Starfsfólki kvennadeildar Landspítala finnst erfitt að sitja undir fréttum af því að starfsandi þar sé í molum, líkt og greint var frá í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag. Ástæða þess var sögð sú að í ljósi mikils aðhalds í rekstri spítalans hafi verið dregið úr fríðindum sem starfsfólk sem gengið hefur vaktir um hátíðir hafa notið, eða þau felld niður. Vakti þetta mikla óánægju hjá hluta starfsfólks en því mun þó fara fjarri að starfsandi þar sé í molum, líkt og fullyrt var. Spítalinn vinnur eftir hagræðingaráætlun sem ætlað er að ná fram sparnaði upp á þrjá milljarða á næsta ári. Til þess þarf að velta við öllum steinum og ráðast í ótal litla hluti, til að verja starfsemina, að því er deildarstjóri samskiptadeildar spítalans segir.
„Það er bara alls ekki rétt, að starfsandinn sé í molum á deildum Landspítala“
„Það er bara alls ekki rétt, að starfsandinn sé í molum á deildum Landspítala vegna nauðsynlegra aðhaldsaðgerða. Við fylgjumst grannt með þróun mála í þeim efnum með könnunum og fleiri aðgerðum og ekkert bendir til þess. Starfsandinn á spítalanum er þvert á móti á uppleið víðast hvar. Hins vegar er það rétt að aðhaldsaðgerðir upp á þrjá milljarða króna rífa hressilega í og eru bæði sársaukafullar og leiðinlegar,“ segir Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala við Stundina.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar mun óánægjan sem greint var frá í frétt Fréttablaðsins hafa birst meðal ljósmæðra á einni deild kvennadeildarinnar en kvennadeild skiptist í fjórar sérdeildir. Í fréttinni kemur fram að stjórnendur deildarinnar hafi ákveðið að fella niður fríðindi, sem tíðkast hefur að veita starfsfólki sem gengur í vaktir um stórhátíðir. Var þar um að ræða að ekki yrðu pantaðar pítsur fyrir starfsfólk á Þorláksmessu, ekki yrðu keyptar jólagjafir handa starfsfólki sem yrði á vakt á aðfangadagskvöld, að ekki yrði keypt gos fyrir starfsfólk fyrir jól og að dregið yrði úr sælgætiskaupum.
Skorið niður á öllum deildum
Stefán segir að hann geti ekki staðfest að óánægja sé meiri á einni deild heldur en annarri en viðurkennir fúslega að auðvitað sé einhver hluti starfsfólks spítalans óánægður með sparnaðaraðgerðirnar og það hvernig þær bitni á starfsemi spítalans í lengd og bráð. Starfsandinn á kvennadeildum sé góður og að flest starfsfólk þar hafi sýnt aðgerðunum mikinn skilning. Sömu sögu sé að segja af öðrum deildum spítalans. Stefán Hrafn segir einnig að rangt sé að starfsfólk fái ekki jólagjafir, þvert á móti fái allt starfsfólk Landspítala sömu jólagjöfina sem þetta árið sá gjafakort að upphæð 8.500 krónur.
Um 200 deildir eru á Landspítala og á þeim öllum hefur í gegnum árin verið eitt og annað gert fyrir fólk sem hefur þurft að ganga vaktir yfir stórhátíðir. Stefán segir stöðuna nú hins vegar vera þá að deildarstjórar sjái enga aðra leið aðra en að klípa af það sem hægt sé að klípa af, eigi þeim að takast að reka deildirnar, og að sá sparnaður eigi sér stað á öllum deildum spítalans.
Spara á þrjá milljarða króna
Framkvæmdastjórn spítalans samþykkti á fundi 3. september síðastliðinn aðgerðarlista með 41 aðgerð sem miðar að því að lækka útgjöld spítalans um einn milljarð króna á yfirstandandi ári. Á næsta ári er stefnt að því að sparnaðaraðgerðir skili tæplega þriggja milljarða króna sparnaði.
Um tveir þriðju aðgerðanna snúast um launaliðinn enda eru laun um 70 prósent af kostnaði við rekstur spítalans. Á næsta ári er stefnt að því að ná fram sparnaði sem nemur rúmum 2,4 milljörðum króna með hagræðingu í starfsmannamálum. Gerð er hagræðingarkrafa til allra stoðskrifstofa og deilda spítalans. Þá verður einnig gerð sérstök hagræðingarkrafa á launalið spítalans í heild. Beita á almennu aðhaldi í ráðningum á spítalanum og unnið verður eftir mönnunarmarkmiðum á hverri deild fyrir sig. „Hagræðingarkrafan á hverja deild er umtalsverð þótt hún dreifist að sjálfsögðu á mjög mismunandi hátt eftir starfsemi deilda, starfsmannafjölda og þar fram eftir götunum,“ segir Stefán Hrafn.
„Hagræðingarkrafan á hverja deild er umtalsverð“
Sparnaðaraðgerðirnar hófust þegar í haust á því að fækkað var í yfirstjórn spítalans og laun stjórnarmanna og forstjóra voru lækkuð. Þá verður bæði dregið úr fastri yfirvinnu, sem og að beitt verður aðhaldi þegar kemur að breytilegri yfirvinnu. Þá verður vaktaálagsauki hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra felldur niður.
Fyrir árið 2020 er síðan stefnt að því að hagræðing í rekstrarliðum á Landspítala skili heildarsparnaði sem nemur 531 milljón króna. Sá sparnaðar á að nást fram með ýmsum leiðum, meðal annars með notkun ódýrari lyfja og markvissari lyfjagjöf og með aðhaldi í innkaupum á sérgreindum lækningavörum. Þá á að fresta viðhaldsframkvæmdum, draga úr kostnaði við akstur og draga úr aðkeyptum veitingum og kostnaði við fundi.
Athugasemdir