Ísland er á rangri braut vegna spillingar í fjármálum og stjórnmálum, félagslegs ójöfnuðar og hnignunar velferðarkerfisins, siðferðisins og menntunar, samkvæmt áliti meirihluta þjóðarinnar.
Niðurstöður nýbirtrar könnunar MMR eru að 54,3 prósent landsmanna álíta að almennt séð, séu hlutirnir „á rangri braut“ á Íslandi. 45,7 prósent telja að „hlutirnir séu að þróast í rétta átt á Íslandi“.
Þeir tekjuhæstu jákvæðir á þróunina
Afgerandi munur er á afstöðu fólks eftir því hversu miklar tekjur það hefur. Þannig eru Íslendingar með meira en milljón krónur í mánaðarlaun langsamlega jákvæðastir á þróun mála. 56 prósent þeirra telja Ísland á réttri leið. Á móti eru 68 prósent þeirra sem hafa 400 til 600 þúsund í mánaðarlaun, eða með meðallaun, á þeirri skoðun að Ísland sé á rangri braut.
Mest afgerandi er munurinn eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Þannig telja 80 prósent stuðningsfólks Viðreisnar Ísland vera á réttri leið og 82 prósent stuðningsfólks Sjálfstæðisflokks, en 79 prósent Pírata telja Ísland á rangri braut. Slagorð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar var „Á réttri leið“. Slagorð Pírata var hins vegar „Endurræsum Ísland“.

Áhyggjur af spillingu lita sýn á samfélagið allt
Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvaða atriðum þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Þeir gátu valið þrjú atriði. Meðal þeirra sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða viðskiptum töldu 68 prósent Ísland vera á rangri braut. Af þeim sem nefndu fátækt og/eða ójöfnuð töldu 66 prósent Ísland á rangri leið, 65 prósent viðhald velferðarkerfisins og 63 prósent menntun.
Þau sem hafa áhyggjur af glæpum og ofbeldi telja hins vegar Ísland á réttri leið, eða í 80 prósent tilvika. Fólk sem hefur áhyggjur af ofþyngd barna taldi Ísland almennt á réttri leið í 73 prósent tilvika.
Þannig má sjá að fólk sem hefur áhyggjur af spillingu, siðferðishnignun, velferðarkerfinu og ójöfnuði, yfirfærir áhyggjur sínar á þróun samfélagsins almennt, fremur en þeir sem hafa áhyggjur af glæpum, ofbeldi og ofþyngd barna.

Athugasemdir