1. Öryrkjum og eldri borgurum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo þau geti lifað með reisn. Grunngildi 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verði virt í hvívetna. Flokkur fólksins vill afnema allar skerðingar greiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða til einstaklinga og að vinna eldri borgara og öryrkja verði aftengd skerðingum.
2. Að börnum verði tryggð sú vernd sem 3. mgr. 76. gr. stjskr. veitir þeim en þar segir „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst“.
Flokkur fólksins vill að öllum börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum, ekkert barn á nokkurn tímann að vera svangt á Íslandi vegna fátæktar. Flokkur fólksins boðar áherslubreytingar í kennsluháttum. Helst eru það fjórir þættir sem við teljum að þurfi að færa inn í kennsluna strax á fyrstu stigum skólagöngunnar.
1. Sjálfsstyrking (í anda Dale Carnegie).
2. Mannleg samskipti, virðing og kærleikur.
3. Fjármálalæsi.
4. Ef barn eða unglingur hefur markað sér sýn á eitthvað ákveðið sem hann/hún vill stefna að í framtíðinni, þá að veita hverjum og einum persónusniðna þjónustu sem miðar að því að viðkomandi geti fengið að vinna í skólanum nákvæmlega við það sem hugurinn stefnir, með því móti er mun líklegra að einstaklingurinn rati inn á þá braut sem í framtíðinni mun veita honum gleði og hamingju í starfi.
3. Að ungu fólki sé tryggður grundvöllur til heimilisstofnunar og að námslán fái leiðréttingu í samræmi við aðrar skuldaleiðréttingar.
Flokkur fólksins vill afnema verðtryggingu og keyra niður okurvexti þannig að þeir verði ekki hærri en best þekkist í löndunum í kringum okkur. Með því móti mun ungu fólki sem öðrum sem þess þurfa, gert kleift að eignast eigið húsnæði. 30.000 Íslendingar hafa yfirgefið landið okkar í leit að betri lífsgæðum. Flokkur Fólksins vill berjast af alefli fyrir því að kalla mannauðinn okkar heim.
4. Að afnema skattlagningu á fátækt.
Grunnframfærsla verði ekki lægri en 300.000 krónur.
Flokkur Fólksins vill tryggja 300 þúsund króna lágmarks framfærslu. Flokkur Fólksins vill stokka spilin upp á nýtt og telur að þau hafi verið ranglega gefin þar sem þegnunum hefur verið stórlega mismunað. Flokkur Fólksins mun sækja aukið fjármagn í sameiginlegan sjóð okkar með því m.a að afnema allar undanþágur er varða virðisaukaskattskerfið. Við mótmælum allri mismunun.
5. Fiskveiðistjórnunarkerfið verður endurskoðað og það tryggt að fullt verð fáist fyrir aðgang að auðlindinni.
Flokkur fólksins vill að allur fiskur fari á markað. Veiðiheimildir verði afskrifaðar um 5% á ári, sem boðnar verða upp árlega. Aukning á aflaheimildum verði boðin út annars vegar til strandveiða og hins vegar til úthafsveiða. Flokkur Fólksins vill frjálsar strandveiðar smábáta að fjórum tonnum.
Athugasemdir