Valgerður Guðmundsóttir heldur úti bloggsíðunni Eldhúsið hennar Völlu þar sem hún deilir fjölbreyttum og bragðgóðum réttum úr aðgengilegu hráefni. Í uppáhaldi hjá henni er ofursalat með kínóa. „Ég geri oft ríflegt magn og hef sem nesti daginn eftir,“ segir hún.
- 1 bolli kínóa – 1 ½ bolli vatn – soðið samkvæmt leiðbeiningum.
- 2-3 grillaðar eða ofnsteiktar kjúklingabringur, einnig gott að rífa niður tilbúinn kjúkling
- 2 – 3 lítið avocado skorið í teninga
- 3 tómatar skornir í teninga
- ½ rauð paprika, skorin í teninga
- Blaðlaukur eftir smekk smátt skorinn
- 1/3 krukka fetaostur með sólþurrkuðum tómötum og örlítið af olíunni
- Soðin sæt kartafla eftir smekk, í teningum
- Nokkrar svartar ólífur, skornar í bita
- Ristaðar pekanhnetur, saxaðar
Leiðbeiningar:
Setjið kínóa í pott og hellið vatni yfir. Setjið nokkur saltkorn með og látið suðuna koma upp, sjóðið í tíu mínútur og slökkvið svo undir pottinum. Hafið pottinn áfram á hellunni með lokið á og leyfið kínóanu að vera í svona 15 mínútur. Ég tek svo lokið af pottinum og helli kínóanu í stóra skál og kæli það aðeins. Það er líka mjög gott að sjóða rúmlegan skammt og eiga í ísskápnum.
Á meðan ég geri kínóað klárt finnst mér gott að ofnsteikja kjúklingabringurnar eða jafnvel steikja á pönnu með góðu kjúklingakryddi eða salti og pipar, allt eftir smekk. Þegar ég er að flýta mér finnst mér mjög gott að grípa með mér tilbúinn kjúkling úr búðinni og rífa bara niður.
Ég sker svo það grænmeti sem mig langar í og yfirleitt það sem ég á í ísskápnum þannig það sem ég tel upp í uppskriftinni er ekkert heilagt. Magn getur líka breyst og frábært að prófa sig áfram með tegundir sem fjölskyldunni þykja góðar. Best er að hafa þetta sem fjölbreyttast.
Ég toppa yfirleitt með smá hnetum og í þetta sinn ristaði ég pekanhnetur sem ég átti til og saxaði.
Athugasemdir