Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Skjaldborgin um einkalífið

Skjaldborgin um einkalífið

3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.

4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.

— Úr grunnstefnu Pírata

Í dag leggst netið á hliðina vegna þess að upplýst hefur verið að fjármálaráðherra er meðal þeirra sem voru opinberaðir af hökkurunum sem brutust inn í framhjáhaldssíðuna Ashley Madison. Þeir stálu þar hrágögnum og birtu þau öll opinberlega. Slík gögn getur hver sem þekkingu hefur til farið í gegnum og leitað eftir löndum eða alls kyns öðrum skilyrðum til að þrengja hringinn og kafa eftir einhverju bitastæðu. Í slíkum leiðangri einhvers ónefnds aðila komst upp um Bjarna Benediktsson og nú hefur það ratað í fjölmiðla.

Þessi uppákoma gefur tilefni til að taka enn einn snúninginn á hugtökunum gagnsæi og friðhelgi einkalífs, sem kallast sífellt á og verða sífellt mikilvægari áskorunarefni eftir því sem netvæðingu tilveru okkar fleygir fram. Við skulum beita þessum hugtökum aðeins.

Hugtökin snúast um völd fólks og samspil þeirra.

Friðhelgi einkalífsins á að vernda hina valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri. Í upplýsingum felast völd og sá sem hefur persónupplýsingar um einhver annan getur notað þær til að ráðskast með viðkomandi. Þetta gildir hvort sem í hlut á yfirvald sem sankar að sér upplýsingum um borgara sína eða annar aðili sem kemst yfir upplýsingar sem honum eru ekki ætlaðar. Rof á friðhelgi einkalífs, eða hættan á því að það gerist, hefur afskaplega hamlandi áhrif á fólk og dregur úr sjálfsákvörðunarrétti þess. Við þurfum að hafa stjórn á því sjálf hverju við kjósum að deila um okkar einkahagi og hættan sem er því samhliða að grafið sé undan því er efni í annan og hundlangan pistil.

Gagnsæi á að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Það snýst um að gagngert skylda hinn valdameiri til að gefa upp ákveðnar upplýsingar um sig svo hinn valdaminni geti fylgst með honum og veitt honum aðhald.

Fljótt á litið gætu einhverjir haldið að einhver vafi ríkti um hvort ætti við í tilfelli umræddra upplýsinga um Bjarna Benediktsson. Hann er jú valdamikill maður og það eru hinir valdaminni sem fá upplýsingarnar í hendur.

Á því eru þó margir hængir.

Bjarni er til dæmis klárlega ekki valdameiri aðilinn við hliðina á hökkurunum sem sviptu hann og ótalmarga aðra friðhelgi einkalífs. Í þeim heimi hafa þeir völdin og Bjarni er sem valdalaust peð í þeirra höndum. Þeir ákváðu hvað gera átti vð gögnin. Þeir hefðu til dæmis getað kosið að nota þau til að fjárkúga fólk. Í upplýsingum felast jú völd. Það var ekkert sjálfgefið að hakkararnir kysu að færa þessi völd í hendur alls almennings Jarðarinnar. Þeim tilvikum þar sem hakkarar gera það ekki heyrum við sjaldan af, eðli málsins samkvæmt.

Svo má setja stórt spurningamerki við það hvort það felist einhver sérstök valdefling fyrir íslenskan almenning í því að fá að vita af þessu uppátæki Bjarna. Eru þessar upplýsingar nauðsynlegar eða gagnlegar til að hann geti mótað sér upplýsta afstöðu um verk hans og persónu? Þegar þessari spurningu er svarað má hafa það í huga að við höfum almennt nokkuð takmarkaðar og brotakenndar upplýsingar um einkalíf stjórnmálamanna almennt. Hrein hending ræður því að Bjarni fær þessa útreið en aðrir sleppa (í bili). Því er erfitt að segja að þetta sé sérstaklega upplýsandi atvik - til þess að svo megi verða þarf gagnsæið að fylgja formlegum ferlum þar sem allir sitja við sama borð og spilað sé eftir einhverjum sanngjörnum leikreglum. Bjarni situr hér ekki við sama borð og aðrir. Nú eru á þessu undantekningar, þegar reglurnar eru beinlínis ekki nógu góðar, og uppljóstrarar taka að sér að leka ákveðnum upplýsingum til að sýna almenningi eitthvað sem reglurnar fela (gott dæmi: Edward Snowden) - en þegar um persónuupplýsingar er að ræða er þeim mun meiri ástæða til að gjalda varhug við að spilað sé utan reglnanna. Tilgangurinn með þessari 'uppljóstrun' var síðan sá að afhjúpa síðuna en ekki notendur, og það er vel hægt án þess að garfa í persónugögnunum.

Þannig að nei, ég held það sé mjög erfitt að kenna þessa uppákomu við gagnsæi. Eðlilegra er að telja þetta til rofs á friðhelgi einkalífs.

Sá söngur heyrist sífellt sjaldnar að Píratar vilji nú bara hafa sumt uppi á borðum, eftir einhverjum hentugleika eða óljósum skilgreiningum. Hann var þó einu sinni mjög hávær, til dæmis í kringum þá uppákomu að viðkvæmum upplýsingum um hælisleitanda var lekið úr innanríkisráðuneytinu. Ég held samt að það atvik og lyktir þess hafi sýnt fram á að það er mjög mikill munur á gagnsæi og broti gegn friðhelgi einkalífs og að það er sjaldnast rosalega erfitt að greina hvort á við hvenær.

Ef einhver vafi stendur þó ennþá eftir vona ég að þetta atvik slái hann endanlega af borðinu.

Bjarni Benediktsson er Tony Omos dagsins í dag - sviptur friðhelgi einkalífs af aðila sem ákvað að taka sér slíkt vald í eigin hendur, án umboðs almennings. Ég sló skjaldborg um Tony á sínum tíma og geri það núna um Bjarna.

Þannig er nú það.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni