Með harðri gagnrýni sinni á áherslur samstarfsflokkins í ríkisstjórn er Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, að senda almennum flokksmönnum þau skilaboð í aðdraganda flokksþings að hún sé óhrædd við Sjálfstæðisflokkinn og reiðubúin að taka við forystuhlutverki í Framsóknarflokknum með sjónarmið félagshyggjunnar að leiðarljósi.
Þetta er tilgáta Össurar Skarphéðinssonar, þingsmanns Samfylkingarinnar, sem á það til að birta stuttar stjórnmálagreiningar á Facebook í húmi nætur. Segir Össur að Eygló gæti „opnað flokknum leiðir sem enginn annar gæti“. Af athugasemdum að dæma finnst einhverjum sem Össur ýji þarna að þeim möguleika að Framsóknarflokkurinn styðji eða taki þátt í stjórnarsamstarfi með vinstriflokkum á næsta kjörtímabili.
Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, finnst ekki mikið til skrifa Össurar koma og bendir á að síðasta ríkisstjórn var hálfgerð minnihlutastjórn síðustu mánuði starfstímans. „En menn héngu á stólunum. Nú er líklegt að kosningar verði í haust þó ýmsir Samfylkingarmenn séu ekki hrifnir af því. Það er því engin frétt að stjórnin ,,lafi" ekki nema til kosninga,“ skrifar hann.
Eygló Harðardóttir fullyrti nýlega að hún hefði þurft að slást við Sjálfstæðisflokkinn um framlög til velferðarmála enda leggi samstarfsflokkurinn meiri áherslu á að lækka skatta, meðal annars á þá efnamestu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Guðlaugur Þór Þórðarson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hafa gagnrýnt ummæli Eyglóar, sagt þau billeg og til marks um kosningaskjálfta.
Athugasemdir