fyrir heimskautsbaug þar sem minning hans er enn í heiðri höfð.
Mikilvægur munur
Reynsla sýnir að löndum sem una hag sínum ekki vel innan ESB er frjálst að ganga út. Það er meira en hægt er að segja um Bandaríkin þar sem svo var búið um hnútana í stjórnarskrá landsins 1787–1789 að nær ógerlegt er í reynd fyrir nokkurt fylki landsins, t.d. Kaliforníu eða Texas þar sem talsverðum áhuga á sjálfstæði er til að dreifa meðal almennings, að brjótast út úr sambandsríkinu og taka sér sjálfstæði. Til þess að það geti gerzt þurfa Bandaríkin að splundrast líkt og Sovétríkin gerðu fyrir 30 árum. Til þess eru hverfandi líkur eins og sakir standa. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður á um inngöngu nýrra fylkja en hún geymir engin ákvæði um útgöngu og setur breytingum á stjórnarskránni þröngar skorður. Þetta er einn lykilmunurinn á ríkjasambandi eins og ESB og sambandsríki eins og Bandaríkjunum.
Reynslan á eftir að sýna hvort ESB leggur í að vísa á dyr aðildarlöndum sem brjóta gegn Rómarsáttmálanum, stofnskrá sambandsins, og misbjóða öðrum sambandslöndum líkt og ríkisstjórnir Póllands og Ungverjalands hafa gert með ýmsu móti að undanförnu.
Við lifum óvissa tíma.
Athugasemdir