Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Talaðu helvítis íslensku!

Eigi hefi ég farið varhluta af því að helvíti mikið er af útlendingum á Íslandi um þessar mundir. Oft og tíðum vill meira að segja brenna við að ég sé ávarpaður á ensku eins og ég sér einhver sérlegur fulltrúi fyrir ferðabransann. Undir slíkum kringumstæðum segi ég allajafna að ég tali ekki ensku. Það segi ég auðvitað á íslensku enda hefi ég engan hug á einhverju smáspjalli eða þá að fræða viðkomandi um land og þjóð nema viðkomandi sjái sóma sinn í því að spyrja mig hvort ég geti talað ensku eða þá bjóði mér í það minnsta góðan daginn á íslensku. Það vill nefnilega svo til að á Íslandi er opinbert tungumál eyjaskeggja enn íslenska.

Eigi hefi ég heldur farið varhluta af því að Íslendingar kvarti undan útlendingum sem tala ekki íslensku. Við þá vil ég segja: talaðu þá fjandans íslensku við útlendingana. Þannig lærir fólk málið. Ekki lærir það íslensku af því að ávallt sé töluð enska. Svo mikið er víst. Það skapast ekki pressa á fólk til að tala málið nema málið sé talað við viðkomandi.

Ergo: Ef þér hugnast eigi hve enskan er orðin allsráðandi á Fróni hættu þá að tala hana og talaðu það mál sem mörlandinn talar. Talaðu helvítis íslensku!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni