Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Mest lesnu fréttir ársins: Laugarásvídeó, Sveinn Andri og Ísmaðurinn

Þetta eru mest lesnu frétt­ir Stund­ar­inn­ar á ár­inu sem er að líða.

Mest lesnu fréttir ársins: Laugarásvídeó, Sveinn Andri og Ísmaðurinn

15 

 

Bréf til nauðgara

Brynhildur Yrsa Guðmundsdóttir var ein þeirra kvenna sem deildu reynslu sinni í lokuðum hópi á Facebook, Beauty tips, þegar #þöggun byltingin fór af stað. Henni hafði verið nauðgað af tveimur mönnum á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir 20 árum síðan. Brynhildur sagði síðan sögu sína í Stundinni, þar sem samskipti hennar við mennina voru birt.

Hún sendi þeim bréf þar sem hún rakti sína hlið mála og sagðist hafa mætt mjög drukkin á svæðið, svo drukkin að hún gat ekki einu sinni tekið þátt í því að tjalda. „Ég get ekki sagt hvernig þetta byrjaði en ég get sagt hvernig ég upplifði þetta,“ skrifaði Brynhildur.

Nauðgað af þremur mönnum
Nauðgað af þremur mönnum Brynhildur hafði hlakkað lengi til að fara á þjóðhátíð og drakk sig ofurölvi. Hún vissi ekki fyrr en hún vaknaði upp við að vinir hennar voru að hafa við hana kynferðismök.

14 

 

Guðbergur um Hallgrím: „Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk?“

Í október birti Stundin frétt um pistil eftir Guðberg Bergsson í DV sem vakti hörð viðbrögð hjá mörgum. Í pistlinum hæddist Guðbergur að Hallgrími Helgasyni rithöfundi sem hafði stuttu áður stigið fram og sagt frá kynferðisofbeldi sem hann var beittur 22 ára gamall. Hallgrímur segir frá ofbeldinu í skáldævisögu sinni, Sjóveikur í München, og ræddi það meðal annars í viðtölum við Fréttatímann og Stundina.

„Þess vegna sagði kvikindi: Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk? Hefði ekki verið eins gott að fara upp á marglyttu og að fást við saklausa þjóhnappa hans? Líklega mun hið sanna seint koma í ljós. Til þess þyrfti skáldið, að eigin sögn, að skrifa þúsund blaðsíðna bók með brennandi efni við 1000 gráðu skapandi hita,“ skrifaði Guðbergur.

Umdeildur
Umdeildur „Þess vegna sagði kvikindi: Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk? Hefði ekki verið eins gott að fara upp á marglyttu og að fást við saklausa þjóhnappa hans?,“ skrifaði Guðbergur

13 

 

Enn að berjast við heilaþvott Votta Jehóva

Það vakti mikla athygli þegar systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand gerðu tilraun til að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra.

Daginn eftir að Vísir hafði greint frá málinu kom 5. tölublað Stundarinnar út en þar var viðtal við Hlín, þar sem hún ræddi meðal annars um uppeldið í Vottum Jehóva, uppreisn og sjálfsvinnu til að losna undan heilaþvotti söfnuðarins.

Viðtalið var tekið áður en Hlín reyndi að fjárkúga Sigmund Davíð á þeim forsendum að hún hefði gögn undir höndum sem sýndu fram á fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, útgefanda og einn eiganda DV. Hvað sem því leið gaf viðtalið lesendum innsýn í hugarheim umtöluðustu konu Íslands.

Kúgaði Sigmund
Kúgaði Sigmund Eitt af skrýtnari og jafnframt merkilegri fréttum ársins var fjárkúgun systranna Hlínar Einarsdóttur og Malínar Brand á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

12 

 

Ísmaðurinn í viðtali: Fastur í ísnum í viku með þriggja ára dóttur sína

Stundin sagði frétt af óförum Ísmannsins, eins og Sigurður Pétursson skipstjóri er gjarna kallaður. Fréttin vakti hins vegar athygli fyrir aðrar sakir en lesendum virtist blöskra að Sigurður sem er 67 ára gamall væri giftur 19 ára stúlku.  

Sigurður er búsettur á Grænlandi og er stúlkan þaðan. Hann hafði stofnað til sambands við hana er hún var fimmtán ára og átti með henni barn sem hún fæddi 16 ára gömul. Í kjölfar fréttarinnar var birtur pistill á femínska vefritinu Kvenfrelsi undir fyrirsögninni „Er Ísmaðurinn kynferðisbrotamaður?“ en þar velti höfundur því fyrir sér hvort Sigurður hafi brotið lög með sambandi sínu við stúlkuna.

Ísmaðurinn
Ísmaðurinn Sigurður ásamt sambýliskonu sinni, hinni nítján ára Önnu Manikutdlak.

11

 

Flúði heimabæinn eftir hópnauðgun

Á þeim 25 árum sem liðin eru frá stofnun Stígamóta hafa um 7.000 konur sagt frá 10.000 nauðgurum. Sögurnar eru ýmiss konar, eins og þessar konur segja frá.

Hafdísi Björg Randversdóttur er ein þessara kvenna. Hún greindi frá því í viðtali við Stundina að henni hefði verið nauðgað af tveimur strákum þegar hún var fjórtán ára. Strákarnir sem um ræðir voru eldri en hún, 18 og 19 ára. Þeir voru félagslega sterkir og tilheyrðu stórum vinahópi.

Hafdís stóð ein uppi eftir nauðgunina þar sem málið var fellt niður hjá lögreglu og hún sögð ljúga. Annar gerandinn áreitti hana á götum úti og vinir hans, og hennar, tóku þátt í áreitinu.

 

Gengu í lið með gerendunum
Gengu í lið með gerendunum Hafdís stóð ein uppi eftir nauðgun þar sem málið var fellt niður hjá lögreglu og hún sögð ljúga. Annar gerandinn áreitti hana á götum úti og vinir hans - og hennar - tóku þátt í áreitinu.

10

 

Mun ekki gefa börnum nammi framar

Frétt um Hafliða Ragnarsson, margverðlaunaðan konfektgerðarmann, vakti mikla athygli á árinu. Hann sagðist vera hættur að bjóða börnum að smakka konfektið sitt eftir að honum hafði verið lýst sem „barnaperra“ í fjölmiðlum. „Ég er búinn að banna starfsfólkinu að gefa börnunum nammi og mun ekki gera það sjálfur í framtíðinni heldur,“ sagði Hafliði.

Stuttu fyrir birtingu fréttarinnar hafði lögreglu borist tvær tilkynningar vegna karlmanns sem gæfi börnum sælgæti í Grafarholti. Rætt var við Auði Hannesdóttur, móður sex ára stúlku sem hafði þegið sælgæti frá manni nálægt frístundaheimilinu Stjörnulandi nokkrum dögum áður. Auði var mjög brugðið vegna atviksins og lét starfsfólk frístundaheimilisins strax vita. Í kjölfarið var sendur póstur á alla foreldra.

Síðan kom í ljós að málið var mjög saklaust, en um var að ræða Hafliða sem þekkti stúlku í hópnum og gaf börnunum súkkulaði.

Í kjölfar fréttarinnar skrifaði Óttar Guðmundsson geðlæknir pistil um málið sem var með þeim mest lestu á árinu sem er að líða.

Konfektgerðarmaður
Konfektgerðarmaður Hafliða Ragnarsson er hættur að bjóða börnum að smakka konfekt sitt aftur.

9 

„Þetta fór eins og mikill meirihluti svona mála“

Hildur Björk Margrétardóttir er eitt af andlitunum á bak við erfiða tölfræði í kynferðisbrotamálum. Hún segist hafa verið misnotuð í æsku af manni sem tengdist henni. Hún lýsti brotum mannsins, afleiðingum þeirra og hvernig hún náði að vinna sig út úr ofbeldinu. Hildur segist hafa náð mestum bata þegar hún fór að opna sig um málið.

Hún kærði manninn til lögreglu fyrir nærri tíu árum síðan en málinu var vísað frá þar sem um var ræða orð gegn orði. Meintir gerendur eru aðeins dæmdir sekir í fimmta hverju tilkynntu kynferðisbroti gegn börnum.

Hildur Björk Margrétardóttur
Hildur Björk Margrétardóttur Hildur er eitt af andlitunum á bak við erfiða tölfræði í kynferðisbrotamálum. Hún segist hafa verið misnotuð í æsku af manni sem tengdist henni.

7

 

Nauðgað af þjóðþekktum manni og þögnin var þungbær

Ósk Gunnlaugsdóttir var ein þeirra kvenna sem rauf þögnin á Facebook-hópnum Beauty tips undir myllumerkinu þöggun. Ósk hefur glímt við áfallastreituröskun frá því að henni var nauðgað, þegar hún var sautján ára, af þjóðþekktum manni.

Í viðtali við Stundina sagðist hún hafa upplifað mikinn létti þegar hún sagði frá sögu sinni á Beauty tips. „Almenningsálitið er svo grimmt. Enn í dag koma allar þessar raddir upp; „Hvað gerði hún til að eiga þetta skilið?“, „af hverju var hún heima hjá honum?“ eða „hann er svo flottur að hann þarf ekki að nauðga“,“ sagði Ósk.

Ósk Gunnlaugsdóttir
Ósk Gunnlaugsdóttir Ósk var ein þeirra kvenna sem rauf þögnin á Facebook-hópnum Beauty tips undir myllumerkinu þöggun.

6

 

Tólf ára drengur lést af óútskýrðum orsökum

Sá vofveilegi atburður átti sér stað í sumar að Aron Andri Hall Arnarsson lést í svefni eftir að hann kom heim í Grafarholtið úr Flórídaferð. Dánarorsökin var óútskýrð og rannsökuð af þýskum sérfræðingi.

Andlát Arons var fjölskyldunni gríðarlegt áfall og blésu aðstandendur foreldra hans, Sigurrósar Gísladóttur og Arnars Más Hall Guðmundssonar, til söfnunar til að styrkja þau vegna kostnaðarins sem fylgir útför, töpuðum vinnustundum og fleiri veraldlegum röskunum sem hljótast af ástvinamissi.

Stundin sendir aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Aron Andri með systur sinni
Aron Andri með systur sinni Hann skilur eftir sig þriggja ára og 18 ára systur.

5

 

Ummæli eiginkonu Bjarna ekki í samræmi við gögn af framhjáhaldssíðu

IceHot1-mál Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra vakti gífurlega athygli á árinu. Upplýsingum af framhjáhaldssíðunni Ashley Madison var lekið á netið í ágúst og þar var eitt netfang sem skar sig úr, bjarniben@n1.is.

Svo fór að eiginkona Bjarna, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, steig fram eftir viku af gróusögum og upplýsti á Facebook-síðu sinni að þau hjónin hafi búið til aðganginn í sameiningu. Hún fullyrti að eftir það hefði aðgangurinn legið ósnertur. Allt bendir til að það hafi ekki verið fyllilega rétt þar sem aðgangurinn hafði verið uppfærður síðar á árinu, líkt og Vísir greindi frá.

Í frétt Stundarinnar voru sjálfvirkar færslur á árunum 2011 og 2013 tengdar við aðrar færslur og var það leiðrétt.

Fjármálaráðherra
Fjármálaráðherra IceHot1-mál Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra vakti gífurlega athygli á árinu.

3

 

Stúlka kærð fyrir að kæra lögreglumann fyrir nauðgun

Rétt tæplega 46 þúsund manns lásu frétt sem birtist í byrjun nóvember um mál Tönju M. Ísfjörð.

Hún leitaði til lögreglunnar eftir heimsókn á hótelherbergi eldri manns sem hún þekkti og treysti, en hann var fyrrverandi ökukennari hennar og starfandi lögreglumaður.

Hún kærði hann fyrir nauðgun, en eftir að ríkissaksóknari vísaði málinu frá kærði maðurinn hana fyrir rangar sakargiftir. „Mér fannst allt bregðast, bæði réttarkerfið og fjölskyldan,“ útskýrði Tanja.

Lögreglumaðurinn sagði málið hins vegar ofureinfalt: „Hún hefur mig þarna fyrir rangri sök.“

Kærði lögreglumann
Kærði lögreglumann Maðurinn var að vinna fyrir lögregluna á þeim tíma sem hann var kærður fyrir ­nauðgun. Hann vék tímabundið frá störfum en hefur nú snúið aftur. Myndin af lögreglumanninum er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.

2, 4 og 8

 

Mál Sveins Andra Sveinssonar

Fréttir um lögmanninn Svein Andra Sveinsson vöktu gífurlega athygli á árinu sem er líða. Fréttir um samskipti hans við ungar konur raðast í annað, fjórða og áttunda sætið á lista yfir mest lesnu fréttir ársins.

Fyrsta fréttin af málefnum Sveins Andra birtist í lok maí og sú sem lenti í fjórða sæti listans fjallaði um að vinkona Rebekku Rósinberg, tvítugrar stúlku sem stóð þá í faðernismáli við Svein Andra og hafði komið fram í viðtali við DV í fyrra þar sem hún sagði frá reynslu sinni af Sveini Andra, væri að safna reynslusögum af lögmanninum á Facebook-hópnum Beauty Tips. 

Umræðurnar mörkuðu upphaf Beauty tips byltingarinnar #þöggun, sem fjallað var um í erlendum miðlum.

Næsta frétt fjallaði um eftirmála þessa máls og þá staðreynd að DNA-próf hefði sýnt fram á að Sveinn Andri væri í raun barnsfaðir Rebekku. Þetta var næst mest lesna frétt Stundarinnar á árinu, en um 47 þúsund manns lásu. 

Að lokum greindi Stundin frá því í desembermánuði að Facebook-samskipti Sveins Andra við Ástríði Rán Erlendsdóttur, sem lést á Vogi í fyrra, hefðu ratað í skáldsöguna Líkvaka.

Lögmaður
Lögmaður Fréttir um Sveinn Andri Sveinsson voru mikið lesnar

1

 

Ljóta leyndarmálið á vídeóleigunni

Mest lesna frétt ársins 2015 á Stundinni var umfjöllun um Laugarásvídeó Gunnars Jósefssonar og kynferðisbrotamenn sem hafa verið viðloðandi myndbandaleiguna. Alls lásu ríflega 64 þúsund manns fréttina.

Sonur Gunnars tilkynnti meint kynferðisofbeldi föður síns til lögreglu og barnaverndaryfirvöld fjarlægðu dóttur eigandans af heimilinu. Ung kona lýsti hræðilegri reynslu sem hún segist hafa orðið fyrir í bakherbergi leigunnar þegar hún var sex ára gömul. Þar störfuðu tveir dæmdir kynferðisglæpamenn. Þrátt fyrir þetta hefur leigan hlotið jákvæða athygli og fyrir nokkrum árum var blásið til fjársöfnunar henni til stuðnings.

DV greindi frá því nýverið að vídeóleigan hættir rekstri nú um áramótin.

Eigandi vídeóleigunnar
Eigandi vídeóleigunnar Gunnar Jósefsson hefur rekið Laugarásvídeó í 30 ár. Hjá honum störfuðu dæmdir kynferðis­brotamenn en auk þess hafa alvarlegar ásakanir verið bornar á hann sjálfan.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár