Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Með svona bandamenn ...

Með svona bandamenn ...

Þegar ég kallaði það á dögunum hræsni af utanríkisráðherra „að skreyta sig fjöðrum einstaklingsfrelsis á meðan maður er meðlimur í alþjóðlegum samtökum með tyrkneskum einræðisherra“ svaraði Hannes Hólmsteinn því til að Erdogan væri ekki lengur meðlimur í Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna. Hann svaraði því reyndar ekki hvort það hefði verið hræsni á sínum tíma en gott og vel. Nú eru þeir nefnilega ekki lengur klúbbfélagar, Guðlaugur Þór og Erdogan.

Nema … jú, reyndar eru þeir það.

Við erum öll í klúbbi með Erdogan.

Sá sem er að lesa þessi orð greiðir til félagsskapar, í gegnum skatta og opinber gjöld, sem heitir Atlantshafsbandalagið (NATO). Íslenska ríkið lætur 1,9 milljarða af hendi rakna til hans árlega. Tyrkir gengu til liðs við bandalagið aðeins þremur árum á eftir okkur (1952) og hafa áratugum saman níðst á kúrdískum þjóðernisminnihluta í landi sínu. Þetta hafa Tyrkir komist upp með vegna strategískrar stöðu sinnar innan bandalagsins.

Höfum eitt á hreinu: sagan hefur kennt okkur að fagurgali bandaríska heimsveldisins um að breiða út lýðræði á spjótsoddi er álíka trúverðugur og staðhæfingar Trumps um að vera besti forseti sögunnar og eiga öll bestu orðin. Ofbeldisgígarnir sem Kaninn skildi eftir sig í Afganistan og Írak sanna það. En undanfarið hefur vera bandarískra herdeilda í Rojava-héraðinu í Norður-Sýrlandi raunverulega virkað sem varnarveggur utan um lýðræðisþróun og komið í veg fyrir að tyrkneski herinn kremji það samfélag jafnréttis og lýðræðis sem er að mótast þar. Ekki með því að stinga bandaríska fánanum í sandinn og leggja svæðið undir sig heldur með því að stíga til hliðar og veita sýrlenska lýðræðishernum (HSD) þá vörn sem þarf til að sigrast á ISIS.

Hvað gerðist svo?

Donald J. Trump fékk símtal frá Recep Tayyip Erdogan þar sem hinn síðarnefndi fékk hinn fyrrnefnda til að fyrirskipa skyndilega brottflutninga bandaríska herliðsins (varnarmúrsins) frá Rojava-héraði. Tyrkir gerðu svo strax innrás. HSD, sem vann svo til fullnaðarsigur gegn ISIS í mars á þessu ári, stendur nú frammi fyrir óvini sem kallar Kúrdana hryðjuverkamenn og hefur í hótunum við evrópsk ríki:

„Hey, Evrópusamband, gyrðið í brók! Ef þið kallið þessa aðgerð hernám [...] þá munum við opna gáttirnar og senda 3,6 milljónir flóttamanna til ykkar.“

Þessi maður, sem hefur stutt sömu hryðjuverkahópa í Sýrlandi og Sádí-Arabar og kúgað Kúrda í Tyrklandi, er nú kominn með herlið inn í Rojava. Ríki hans er meðlimur í NATO. Við það hlýtur sú spurning að vakna hvort íslensk stjórnvöld séu sátt við framgöngu hans. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kallaði eftir því að ríkisstjórnin okkar fordæmi framgöngu hans gegn Kúrdum í Rojava og stjórnvöld brugðust við með orðum.

Nú kemur í ljós hvort íslensk stjórnvöld láti kné fylgja kviði. Eru orð allt og sumt sem við fáum frá flokki eins og VG þegar á siðferðisþrekið reynir? Engin umræða um úrsögn úr NATO? Var allt talið um að stuðla að friði í veröldinni bara hringl í hálftómri tunnu? Er lýðræðisást okkar svo yfirborðskennd að við lyftum ekki litlafingri þegar einn af bandamönnum okkar (sem öðlaðist alræðisvöld í landi sínu fyrir tveimur árum) ræðst til atlögu gegn fánaberum jafnréttis og frelsis í heimshlutanum?

Fólk mun deyja. Og eins og David Graeber benti á þegar Tyrkir gerðu árás á Rojava í fyrra (nánar tiltekið á Afrín-hérað) þá er ofbeldið skilaboð til kvenna um að öllum tilraunum þeirra til að taka sér stöðu jafnfætis karlmönnum undir fána lýðræðis og jafnréttis verði mætt af fullri hörku án þess að Vesturveldin geri nokkuð vesen yfir því.

Orð eru nefnilega ekki það sama og gjörðir.

 +++++++

[Uppfærsla: Pistlinum var breytt eftir ábendingu frá lesanda verið bent á að honum hafi yfirsést yfirlýsing á síðu Stjórnarráðsins þar sem fram kemur að íslensk stjórnvöld „gagnrýni harðlega“ þessa innrás og krefjast þess að Tyrkir „hætti aðgerðunum þegar í stað.“

Höfundur biðst forláts á mistökunum en kallar jafnframt eftir tafarlausri úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Á meðan við erum enn í hernaðarbandalagi með þeim sem fremja svona glæpi gegn mannkyninu þá erum við samsek.] 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni