Sonur minn var góður strákur sem var alltaf glaður, alltaf hlæjandi og með mjög smitandi hlátur. Hann átti traustan vinahóp og gekk vel. Lífið blasti við honum þegar hann varð fyrir þessu áfalli en á svipstundu varð eins og ljósið hefði slokknað innra með honum,“ segir Ásdís.
Þórður er einkasonur hennar og bjó hjá henni allt frá því að foreldrar hans skildu þegar hann var þriggja ára. Mæðginin bjuggu í Vesturbænum þar sem hann gekk í Hagaskóla, fór í MR og stefndi á háskólanám. Hann var að ljúka þriðja ári í MR þegar hann varð valdur að banaslysi í umferðinni sem reyndist erfitt að lifa með. Þegar hann var að sækja einkunnirnar til umsjónarkennarans bakkaði hann á gamla konu á Spítalastígnum, sem lést af völdum áverkanna.
Þegar þetta gerðist var Ásdís stödd erlendis með samkennurum sínum í menntaskólanum, um borð í flugvél þegar hann reyndi að hringja frá spítalanum og með slökkt á símanum. Þórður náði ekki heldur í föður sinn og hringdi í móðursystur sína sem fylgdi honum í gegnum næstu skref. „Systir mín hringdi svo í mig. Hún er ein nærgætnasta manneskja sem ég þekki. Hún sagði mér hvað hefði gerst. Ég fraus og vildi ekki trúa því. Það voru mín fyrstu viðbrögð.“
Ásdís var svo í stöðugu sambandi við systur sína þar til hún komst til Íslands. „Ég gat ekki talað við hann því hann var í áfalli.“
Refsað fyrir að vera ekki til staðar
Sem betur fer var ein besta vinkona Ásdísar með henni í ferðinni. Hún reyndist Ásdísi mikil stoð og kom henni í samband við vinkonu sína sem er sálfræðingur og gaf Ásdísi ráðleggingar um hvernig væri best að mæta
Athugasemdir