Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hákur

Hákur

Hákur dregur hettuna yfir hærurnar og lygnir aftur augunum. Fölur dreytill af mánaskini er hið eina sem skilur vökuheim dýflissunnar að frá dimmunni bak við augnlokin en fanganum reynist örðugt að festa svefn. Í dögun verður hann brenndur. 

Nægur tími til að blunda eftir það.

Hann heyrir rjátlað við lásinn en hann lýkur ekki upp augunum fyrr en hann finnur til varma við vanga. Hann nær með herkjum að kyngja köldu öskri þegar hann sér eldtungur sleikja út um. En loginn er ekki kominn að sækja hann. Inn til hans er kominn maður. Kyndilbirtan er skerandi eftir langdvölina í myrkrinu.

„Ég get komið þér undan,“ segir sá ókunnugi og lítur flóttalega í kringum sig. Hákur virðir hann fyrir sér. Gott ef þetta er ekki sjálfur djákninn í sókninni. Hákur dregur djúpt andann með fingurgóma í grönum en mælir ekki orð frá munni.

„En þú þarft að veita mér liðsinni þitt, skratti!“ Brún augu bjargvættarins renna til og frá og andremma hans er súr af gambra. Hákur tímir varla orðunum þar eð hann veit svarið við spurningu sinni:

„Hvað viltu að ég geri?“

„Ég vil að þú fremjir slíkan meingaldur að Þuríður á Hóli uni sér hvergi nema hún unni mér.“

Hákur varpar öndinni og með henni hinstu voninni um björgun.

„Ég sagði dómendum öllum, í viðurvist sveitunga og trésmiðarins á himnum, og segi þér nú: ég hefi aldregi kunnað það sem ég er dæmdur fyrir að kunna. Ég er söngvasmiður og grasasafnari. Ekki seiðkarl.“

„Ljúgðu ekki að mér, armi!“ æpir djákninn með sleftaum niður á bringu. „Veit ég vel að þú galdraðir til þín sjálfa prestfrúna og ég fer hvörgi uns Þuríður stendur ljóslifandi frammi fyrir mér.“

Hákur lygnir aftur augunum og brosir.

„Já, þetta viljum við öll,“ segir hann með kátínu þess sem hefir engu að tapa. „Bara opinn faðm að hvíla í, opinn faðm til að orna okkur við og opinn faðm til að deyja í.“

Hann hrifsar kyndilinn af sauðdrukknum gesti sínum með hægri hönd og tekur hann þéttingsföstu hálstaki með þeirri vinstri.

„Nei, djákni, armar Þuríðar á Hóli munu ekki umvefja þig á hinsta andartaki þínu. Þú verður að gera þér mína að góðu.“

Hákur læsir útlimum utan um djáknann og ber eld að skyrtu hans.

„Göngum nú saman inn í dýrð herrans,“ segir hann hlæjandi og eldur kyndilsins gleypir þá báða. 

 

Varðmaðurinn vaknar við skarkalann en þegar hann hefir ráðið niðurlögum funans er ekkert eftir í dýflissunni annað en föl mánaslikja á hlekkjaðri öskurúst sem eitt sinn var tveir menn.

„Guð sé oss næstur,“ muldrar hann og sækir kúst og reku.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni