Sögur af gólfinu
Píratar virða mannhelgi. Þeir leggja sig fram við að koma á samfélagi þar sem samstaða ríkir og þar sem hinir sterku vernda og aðstoða þá sem veikari eru.
Píratar standa fyrir stjórmálamenningu sem er hlutlæg og réttlát.
— Úr Píratakóðanum
Starf borgarfulltrúans er víðfemt enda starfsemi borgarinnar margvísleg. Mikið af starfinu felst í að sitja á fundum og það er gott og blessað út af fyrir sig. Það er samt ekki nema hluti af sögunni og starfið er dálítið þess eðlis að það er saga sem maður skrifar sjálfur.
Eðlilega hefur sagan mín hingað til einkennst mjög af mikilvægustu áherslumálum Pírata og tilburðum til að koma þeim áleiðis. Þar er ég hingað til einna ánægðastur með nýju upplýsingastefnuna, sem er mjög píratavænt plagg sem ég vona að nái að hafa marktæk og varanleg áhrif á Reykjavíkurborg. Svo er opið bókhald víst handan við hornið, komin áætlun um innleiðingu á næstu mánuðum sem ég vona að hægt verði að standa við.
Svo snýst þetta líka mikið um að taka því sem örlögin færa manni í hendur.
Nú hef ég til dæmis kynnst dugmiklum náunga að nafni Sigurður Haukdal sem er fyrrum skólaliði til margra ára. Hann laðaðist að Pírötum upp úr síðustu borgarstjórnarkosningum, setti sig í samband við mig og ákvað að setja af stað smá verkefni með mér. Verkefnið snýst um að við heimsækjum skóla í borginni saman og hittum það starfsfólk þeirra sem ég er nokkuð viss um að borgarfulltrúar hitta venjulegast ekki oft; fólkið eins og hann sem er algjörlega 'óbreyttir' starfsmenn á gólfinu, eins og það kallast víst. Það hefur verið mjög áhugavert og gefandi að fá innsýn í þessa hlið á skólastarfinu. Skoða aðeins gólfið, ekki bara tölurnar á blaðinu. Þó fólk kvarti svo sem ekki eru launin lág og álagið oft mikið. Þessi störf vinna mikið til konur og mikið til innflytjendur. Væri betra ef þetta fólk væri á hærri launum og undir minna álagi? Alveg klárlega. Get ég, ef ég á að vera alveg ábyrgur, lofað einhverju í þeim efnum? Því miður ekki. Laun eru mikið til samningsbundinn og borgarfulltrúar vasast ekki (sem betur fer; valdamörkin þurfa að vera skýr) í slíkum samningum beint - og almennt er núna hart í ári hvort eð er.
En þetta er samt eitthvað sem ég hef séð og ég hef verið að melta það með mér lengi hvað ég á að gera við það og komist að þeirri niðurstöðu að ég þarf að tjá mig um það sem ég upplifi. Kannski það breyti einhverju og kannski ekki - en þetta er þó allavega veruleikinn, eða ákveðin hlið hans, sem einhver gæti haft áhuga á að vita af. Ég reyni mjög að vera faglegur og gæta góðrar stjórnsýslu í mínum störfum en það þarf ekki að þýða að ég þurfi að loka mig alveg frá veruleika fólksins sem starfar hjá þeirri stofnun sem ég vinn fyrir. Þá er ég ekki að sinna skyldu minni sem fulltrúi, miðlari milli kerfisins og fólksins.
Annað sem hefur fallið mér í skaut tengist líka skólunum, þessum stærstu rekstrarliðum borgarinnar. Það er ákall skólastarfsfólks sem hefur orðið fyrir einelti á vinnustað og hefur átt erfitt með að leita réttar síns í þeim efnum. Þetta er algjört jarðsprengjusvæði þar sem maður hefur eiginlega ekki hugmynd um hvernig maður á að fóta sig án þess að verða ófaglegur eða farinn að stíga á einhverjar tær að ósekju. Ákallið um að einhver einhvers staðar geri eitthvað er samt þarna og einhver þarf að svara því, einhvern veginn. Miðað við það sem til hefur borist eru greinilega kerfislæg vandamál í gangi sem taka þarf á.
Ég held líka að einelti á vinnustöðum sé vanmetið vandamál almennt, að fólk telji að þetta sé bara eitthvað sem börn geri hvert öðru en svo þegar þetta kemur upp hjá fullorðnum veit enginn almennilega hvað á að gera. Einelti meðal fullorðinna held ég að skipi svipaðan sess og kynferðisofbeldi gerði fyrir ekki alls löngu, falið og vandræðalegt vandamál sem erfitt var að tala um og takast á við. Í grunninn er þetta félagslegur vandi og sem slíkur þrífst hann vel þegar enginn talar um hann. Það er endalaust hægt að setja upp kerfi sem er ætlað að taka á honum (og ég held að þau megi alveg og þurfi að bæta) en þau geta alltaf brugðist. Þau geta aldrei unnið almennilega gegn óheilbrigðum félagslegum kerfum. Ég er á móti öllum kúgandi kerfum, þar með töldum og ekki síst hinum félagslegu.
Svo að lokum vil ég taka skýrt fram að þó ég sé að einblína aðeins á möguleg vandamál í þessum pistli mínum má alls ekki skilja hann þannig að ég sjái ekkert nema vandamál í skólum borgarinnar. Þvert á móti hef ég séð margt frábært og skemmtilegt líka og veit vel að flestöll erum við oftast að gera okkar besta. En það má alltaf gera betur og til þess finnst mér stjórnmál vera, að reyna að sjá einhverja heildarmynd og leita stöðugt að leiðum til að gera betur og bæta það sem bæta þarf í kerfunum okkar.
Þessi orð mín hér bæta auðvitað ekkert ein og sér ekkert - en vonandi hreyfa þau við einhverjum einhvers staðar. Orð eru jú til alls fyrst.
Athugasemdir