Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Talaðu helvítis íslensku II

Kann að vera að uppgjafar gæti hjá þér hvað íslenska tungu áhrærir? Að þú hugsir sem svo að svona sé bara fyrir henni komið og ekkert sem ég, ef mig skyldi kalla, geti gert til að koma í veg fyrir að hún deyji drottni sínum. Hugarfarið gæti líka verið: Mér er alveg sama um þetta asnalega mál, eða ... verði það sem verða vill, eða ... enskan er miklu svalari en þetta afdalamál og svo framvegis.

Sé svo í pottinn búið verður víst svo að vera.

Ef þú aftur á móti ert ekki allskostar ánægð með þá þróun sem virðist vera í óðaönn með að tröllríða tungumálinu með allsráðandi ensku í formi auglýsinga, matseðla, tækninýjunga, starfsfólks á veitingahúsum og í þjónustustörfum og þar fram eftir götunum er ráð að þú spyrnir við fæti og gerir eitthvað, látir í þér heyra.

Fyrsta skrefið gæti verið að tala málið við öll tækifæri eða þangað til þú ert góðfúslega beðin um að skipta yfir á annað mál. Íslenska ætti ávallt að vera í fyrsta sæti. Auðvitað er þó sjálfsagt, sért þú fær um það, að liðsinna þeim sem ekki búa svo vel að tala íslensku á öðru máli. Svo er að sjálfsögðu sjálfsagt að hjálpa þeim sem vilja læra málið í þeirri viðleitni.

Næsta skref gæti verið að hreinlega mótmæla enskuvæðingunni. Þú getur til að mynda haft orð á því á þeim veitingastöðum sem þú sækir að þér hugnist ekki að tala ensku. Af hverju ættir þú líka að þurfa að gera það? Nú auglýsingum á ensku hlýtur að mega mótmæla á margvíslegan máta.

Aðalmálið er að ef þú vilt að töluð sé íslenska á Fróni verður þú að gera eitthvað í því!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni