Miðillinn Ólafur Agnar H. Thorarensen sérhæfir sig í því að bjóða fólki að ná sambandi við látna aðstandendur.
Stundin birtir hér viðtal við Ólaf þar sem hann lýsir störfum sínum. Með því er á engan hátt tekið undir fullyrðingar Ólafs, enda hafa vísindarannsóknir bent til þess að ekki sé unnt að ná sambandi við látið fólk. Stundin hafði samband við Birtu, landssamtök foreldra sem hafa misst börn/ungmenni skyndilega, sem segja það geta verið síðasta hálmstrá syrgjandi foreldra að leita til miðils.
„Fólk sem kemur til mín er mjög oft fólk sem missir barn. Ég fæ það oftast til mín fljótlega eftir að barnið deyr og má segja að þessi hópur sé sá stærsti sem kemur til mín til að fá að vita um barnið sitt, sem er mjög eðlilegt,“ segir Ólafur Agnar.
Hann segir að það gangi misjafnlega að ná sambandi við nýlátið fólk. „Lítil börn eru hins vegar fljót að koma; þau eru auðvitað bara litlir molar og litlir geislar sem koma fljótt aftur. Það er mjög auðvelt að finna þau. Maður getur auðvitað ekki talað við þau beint en ég get sagt fólkinu hvernig þau líta út, hvernig þau eru og hvernig þau „akta“ og þá þekkir fólkið þau. Mér er einnig sýnt ef þau eru með einhver einkenni.
Foreldrarnir leita auðvitað til mín til að vita hvort það sé allt í lagi með litla barnið og hvert það fer. Yfirleitt þegar lítið barn deyr þá kemur einhver nákominn með það þannig að það er komið í hendurnar á til dæmis ömmu, afa eða einhverjum sem stendur því nálægt og er dáinn og hefur það hjá sér þangað til foreldrar barnsins koma til þeirra.“
Athugasemdir