Það kemur eflaust fáum á óvart að hamfarahlýnun af manna völdum hvílir þungt á skáldum, ekki síst á því skáldi sem er höfundur orðsins „hamfarahlýnun“. Steinunn Sigurðardóttir (f. 1950) heldur upp á hálfrar aldar skáldskaparafmæli sitt á þessu ári og í ljóðabókinni Dimmumót yrkir hún um Vatnajökul í fortíð, nútíð og framtíð. Dimmumót skiptist í sjö hluta. Í fyrsta hluta hittir lesandinn fyrir „stelpuna“ sem á örugga æsku og glaða, ekki síst í „pabbasveit með jökli“ þar sem hún gengur „dagdraumaleiðina“ með kýrnar“ og yfir sveitinni ríkir „Hvítagullfjallið ofar öllu“. Strax í þessum fyrsta hluta birtast þó váboðar því það gleymdist að jökullinn „er úr vatni gerður // að hann leysist upp í það // og flæðir yfir veg allrar veraldar“. Við berum sökina; erum „Misindismenn. / Við óvitar // sem köllum okkur þó homo sapiens“:
Við vitiborin skiljum þá hamfarhlýnun á jörðinni
en við látum ósköpin yfir ganga
Athugasemdir