„Ég var að máta stúdentshúfu í dag, ég útskrifaðist í vor en athöfnin sjálf er í næstu viku. Ég og pabbi fórum saman að kaupa stúdentshúfuna og þegar við vorum búin þar fórum við í Þjóðskrá og fylltum út eyðublað þannig að eftir nokkra daga verð ég formlega Finnbogadóttir. Þá ber ég nöfn beggja feðra minna, Fiyaskos og Finnboga. Ég kom beint þaðan hingað að hitta þig,“ segir hin 21 árs gamla Najmo Fiyasko, bráðum formlega Finnbogadóttir, þegar við erum búnar að heilsast og fá okkur sæti í einni af mörgum litlum setustofum á Mími við Hagatorg síðdegis í lok vinnuviku, skömmu fyrir vetrarsólstöður. Þar vorum við í skjóli frá jólastressinu. Najmo liggur hátt rómur og var áberandi ánægð með dagsverkið, enda drjúgt: húfa og nýtt nafn. Nokkrum dögum síðar stóð hún í pontu í sómölskum kjól með íslenska stúdentshúfu og flutti útskriftarræðu nemenda í Fjölbrautaskólanum í Ármúla.
Þegar við vorum búnar að sitja í um klukkustund á Mími barst talið að atburðum í æsku hennar sem ekkert barn á að þurfa að upplifa og þá dimmdi yfir henni. Hún talaði hægar og lægra. Najmo ber líðan sína utan á sér. Hún er ekki í felum.
„Ég er hætt að fela mig. Ég er samt ekki frjáls, ég verð það ekki fyrr en allar konur eru frjálsar,“ segir hún og bætir við að hún ætli að nýta hverja lausa stund sem hún eigi til að berjast fyrir stúlkur sem eru í sömu sporum og hún var þegar hún var lítil stelpa í Sómalíu. „Ég ætla að fræða þær og nota jafnvel óhefðbundnar aðferðir til þess,“ segir Najmo.
Stóra sviðið hennar eru samfélagsmiðlarnir, Facebook, Youtube, Instagram, Snapchat. Þar segir hún áhorfendum sögu sína, bendir á ofbeldið sem konur í Sómalíu verða fyrir á hverjum degi. Þar fræðir hún stúlkur, konur, stráka og karla um hvernig er hægt að stöðva ofbeldi gagnvart stelpum og konum í landinu sem hún fæddist í og flúði þegar hún var þrettán ára. Áhorfendum fjölgar dag frá degi og meðal margra Sómala er hún stjarna, Youtube stjarna með 23.000 áskrifendur og heildaráhorf á myndböndin hennar er komið yfir eina milljón.
Þöggun umlykur misþyrmingar á sómölskum stúlkum
Litríki klúturinn sem hún er með um hálsinn er einmitt gjöf frá aðdáanda í London. „Ég er í námi þar og eftir skóla einn daginn fór ég í bæinn og staðnæmdist við verslun sem selur sómalskar vörur, afgreiðslukonan sá mig, kom út og bauð mér inn í búðina. Þegar þangað var komið faðmaði hún mig og þakkaði mér fyrir allt sem ég væri búin að gera fyrir stelpur og konur í Sómalíu,“ segir Najmo stolt á svip. Hún segir að afgreiðslukonan hafi síðan kallað á vinkonur sínar sem voru í búðinni og að þær hafi líka þekkt hana og fagnað henni ákaft. Kveðjugjöfin var klúturinn litríki.
Athugasemdir