Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Íslenska elítan

 

Kæri Magnús Scheving,

 

„Elítan.“

Enginn tilheyrir henni. Allir hata hana. Ef íslenska orðabókin væri heiðarleg væri það þannig sem hún myndi lýsa orðinu.

Einu sinni þýddi þetta orð eflaust hámenntaðir og velvirtir sérfræðingar, eða afburða afreksfólk, eða kannski hafði það eitthvað að gera með stéttaskiptingu. Ef út í það er farið þá leikur enginn vafi á tilvist skuggaelítu sem á allt og stýrir öllu. Ef 1% mannkyns á 90% af öllu, þá hreinlega hlýtur það að vera. Ef ákveðinn hópur hagnast alltaf hvort sem það er í hruni eða hagvexti meðan aðrir missa og standa í stað þá er vitlaust gefið, og sumir fá að vita hluti sem aðrir fá ekki að vita.

 

Samt er það ekki það sem við meinum þegar við tölum um elítuna. Og reyndar meinar aldrei neinn nákvæmlega það sama og annar þegar hann talar um elítuna.

 

Við skulum ekki rugla elítunni saman við klíkuna. „Klíkan“ er þetta fólk sem fékk vinnuna sem þú áttir að fá, hún er þessi hópur sem þú ert aldrei inni í, en er samt nálægt þér. Elítan eru þessir fjarlægu einhvers staðar sem þykjast vita betur en þú. En þessir hópar eiga sama sálfræðilega upprunann.

 

Einhvern tímann í barnæsku vorum við ekki hluti af kúl genginu, kannski var það í grunnskóla eða menntaskóla eða á einhverjum vinnustað, en einhvern tímann og einhvers staðar sastu fjarri hjarta hópsins og skildir ekki brandarann sem allir hlógu að. Það er erfitt fyrir okkur Homo Sapiens. Við erum félagsverur og sjálfsmat okkar byggist oftar en ekki á stöðu okkar innan hópsins. (Og ímyndaðri stöðu okkar). Svo erum við líka mjög egó-sentrísk sem gerir það að verkum að við erum alltaf að velta fyrir okkur hvernig aðrir meta stöðu okkar. Í huga okkar taka allir eftir því sem við gerum og segjum, og eyða tíma sínum í að baktala okkur þegar þau mega vera að. Sem er auðvitað skárra en að enginn taki eftir okkur, sé að pæla í því sem við erum að gera … hafi hreinlega ekki áhuga.

 

Auðvitað eru klíkur til. Er tilviljun að forsætisráðherrar Íslands hafi nærri allir verið karlkyns MR-ingar með lögfræðigráðu að undanskildum staka endurskoðanda og einni kvenkyns fyrrum flugfreyju. En tilvist þeirra er líka mikilvæg sálfræðileg vörn. Hvað varðar starfið sem þú áttir að fá þá var það ekki klíka, að öllum líkindum var hinn umsækjandinn betri. Í alla vega stórum hluta tilvika. Kannski var eini munurinn að hinn aðilinn sagði réttu hlutina til að falla inn, kannski varstu með andfýlu. En ég skil vel að þegar þú situr á kaffihúsi með vinkonu þinni eða ert í ræktinni með vini þínum að þið komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið klíkan að verki enn eina ferðina. Það gengur bara betur næst. Klíkan er þó ekki elítan. Eins og áður sagði tilheyrir enginn elítunni, hún er hvergi.

 

„Elítan“ sprettur af þeirra nagandi minnimáttarkennd sem felst í því að skilja ekki brandarann. Þetta á líka sálfræðileg upptök sín í æsku okkar. Þegar maður skilur ekki brandarann og líður fyrir vikið eins og fólk sé að hlæja að þér. Þetta er ástæða þess að flest fólk hatar samtímalistir. Af því hún er ekki bara mynd af fjalli eða fólki, heldur eitthvað konsept sem ekki er augljóst nema fyrir innvígða. (Með innvígðum er átt við fólk sem nennir að setja sig inn í málið). Það er ekkert óþægilegra að vera hluti af hóp sem skellihlær án þess að maður átti sig á því hvers vegna, jafn vel verra þegar fólk kinkar kolli spekingslega þegar það eina sem þú sérð er klámmyndband í svörtum kassa. Það er óþægilegt að vera staddur í miðju samtali og skilja allt í einu ekki íslensku. Þau hin hljóta bara að vera að feika það! (P.S. Hver hatar ekki fólk sem finnur bragðmun á víntegundum?)

 

En er þetta elítan? Þetta er ekki fólk sem er ríkara en þú, vinsælla eða endilega virðingarmeira.

Þú gætir verið búinn að framleiða sjónvarpsþátt sem naut mikilla vinsælda alþjóðlega og hlotið heiðursverðlaun Eddunnar fyrir og samt séð fyrir þér einhverja skuggalega elítu. Skuggalega elítu sem situr á kaffihúsi einhvers staðar í miðbænum og baktalar þig. Tökum annað dæmi, minna nærtækt. Segjum að þú værir sonur milljarðamærings, giftur öðrum milljarðamæring og forsætisráðherra Íslands. Jafnvel sá gaur heldur að hann sé utangarðsmaður í baráttu við elítuna. Hver og einn hefur sinn skilning á elítunni, hvort sem það er fólkið sem þykist vita betur en þú hvað list og menning séu, hvað sé töff og hvað ekki. Sumir tala um góða fólkið. Eitthvað lið sem flokkar ruslið sitt, skrifar feisbókarstatusa um pólitík, hefur áhyggjur af Sýrlandi og Palestínu (og lætur okkur öllum hinum líða eins og við séum ekki að gera nógu góða hluti). Já, ég veit, það er óþolandi þetta fólk sem heldur að það sé betra en annað fólk og auglýsir það, en mér hefur reynst hollara að ímynda mér að Góða Fólkið sé ekkert að spá í mér heldur gróðurhúsaáhrifunum og Miðausturlöndum. Sennilega erum við í eigin huga alltaf utangarðsmenn, alltaf í mótstöðu við heiminn, hetjan í bíómyndinni sem sér í gegnum allt þetta bull. Við látum ekki aðra segja okkur hvernig við eigum að vera!

 

Sá sem fullkomnaði það listform að tala um elítuna og gerði það að pólitísku valdatæki var Richard Nixon. Nixon hafði verið varaforseti, þingmaður og að lokum forseti, og samt leit hann ekki á sig sem hluta af „elítunni.“ Hann hafði nefnilega pínu minnimáttarkennd yfir því að hafa komið úr millistéttarfjölskyldu og ekki farið í jafnflotta háskóla og Kennedy-strákarnir. Kennedýjarnir voru óneitanlega elíta sem reyndi að hafa vit fyrir almúganum, en í augum Nixons voru það ekki bara nokkrir háskólamenntaðir þingmenn sem tilheyrðu elítunni. Elítan sem hataði hann voru: fjölmiðlar, háskólaprófessorar, menntað fólk í stórborgum, þekktir listamenn og leikarar. Allt var þetta fólk sem hafði Nixon á heilanum og ofsótti hann. Sá hugsunarháttur varð honum að lokum að falli, samsærið gegn honum var hans eigin sköpun, en arfleifðin var pólitísk orðræða sem gekk út á háskólamenntuðu elítuna sem þykist vita hvað best væri fyrir alla.

 

(Hvorugur okkar er Richard Nixon auðvitað. En tékkaðu á Adam Curtis vídjóinu sem ég set með blogginu, það er geggjaður heimildamyndagerðamaður sem ég held mikið upp á, og þetta er svolítið skemmtilegt teik á „Nixon-fenómeninu.“)

 

Elítan í pólitískri orðræðu á Íslandi eða „menningarelítan“ samanstendur af einhverju fjölmiðlafólki, listamönnum og kannski aðallega álitsgjöfum sem á einhverjum tímapunkti ævi sinnar bjuggu miðsvæðis í Reykjavík. Þetta er fólk sem veit yfirleitt aðeins meira en meðalmaðurinn um eitthvað tiltekið málefni, eða les jafnvel bækur sér til yndisauka. (Hugsaðu Stefán Pálsson, hann veit fullt um bjór). Sumir hafa farið á listasýningu á þessu ári. En enginn myndi sennilega kannast við að tilheyra elítunni.

 

Sjálfur veit ég að það er ýmist fólk þarna úti sem vill bregða fyrir mig fæti. Ég er nefnilega rebel, skrifa furðusögur sem íslenska bókmenntaelítan hatar. Þegar hún hittist á kaffihúsafundum ræðir hún hvernig bregða megi fæti fyrir mig og aðra sem ekki skrifa skáldsögur á ljóðrænan hátt með grámyglulegan, 101 reykjavíkur, raunsæis en samt með pínu draugagangi eða alla vega sérvitrum söguhetjum. Auðvitað fær Andri Snær að vera með í klúbbnum af því hann fær alltaf að vera memm þótt hann skrifi furðusögur. Eða ekki.

 

Eflaust verða nokkrir kaffihúsahittingar á eftir í 101 Reykjavík, þar sem menningarelítan hittist og ræðir hvaða góða málefni verði í deiglunni í næstu viku, hvaða framsóknarmanna-alþýðuhetja muni vera hallærislegust og hvaða leiðinlegu hljómsveit menn eigi að þykjast fíla á Airwaves. En voða fáir munu tala um mig eða þig, Magnús Scheving. Latibær verður að segjast eins og er, er nokkuð afrek. Þú getur verið stoltur af því að hafa náð að skapa sjónvarpsþátt, bókaröð, og tvær leiksýningar. Vinsældirnar eru vafalaust verðskuldaðar en fyrir mitt leyti verð ég að segja að mér finnst heimsmyndin sem birtist í þáttunum aðeins of einfeldningsleg. Ég held að það sé ekki hollt fyrir börn að alast upp við svona svarthvíta heimsmynd „Nammi er vont,“ „Hreyfing er góð,“ og „Glanni Glæpur er alltaf vondur.“

Það er eitthvað pínu Norður-Kóreskt við það ein hlið sé alltaf vond og önnur alltaf góð. Og þessi íþróttaálfur er pínu elítulegur. Hvað þykist hann alltaf vera að hafa vit fyrir öllum? Heimurinn skiptist nefnilega ekki í góða og vonda og það er hollt að átta sig á því frá unga aldri að engin ein hugmyndafræði er alrétt. Stundum er nammi nokkuð gott. Stundum hefur maður átt erfiðan dag og þarf smá súkkulaði. Sumum finnast gulrætur vondar og það er líka allt í lagi. (P.S. Væri ekki gott að fræða krakka um þær hættur sem felast í ofnotkun á fæðubótarefnum?) En nú er ég farinn að segja þér hvernig list á að vera, pínu elítulegt af mér.


Búningarnir eru flottir, sviðsmyndin líka. Ég held að þið eigið eflaust fleiri Eddur skilið frá tæknilegu sjónarmiði. Það er algengt að barnaefni hljóti ekki þá virðingu sem það á skilið. Og talandi um virðingu. Þegar fólk ber virðingu fyrir áhorfandanum og vitsmunum hans gerast góðir hlutir. Krakkar skilja margt. Það er mikilvægt að barnaefni sé skrifað þannig að það segi þeim margt án þess að predika. Látum þau velta hlutum fyrir sér og komast að sinni eigin niðurstöðu. Það er erfitt að sitja undir of mikilli predikun í fullorðinsefni líka, ef ég upplifi að bíómynd eða bók sé að segja mér hvernig ég eigi að lifa lífinu geri ég oft eitthvað þveröfugt. Ég er trúleysingi í dag af því ég fór í fermingarfræðslu. Það er oft þannig þegar hlutir eru troðnir ofan í kokið á fólki að það ælir því beint upp aftur.

 

En ég veit að þú meinar vel. Og ég meina það þegar ég segi að þú hefur afrekað margt. Heiðursverðlaunin á Eddunni voru verðskulduð, fálkaorðan sem þú færð síðar meir líka. Hafðu ekki of miklar áhyggjur af menningarelítunni. Þú ert miklu áhrifameiri en ljóðskáldin eða fólkið sem rekur Bíó Paradís. (Ef út í það er farið, hver er ekki áhrifameiri en þau?) Skilurðu hvað ég er að skrifa þér? Elítan, klíkan, góða fólkið, það er ekki til. Þú ert þinn eigin herra, afreksmaður, já og karlmaður með reynslu úr kvikmyndageiranum. Talaðu við Baltasar og þú færð eflaust að leikstýra þætti í ófærð 2, og ef þú passar upp á að hafa mikið af dramatískum þögnum og pínu grámyglulegan lit í senunum þá mun fólk taka þig mjög alvarlega. Meira að segja Bíó Paradís. Eða hver er það sem þú vilt imponera? Jón Örn Loðmfjörð? Held að þú verðir að skilgreina menningarelítuna aðeins betur. En í guðanna bænum, vertu bara þú sjálfur, þú ert frábær eins og þú ert.

 

Bless í bili,
Snæbjörn Brynjarsson

 

Adam Curtis eins og lofað var:

http://www.dv.is/menning/2015/2/13/ahrifamesta-folkid-i-menningarlifinu/

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni