Hámark misskiptingarinnar
Þótt misskipting auðs og tekna hafi ágerzt í mörgum löndum hverju fyrir sig síðustu ár, hefur jöfnuður aukizt um heiminn á heildina litið. Þetta er engin þversögn heldur á þetta sér eðlilegar skýringar. Mest munar um þau hundruð milljóna Indverja og Kínverja sem hefur tekizt að hefja sig upp úr sárri fátækt fyrri tíðar í krafti framfara í hagstjórn og hagskipulagi.
Í heiminum öllum búa nú næstum átta milljarðar manns, þar af einn milljarður í hátekjulöndum, sex milljarðar í miðlungstekjulöndum og einn milljarður í lágtekjulöndum. Undangenginn mannsaldur hefur mikill fjöldi manns flutzt úr lágtekjuflokknum upp í miðlungstekjuflokkinn, lýðheilsa hefur batnað og líf manna lengzt. Kínverjar lifa nú lengur en Bandaríkjamenn að jafnaði. Fyrir 60 árum var munurinn 26 ár Bandaríkjamönnnum í vil.
Eigi að síður er gæðum heimsins mjög misskipt eins og birtist okkur nú tilfinnanlega í heimsfaraldrinum sem fátæk lönd hafa miklu lakari skilyrði til að verjast en rík lönd.
Skoðum heimsálfurnar fyrst. Nú hafa sex af hverjum 100 íbúum Norður-Ameríku fengið bólusetningu, þrír af hverjum 100 Evrópumönnum, færri en einn af hverjum 100 íbúum Asíu og Suður-Ameríku og færri en einn af hverjum 1.000 íbúum Afríku. Þessi munur stafar einkum en þó ekki eingöngu af því að bóluefnin er framleidd fyrst og fremst í ríkum löndum sem neyta lags til að tryggja sér forgang.
Förum land úr landi. Ísrael á heimsmetið: þar hafa 36% mannfjöldans nú fengið sprautu borið saman við 14% í Bretlandi, 8% í Bandaríkjunum, 3% í Danmörku og á Íslandi, 2,5% í Svíþjóð og 2% í Noregi skv. tölum sem New York Times hefur eftir rannsóknurum í Oxford-háskóla á Englandi. Eins og Ísland nota flest löndin bóluefni frá Pfizer, eða 52, og næstflest frá Moderna, eða 14. Brezka bóluefnið Oxford-AstraZeneca er notað í níu löndum, þ. á m. Brasilíu og Indlandi auk Bretlands sjálfs. Rússneska bóluefnið Gamaleya (Sputnik V) er notað í Serbíu, Alsír og Argentínu auk Rússlands. Kínverska bóluefnið Sinovac er notað í Indónesíu, Tyrklandi og Brasilíu auk Kína.
Upplýsingar um hversu langan tíma það mun taka að bólusetja nægan fjölda fólks til að ná hjarðónæmi eru enn á reiki enda virðast framleiðslu- og dreifingaráætlanir lyfjafyrirtækjanna einnig vera á reiki. Tímasetningar ráðast ekki eingöngu af framboði bóluefna heldur einnig af dreifingu þeirra auk annars. Hliðstæður vandi er þekktur úr öðru samhengi. Sagan sýnir að hungursneyðir stafa næstum aldrei af fæðuskorti heldur af skipulagsskorti, styrjöldum og annarri óáran.
Þótt bólusetningar gangi hægar en vonir stóðu til hefur einnig hægt á faraldrinum um heiminn á heildina litið, a.m.k. í bili, en samt ekki alls staðar. Dauðsföll af völdum veirunnar nálgast nú 2,3 milljónir í heiminum öllum, þar af fimmtungur í Bandaríkjunum, eða tæplega 460 þúsund sem er meira mannfall þar en af völdum heimsstyrjaldarinnar síðari. Enn deyja tveir til þrír Bandaríkjamenn á hverri mínútu sólarhringsins af völdum veirunnar.
Einu löndin þar sem dauðsföllin á hverja 1.000 íbúa hafa verið fleiri en í Bandaríkjunum eru Belgía, Slóvenía, Bretland, Tékkland, Ítalía og Bosnía-Hersegóvína ef örríkin Gíbraltar og San Marínó eru undan skilin. Einn af hverjum 720 Bandaríkjamönnum er nú þegar fallinn í valinn borið saman við einn af hverjum 540 Belgum. Til samanburðar misstu Bandaríkin einn af hverjum 150 íbúum landsins í spænsku veikinni 1918-1920 og Belgar trúlega einn af hverjum 380.
Athugasemdir