Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kyn í trúarbrögðum

Kyn í trúarbrögðum

Á miðvikudaginn fór ég að sjá viðburð á vegum trúfélagsins Zen á Íslandi - Nátthaga sem nefndist Zen-samræður. Jakusho Kwong-roshi kemur reglulega til Íslands í boði félagsins og tekur þátt í svona opinberum samræðum. Í seinni tíð hefur sonur hans, Nyoze Kwong, verið með í för honum til stuðnings.

Ég hef farið á nokkra svona viðburði áður og alltaf fundist þeir skemmtilegir og gefandi, en það er óhætt að segja að þessi hafi verið sá allra hressilegasti hingað til. Heimspekingurinn Sigríður Þorgeirsdóttir sem var þarna í hlutverki hins forvitna spyrjanda kom með frekar áleitnar athugasemdir og hélt þeim feðgum algjörlega á tánum. Það var helst þegar hún leiddi samtalið út í umræðu um kyn í trúarbrögðum sem hiti færðist í leikinn.

Sigríður rakti hversu lítið hefur farið fyrir konum í trúarbrögðum víða um heim og hvað reynsluheimur þeirra er þar jaðarsettur. Zen-hefðin er þar alls ekki undanskilin því þar er fátt um kvenfyrirmyndir og hinir sögulegu leiðtogar hennar kallast meira að segja patríarkar. Þetta er munkahefð og sem slík frekar karllæg. Feðgarnir svöruðu þessu með því að vísa til þess að með hugleiðslu mætti yfirstíga alla tvíhyggju, þar með töldu kyn. Málið væri bara að týna hinu persónulega og þá skiptu eiginleiki á borð við kynþáttur og kyn engu máli.

Þetta fannst mér ekki alveg fullnægjandi svar hjá þeim þannig að ég stóðst ekki mátið í fyrirspurnartíma og tók undir með Sigríði - hið kvenlega væri jaðarsett í trúarbragðahefðunum og það yrði ekki yfirstigið svo auðveldlega. Fyrsta skrefið væri að viðurkenna þessa ójöfnu stöðu og gefa hinu kvenlega meira rými.

Ég vísaði þar til mjög góðrar bókar sem ég las nýlega, The Chalice and the Blade eftir Riane Eisler. Í þeirri bók eru rök færð fyrir því að í Evrópu fortíðar hafi staða kynjanna verið mun jafnari og fólk hafi dýrkað Gyðju frekar en Guð - samfélögin þannig einkennst frekar af eiginleikum sem þykja kvenlegir en karllægum eiginleikum. Þetta hafi breyst þegar utanaðkomandi og herskárri innrásarsamfélög hafi ruðst inn í Evrópu og innleitt harðari gildi með valdi. Eins og margir vita sótti Dan Brown víða fanga þegar hann skrifaði vinsælustu bók sína, Da Vinci lykilinn, og þessi sígilda bók Eisler er ein uppspretta þeirra hugmynda sem hann leikur sér með þar. Að mínu viti er sú bók alls ekki vinsæl fyrst og fremst vegna söguþráðar eða ritlistar Browns, heldur einmitt vegna þeirrar heillandi hugmyndar að hinu kvenlega hafi verið haldið til hliðar í kristninni en að enn sé von til að það breytist.

Grunnstefið í bók Eislers er að til séu tvenns konar gerðir samfélaga: ráðríkissamfélög (dominator societies) og samstarfssamfélög (partnership societies). Gyðjudýrkendurnir til fórna hafi sýnt einkenni samstarfsfélaga en að saga Evrópu allt til nútímans hafi frekar sýnt einkenni ráðríkissamfélaga. Þetta er svipuð greining og feministar beita þegar þeir tala um feðraveldið. Hugtökin eru bara aðeins önnur.

Hvað sem maður vill kalla hlutina er ég algjörlega sammála því að jafnvægið þarf að sveiflast aftur meira í átt að 'kvenlegri' gildum. Það er okkar stóra samfélagslega verkefni, bæði í trúarbrögðum og pólitík. Meiri kærleika, samvinnu, samhyggð en minni yfirgangssemi, sjálfhverfu og tillitsleysi. Þessir eiginleikar eru ekki bundnir við kyn heldur blunda þeir í okkur öllum. Spurningin er bara hvað við kjósum að rækta með okkur, hvert og eitt.

Ef þið viljið fræðast frekar um kenningar Eislers án þess að leggja í að lesa alla bókina þá er ágætis samantekt á þeim að finna í þessari grein.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni