Kynferðisleg áreitni er alvarlegt samfélagslegt vandamál sem illa gengur að útrýma. Vinnustaðir eru oft illa í stakk búnir til þess að takast á við mál sem upp kunna að koma, meðal annars vegna ónýtrar vinnureglugerðar. Ný reglugerð er tilbúin en bíður meðferðar. Ráðherra segir afar mikilvægt að koma böndum á málaflokkinn og kveðst þekkja áhrif ofbeldis af eigin raun. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á stöðu áreitni á vinnumarkaði en samkvæmt evrópskri rannsókn hefur meirihluti kvenna orðið fyrir kynferðislegri áreitni á starfsferli sínum.
Eins og flestar konur hef ég orðið fyrir mínum skammti af kynferðislegri áreitni á lífsleiðinni. Og það er staðreynd, sem hefur verið að velkjast um í mér um nokkurt skeið, það er hvers vegna það þykir „norm“ að áreita konur, hvað nákvæMlega felst í orðinu áreitni og hvernig ber vinnustöðum að taka á slíkum málum.
Eldskírn í reynsluheim kvenna
Fyrsta dæmið um áreitni, sem var annars eðlis en það sem mér hafði verið kennt að væri „bara góðlátlegt grín“ drengja sem væru „skotnir í mér“, átti sér stað þegar ég var fjórtán ára og vann í símaveri Pizza Hut uppá Höfða. Ég var bráðger unglingur en átti
í mikilli innri baráttu. Það mætti því kalla mig „vandræðaungling“ þótt ég sé sjálf á móti slíkum stimplum. Ég hafði ákveðið að hætta að mæta í skólann, þar sem ég fékk lítið aðhald og nær enga örvun. Ég hugðist safna pening og hefja fullorðinslíf mitt fyrir alvöru – og mér hafði tekist að redda mér vinnu á Pizza Hut.
Á vinnustaðnum var ákveðin greddustemning eins og oft vill verða á unglingavinnustöðum. Áreitnin var yfirgengileg. Þar þótti ekkert tiltökumál ef strákarnir króuðu okkur ungu stelpurnar af og káfuðu á nýmótuðum konulíkömum okkar. Einskonar eldskírn í reynsluheim kvenna, hugsaði ég og reyndi að taka glósum og klípi sem hrósi.
Vildi kynferðisgreiða fyrir vaktir
Staðnum var stýrt af manni sem var í mínum huga eldgamall. Líklega hefur hann verið um þrítugt. Hann tók þátt í áreitninni og var duglegur að koma með athugasemdir um afturenda eða stinn brjóstin á okkur ungu stelpunum. Mér þótti hann ívið óþægilegri en ungu strákarnir, en hefði aldrei þorað að segja nokkuð. Ég tók þessu bara, eins og ég hélt að mér bæri að gera. Einn daginn vissi ég að yfirmaðurinn minn væri að vinna vaktaplan svo ég sló á þráðinn til hans og bað um fleiri vaktir því ég ætlaði að hætta í skólanum. Svar hans var eftirfarandi. „Já, ef þú kemur
og tottar mig.“
Eins og vanalega reyndi ég að slá á létta strengi, djóka og gera lítið úr þessari bón hans. Það eru lærð viðbrögð, ég vildi ekki styggja hann með því að vera leiðinleg. Hann hætti þó ekki og sagði að ef ég myndi ekki totta hann fengi ég engar vaktir. Ég hló vandræðalega, lauk samtalinu og hristi af mér klígjuna. Hann hlaut að vera að djóka.
Næst þegar ég mætti til vinnu sá ég hvar nafnið mitt var nær horfið af vaktaskema. Hann hafði ekki verið að grínast. Ég man hvernig sauð á mér. Engu að síður þurfti ég að safna kjarki til að spyrja hann út í málið. Svarið var að ég hefði betur komið að totta hann, nú gæti hann lítið gert fyrir mig. Ég varð því að gera mér þessar fáu vaktir að góðu.
Athugasemdir