Ósæmilegt
Eitt af því sem hefur komið út úr afhjúpun Samherjaskjalanna er að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, hefur viðurkennt að kaup hans í um fimmtugshlut í Morgunblaðinu árið 2017 voru fjármögnuð af Samherja, fyrirtækinu sem hann þóttist hafa verið að kaupa hlutinn af. Það er ekki nóg með að Eyþór hafi aldrei viðurkennt þessa staðreynd áður, heldur hefur hann hingað til neitað henni alfarið, sagst hafa greitt fyrir hlutabréfin sjálfur. Nú segir hann að Samherji taki áhættuna og hann sé ekki í persónulegri ábyrgð gagnvart fyrirtækinu.
Staðan er því þessi: Kjörinn fulltrúi almennings, oddviti í þokkabót, tók þátt í því að hjálpa fyrirtæki að taka peninga út úr Morgunblaðinu, koma með aðra inn í staðinn að utan - og hjálpaði líka til við að halda þeirri staðreynd leyndri. Peningarnir hafa verið raktir til félags á Kýpur sem er tengt meiriháttar misferli og arðráni í Namibíu.
Þetta er eina rökrétta skýringin á aðkomu mannsins að þessari fléttu, að hann hafi verið fenginn í þetta verk til þess að halda þessum hlut fyrir Samherja og spyrja engra spurninga um af hverju fyrirtækið væri að þessu eða um hvaðan peningarnir kæmu - eða til að vera upplýstur um það en vera sama um það.
Ef hins vegar við kjósum að taka það trúanlegt sem Eyþór segir, að hann ætli sér að selja þennan hlut, þá vaknar sú spurning af hverju það væri þá ósanngjarnt að segja að Samherji hefði gefið honum hundruðir milljóna. Svona fyrst hann þarf að eigin sögn ekki að borga fyrirtækinu krónu fyrir hlutabréfin (staðfest er að meira en helmingur lánsins hafi verið afskrifaður og miðað við það sem Eyþór segir sjálfur um fyrirkomulagið hefur án efa alltaf staðið til að afskrifa það að fullu).
Það er sumsé alveg sama hvernig þessu er snúið, það er ekki hægt að láta þetta ganga upp sem einhver eðlileg viðskipti enda er það mjög óeðlilegt í sjálfu sér að vera með og taka þátt í svona leynimakki með eignarhald á fjölmiðli. Það er rík ástæða fyrir kröfum um fullt gagnsæi í þessum efnum, það er til þess að ekki sé hægt að setja upp hagsmunatengsl sem ekki liggja fyrir opinberlega (þátttaka Eyþórs í því að gera þetta og halda þessu leyndu eru óháð öllu öðru bullandi hagsmunatengsl og við vitum ekki nákvæmlega hvað fleira og vafasamara liggur að baki) og ekki heldur viðskiptafléttur sem fela tilfærslur á fjármagni (hvaðan kom til dæmis hlutur félags Eyþórs í hlutafjáraukningu sem fór fram nú í febrúar, var það líka frá Kýpur?).
Að mínu mati ætti sögunni þar með að vera lokið, manninum einfaldlega ekki sætt sem kjörinn fulltrúi áfram. Það sem oddviti Pírata, Dóra Björt Guðjónsdóttir, hélt fram um þetta mál reyndist ekki bara vera satt heldur er það einfaldlega enn verra - það hvaðan Samherjapeningarnir koma gerir það töluvert vafasamara þó að fléttan og leyndin ein og sér sé verulega vafasöm og ámælisverð.
Það er því með miklum ólíkindum að það komi varla til tals að hann víki sæti. Það er kannski rosalega klisjukennt að nota frasann „Bara á Íslandi“ en mér finnst hann eiga frekar vel við hér. Ég held að það sé leitun að þeim löndum þar sem kjörinn fulltrúi sem er uppvís að því að blekkja almenning með svona rosalega grófum hætti í jafn alvarlegu máli og eignarhald fjölmiðla er víki ekki samstundis sæti eða sé neyddur til þess af flokknum sínum í versta falli.
Á Íslandi er það hins vegar alltaf sama sagan - það sem þykir ósæmilegt er að talað sé um ósómann.
Athugasemdir