Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir var 22 ára gömul, búsett í Hollandi og í háskólanámi, þegar hún fékk símtal frá Íslandi. Á hinum enda línunnar var læknir á líknardeildinni að kalla hana heim til að kveðja mömmu sína. Nú voru góð ráð dýr, söluskrifstofa Icelandair var lokuð og tíminn sem hún hafði til stefnu var naumur. Hún hugsar til þess með þakklæti þegar skrifstofan var opnuð sérstaklega fyrir hana, svo hún fengi flugmiða heim. Umhyggjan sem henni var sýnd um borð var einnig eftirminnileg. „Allt var gert fyrir þessa ungu stelpu sem sat þarna stjörf að fara að kveðja mömmu sína. Þegar flugvélin lenti stóð ég strax upp og gekk að útganginum þar sem ég beið eftir því að komast út. Flugfreyjurnar virtust skilja að þarna var eitthvað í gangi og leyfðu mér að standa þarna þar til hurðin opnaðist. Svo var eins og öll hlið opnuðust á undan mér á flugvellinum og ég var komin út skömmu síðar.“ Sem betur fer. Þetta stóð tæpt. Bryndís fór beinustu leið inn í Kópavog þar sem móðir hennar kvaddi tveimur tímum síðar. „Það var mér svo mikilvægt að ná að kveðja.“
„Ég þekki æxli þegar ég sé það“
Móðir hennar lést úr krabbameini 45 ára gömul. Sextán árum síðar var Bryndís aftur komin út, nú í meistaranám í New York þegar hún veiktist sjálf. Til að byrja með leitaði hún á bráðamóttöku vegna magakrampa en var gefið asperín. Í heilan mánuð gekk hún á milli lækna, illa haldin af verkjum og enginn vissi hvað var að. Að lokum kom í ljós að eitthvað lokaði meltingarveginum. „Þetta getur verið æxli…“ sagði læknirinn, „… en það er allt eins líklegt að það sé bara sýking.“ Hún var send í skoðun til dr. Liebermans, prófessors í Cornell sem er yfir meltingarskurðlækningunum á New York Presbyterian háskólasjúkrahúss. Dr. Lieberman vissi greinilega ekki að ég vissi ekki að þetta væri æxli því hann byrjaði bara að tala um það. Mér brá dálítið og spurði hvort þetta væri örugglega æxli, við ættum eftir að fá niðurstöðurnar úr rannsóknum. „Ég þekki æxli þegar ég sé það,“ var svarið. „Þetta er æxli og það er mjög stórt.“
Þarna sat ég og tók á móti þeim fréttum að ég væri með ristilkrabbamein, sem er mjög sjaldgæft hjá konum á mínum aldri. Meðalaldur þeirra sem fá ristilkrabbamein er um sjötíu ár. Enginn í nánustu fjölskyldu hafði fengið ristilkrabbamein og ég var ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma sem gætu ýtt undir það. Ég hef stundum hugsað til baka og velt því fyrir mér af hverju mín fyrsta hugsun var sú að það þyrfti nú einhver að taka að sér að vera þessi tölfræðilegi útlagi. Kannski af því að þetta voru of stórar fréttir til að ég gæti meðtekið þær strax.“
Athugasemdir