Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Er rithöfundasambandið gagnslaust?

Er rithöfundasambandið gagnslaust?

Hlutverk stéttarfélaga er að berjast fyrir auknum réttindum og betri tekjumöguleikum fyrir skjólstæðinga sína. Þau mynda mikilvægt mótvægi við önnur öfl í samfélaginu eins og fjárfesta og atvinnurekendur. Stéttarfélög geta sinnt hlutverki sínu á ýmsa vegu, en mikilvægasta hlutverkið er þó að gera samninga við atvinnurekendur. En svo geta stéttarfélög líka reynt að hafa áhrif á lagasetningu, sett pressu á stjórnvöld, hugað að eftirlaunum skjólstæðinga sinna og að lokum séð um rekstur sumarbústaða. Þetta síðasta er sennilega aftast í forgangsröðinni, en maður myndi ekki halda það eftir að hafa komist í kynni við íslensk stéttarfélög.

Sérstaklega íslenska rithöfundasambandið.

 

Ég get nefnt fá dæmi um að stéttarfélag sendi út samninganefnd sem komi til baka með lækkun á tekjum skjólstæðinga sinna. Það gerði þó rithöfundasambandið fyrir nokkrum árum og vakti það mikla kátínu, og einn þekktur íslenskur útgefandi hló að þessum samningum. Svo frámunalega vitlaus var sú hugmynd að lækka það prósentuhlutfall sem höfundar fengu fyrir hvert selt kilju-eintak. Samt gerðist það, og meðlimir rithöfundasambandsins samþykktu að taka á sig lækkun úr 23% í 18% fyrir kiljur. Hvers vegna ekki að láta gömlu samningana gilda frekar? Hvers vegna sendi stéttarfélagið ekki út öflugri viðsemjendur, nýttu sér t.d. lögfræðing í þetta frekar en að senda rithöfunda að semja beint við útgefanda sem gefur út marga þeirra?

 

Stjórn stéttarfélags sem samþykkir skerðingu á réttindum skjólstæðinga sinna ætti í raun að segja af sér. Sæjuð þið fyrir ykkur að formaður rafiðnaðarsambandsins kæmi til baka úr seinasta kaffi og kleinufundi og segði: „Sorrý, þeir voru bara svo rosa harðir við mig að ég neyddist til að samþykkja 5% launalækkun. Ég mæli samt með því að þið samþykkið þessa samninga, því þeir munu aðallega bara koma niður á ungum rafvirkjum.“
(Úr 23 í 18 er reyndar 22% lækkun sem er ekki aðalatriðið í sjálfu sér).

 

Það er nefnilega þannig að þeir sem koma út í kilju eru helst ungir höfundar með sínar fyrstu tvær bækur, og þeir sem ekki hafa gefið út fleiri en tvær bækur hafa ekki rétt á að vera meðlimir í samtökunum.

Það er kannski ekki skrítið að það sé lítil endurnýjun í greininni. Eitt sem ætti að vera íslenskum rithöfundum áhyggjuefni er staða ungra höfunda, því sú staða mun endurspegla framtíð íslenskra bókmennta.

 

Hæsti meðalaldur úthlutana

 

Meðalaldur rithöfunda er hærri en annarra íslenskra listamanna ef við skoðum umsóknir og úthlutanir launasjóðs. Meðalaldur úthlutana úr tónskáldasjóði var 38 ár, launasjóður sviðslista var 36, en myndlistarmenn og tónlistarflytjendur um 44. Meðalaldur þeirra sem hlutu úthlutun úr launasjóði rithöfunda var 50.

Það er erfitt að segja til um hvað væri eðlilegur meðalaldur, í raun finnst mér ekki að fólk ætti að detta út af listamannalaunum ef það gefur reglulega út bækur í þokkalegum gæðum. Nærri allir íslenskir höfundar þurfa styrk til að geta sinnt vinnu sinni, því jafnvel metsölubók sem fer í endurprentun þrisvar sinnum dugar ekki til að borga af íbúðarláni eða halda uppi þriggja manna fjölskyldu. Íslensk metsölubók myndi nefnilega ekki þykja metsölubók neins staðar annars staðar.

 

Nýlega birti morgunblaðið úttekt á þessum hækkandi meðalaldri. Hlutfall ungra skálda hefur nefnilega hrunið, ef það er af því færra ungt fólk skrifar bækur þá er það áhyggjuefni. Eru fleiri að skrifa á ensku? Eða sér fólk ekki tilganginn í þessu striti fyrir svona lítinn ávinning? Skipta bókmenntir kannski ekki máli lengur?

Það gæti líka verið ung skáld hafi sótt um eins og ávallt en nefndin einfaldlega ákveðið að styrkja frekar þekkta og gamalgróna höfunda. Það vekur athygli mína að valnefndin þarf ekki að skila neinum skýrslum eða greinargerðum, hún þarf ekki að svara fyrir hvernig valið endurspeglar íslenska bókmenntaflóru eða styrkir hana. Þetta er afar ónútímaleg stjórnsýsla, aðrir nýsköpunarsjóðir rökstyðja val sitt opinberlega.

 

Nefndin hefur nefnilega ótrúlegt frelsi. Hún gæti valið eitt árið að styrkja bara barnabókahöfunda til dæmis. Eða hún gæti ákveðið að styrkja þá aldrei, sem hún gerði ítrekað ár eftir ár þar til í fyrra, þegar Þorgrímur Þráinsson fékk loksins þrjá mánuði eftir áratuga skrif fyrir unglinga og börn (húrra). Það verður sennilega að þakka fjölmiðlastríði Gunnars Helgasonar því að barnabækur voru loksins styrktar. Ég efast um að aðrar bókmenntagreinar geri meira til að viðhalda íslenskri tungu, menningu eða auka lestur og lestrarhæfni almennings. Sú staðreynd að jafnmikilvæg bókmenntagrein var hunsuð lengi í úthlutunum vekur stórar spurningar:
 

1. Olli þetta íslensku bókmenntalífi langvarandi skaða? Hefðu auknir styrkir til barnabókahöfunda skilað betri barnabókum og þar með aukið lestur og lestrarhæfni ungmenna?
2. Stýrist nefndin alfarið af smekk nefndarmeðlima frekar en að nefndin sé að huga að fjölbreytni eða hagsmunum íslensks bókmenntalífs?

Það er svo sem ekkert skrítið að fullorðið nefndarfólk um fimmtugt vilji ekki lesa bækur eftir þrítuga konu sem skrifar fyrir átta ára börn. Það ber vott um þröngsýni enda eru barnabækur skemmtilegar sama á hvaða aldri lesandinn er, en ætti nefndin samt ekki að sjá mikilvægi þess að íslensk börn hafi nútímalegar og skemmtilegar bækur að lesa?


Þetta eru vafalaust ekki einu fordómarnir sem stýra för. Bara skýrasta dæmið. Kannski eru yngri höfundar út undan því þeir skrifa skvísubækur, furðusögur, eða um hrylling og ástir innan annarra bókmenntagreina sem eiga ekki upp á pallborðið hjá nefnd sem skilur ekki mikilvægi fjölbreytileikans.

 

Listamannalaun sem fátæktargildra

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að þegar ungskáldin komast upp á aldur til að fá launin verður það of seint fyrir mörg þeirra. Launaupphæðin er lág og á sama tíma er þess krafist að höfundurinn sinni ekki annarri vinnu, a.m.k. ekki fullu starfi á meðan hann þiggi launin. Upphæðin er um 320 þúsund krónur (en miðast er við lagatexta frá 2009 sem gerir ráð fyrir 266 þúsund að verðlagi þess tíma), fyrir 25 ára einstæðing er þetta vafalaust nóg fyrir kaffibolla (svo lengi sem fartölvan bilar ekki) á meðan skrifin standa yfir. En fertugt fjölskyldufólk með íbúðarlán og tvo, þrjá krakka væri ábyrgðarlaust að gangast inn í þetta samkomulag. Sem betur fer eru flestir sem unnið hafa að ritstörfum færir um að skrifa fréttatilkynningar og auglýsingatexta, það er meiri peningur í því.

 

En komum aftur inn á rithöfundasambandið. Rithöfundasambandið virðist álíta að það eigi ekki að hafa afskipti eða skoðun á úthlutunum. Það þykir mér furðuleg afstaða. Rithöfundasambandið ætti að andmæla ófagmannlegum vinnuaðferðum, það ætti fyrir löngu að hafa vakið athygli á bágri stöðu barnabóka í úthlutunum og það ætti ekki að sitja þögult hjá þegar aldurshlutföll eða kynjahlutföll eru skökk.

 

Fyrst og fremst ætti það þó að berjast fyrir hækkun á þessum styrkupphæðum. Og aukinni innspýtingu í sjóðinn. Því við höfum þegar misst af mörgum góðum verkum hugsa ég. Salka Valka var skrifuð af manni undir þrítugu, og Sjálfstætt fólk af þrjátíu og tveggja ára manni. (Sem á þeim tímapunkti hafði verið styrktur bæði af alþingi og ýmsu velgjörðarfólki). Þótt líklega hafi fækkun styrkveitinga til yngra fólks líkast til ekki kostað klassísk meistaraverk þá er aldrei að vita, smávægilegur styrkur getur oft skipt miklu máli. Sérstaklega þegar forlög greiða þeim minna og eru treg til að taka áhættur. Það er engin ástæða til að taka styrki af eldri höfundum sem eiga enn eftir að skrifa góðar bækur en það má ekki verða til þess að engin endurnýjun eigi sér stað. (Vonandi náum við að forðast bjánalegt tal um laun í áskrift, veltum frekar fyrir okkur hver hefur ekki laun í áskrift. Svar: einungis listamenn.)

 

Þögul hagsmunasamtök

 

Rithöfundasamband Íslands er furðufeimið. Það heyrist varla múkk í því þegar virðisaukaskattur á bókum er hækkaður og fer yfir í að vera sá hæsti í Evrópu (getið þið ímyndað ykkur rauðþrútin andlitin á fulltrúum sjávarútvegs eða ferðamála ef Ísland slægi met í skattlagningu á fiski eða hótelgistingu?). Sambandið virðist líka fljóta sofandi að feigðarósi og velta því lítið fyrir sér hversu lítil nýliðun sé innan greinarinnar, það einfaldlega situr hjá í öllum álitamálum og hvetur jafnvel félagsmenn til að samþykkja skerðingu á réttindum sínum. (Æ, þetta eru bara ung skáld hvort sem er). Og hvar er baráttan fyrir því að skólabókasöfn fái pening til að endurnýja sig eða bjóða höfundum að lesa upp í skólum?

 

Hver er tilgangurinn með svona samtökum? Ég veit það ekki. En það má vera að sumarbústaðirnir séu ágætir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni