Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Blendnar tilfinningar gagnvart krúnuleikunum

Blendnar tilfinningar gagnvart krúnuleikunum

Nú er fimmtu seríu af vinsælustu sjónvarpsþáttaröð heimsins nýlokið og þegar askan fýkur burt í vetrarvindum er tilvalið að rýna í hvernig til tókst.

(Viðvörun: Ef þið hafið ekki horft á fimmtu seríu af Game of Thrones eða lesið bækurnar þá spillir eflaust eitthvað í greininni fyrir ykkur).

Ég hef verið mikill aðdáandi Game of Thrones þáttaraðanna og sagnabálksins sem þeir eru byggðir á Söngur íss og elda. Því er ekki hægt að neita að það er hrein nautn að horfa á sviðsmyndina sem dregin er upp í þáttunum, allt frá hinu snilldarlega intrói þar sem við fljúgum yfir heimskortið (ég fékk gæsahúð þegar ég sá turnspírur Kings Landing lyftast upp í fyrsta sinn) til pýramída Meereen, síkja Braavos og stóra hofið fyrir guðina sjö í höfuðborg Westeros.

Fyrsta serían var vel heppnuð aðlögun á fyrstu bók. Sean Bean var ótrúlegur, sem og allir aðrir leikarar (það hefur aldrei verið hægt að kvarta yfir leiknum í þáttunum). Sama má segja um seríu tvö og þrjú, en það er aðallega í kjölfar þeirra sem veruleg vandræði verða í að fylgja bókinni. George R.R. Martin var gamall vísindasagnahöfundur sem átti blómstrandi feril framan af þar til hann gaf út bókina Armageddon Rag sem leiddi til þess að hann sneri sér að sjónvarpsþáttaskrifum. Eftir langa dvöl í sjónvarpslandi yfirgaf hann það einnig, frústreraður yfir takmörkunum í fjölda persóna og möguleikum á framvindu. Hann vildi skrifa eitthvað sem var ekki takmarkað af fjármálum sjónvarpsstöðva eða greind áhorfenda, skapa margslungna sögu með ótal smærri karakterum, undirplottum og ruglingi.

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að þær bækur skildu einmitt hafa orðið að vinsælustu sjónvarpsþáttaröðinni sem hann kom að því að skrifa.

 

En það hefur þurft að fjarlægja margt. Ótal persónur sem hafa sérkafla og sérsögu eru horfin úr þáttunum. Við höfum enn ekki séð neinn Quentin eða Arianne Martell, Euron, Aeron eða Victarion Greyjoy, og ekki enn neinn Aegon eða Jon Connington. Allt eru þetta stórar persónur úr fjórðu og fimmtu bók sem hafa mikil áhrif á framvinduna.

Að sjálfsögðu eru þetta skiljanlegar breytingar. Til þess að koma þeim að þyrfti að tvöfalda þættina að stærð og þeir eru þegar ótrúlega dýrir. En breytingarnar sem gerðar hafa verið frá bókunum hafa því miður leitt til þess að handrit þáttanna eru lakari en áður. Ég ranghvolfdi augunum yfir senunni þar sem Bronn var geymdur í dýflissu með Sandsnákunum, sem hefði kannski ekki átt að koma mér á óvart að yrði notað fyrir ódýrt sexploitation því jafnvel í fyrstu seríu voru ódýrar klám-uppfyllingarsenur. En þó ég fyrirgefi falleg brjóst á milli rimla finnst mér samtalið í senunni of skelfilegt til að fyrirgefa. Það var samt hátíð miðað við þegar Tyrion er tekinn af þrælakaupmönnum sem ætla að fara með hann til "typpasölumanns." Í bókunum var nú sem betur fer einhver sem gat ímyndað sér að dvergur sem væri læs og skrifandi gæti verið seldur, ef ekki sem ritari þá a.m.k. sem skemmtiatriði.

En verstar voru þó breytingarnar á sögu Sönsu. Allur þroski, þróun og persónusköpun fóru út í veður og vind. Sem betur fer er saga hennar í bókunum allt önnur.

Sjónvarp virðist ekki geta orðið eins margslungið og móralskt órætt og bók enn sem komið er. Sjónvarpsería virðist þurfa einfalda óþokka og einfaldar hetjur, í stað óræðnari persóna. Þótt að Tyrion sé að sögn þáttastjórnenda þeirra uppáhaldspersóna á meðan Stannis er nánast fyrirlitinn af þeim, þá hafa báðir farið illa úr þeirri "sögufölsun" sem á sér stað í þáttunum. Tyrion virðist alltaf gera hið siðferðislega rétta og Stannis hið siðferðislega ranga. Hlutir verða svartir og hvítir.

Að einhverju leyti er kannski viðeigandi að persóna sem byggð er á Ríkharði þriðja sé svona svert í sjónvarpinu þótt að í "raun og veru" sé hún tvíræðari í bókunum. Í raunveruleikanum gerði Ríkharður þriðji það sama og Stannis, hann lýsti því yfir að frændur sínir tveir væru óskilgetnir bastarðar, safnaði saman herliði og hélt norður. Fræðimenn enn þann dag í dag deila um hver myrti frændurna tvo, en við vitum þó að Shakespeare lýgur mörgu upp á hann. (Heilli kryppu meira að segja). Mér þótti leitt að sjá marga af góðum frösum Stannisar úr bókunum væri kippt úr sjónvarpsseríunni, þannig að hann leit út fyrir að vera einfeldningur með ekki hugmynd um hvað hann væri að gera í stað þess að vera einn færasti herforingi konungdæmisins. 

 

Og svo eru það helvítis uppvakningarnir. Hvað er málið með þessar beinagrindaklisjur? Það er ekki ófyrirgefanlegt af því það var ekki svona í bókunum, það sem mér leiðist er ófrumleg framsetningin. 

Vonandi tekst betur til með næstu seríu. En ef gæðum handritsins og leikstjórnar hrakar svona rosalega í næstu þáttum verð ég að taka hljóðið af og reyna að einblína bara á fallegan arkitektúrinn í bakgrunninum frekar en að ranghvolfa augun í hvert sinn sem ég heyri talað um typpasölumenn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni