Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Líkamleg paródía?

Við tiltekt í tölvu kann að finnast ýmislegt. Þessi pistill var skrifaður fyrir vefritið Kistuna sem var og hét árið 2006. Að mig minnir. Mér finnst hann ekki alslæmur og endurbirti hann hér af því að Kistan er ekki lengur til og af því að ég er of latur til að púsla einhverju nýju saman ...

 

Um daginn sat ég fyrir framan sjónvarpið og horfði á sjónvarpsþáttinn Germanys next Top Model í umsjón þýsku ofurfyrirsætunnar Heidi Klum. Ekki get ég neitað því að mörg fljóðin þar voru afar fönguleg og að um margt mátti hafa gaman af þeim kröfum og þrautum sem lagðar voru á herðar stúlknanna. Allt til að þær læri að líta sem best út og geti með sóma borið og selt það sem þeim ber að bera og selja. Allt fyrir fegurðina, útlitið og kynþokkann.

Þrátt fyrir alla þessa fegurð (eða kannski vegna hennar) varð mér þó einhverra hluta vegna hugsað til manneskju sem seint myndi standa uppi sem sigurvegari í keppni sem þessari og er samkvæmt almennum viðmiðum ekki álitin hæf til að gegna hlutverki toppmódels. Engu að síður myndi hún aldrei viðurkenna að hún ætti ekki alla möguleika á því að verða farsælasta fyrirsæta heims, kærði hún sig um það.

Þessi persóna gengur iðulega í efnislitlum, níðþröngum, kynþokkafullum og áberandi glansandi  klæðum (alltént er hún kemur opinberlega fram), þannig að vel framstæður barmurinn fær að njóta sín og líkamsvöxturinn er sýnilegur hverjum þeim sem gjóir augunum í átt til hennar. Hún gengur oftast með auðgreinanlegar og staðlaðar hárkollur sem undirstrika kynþokkann; hárkollur sem falla að útlitsstandardi „sexí “ blondínunar, eða rauðkunnar. Svo er hún ætíð máluð líkt og hún sé að fara á ball eða eitthvað þaðan af meira. Í sem fæstum orðum má segja að hún fylgi um margt þeim vestrænu kvenmanns stöðlum sem boðaðir eru beint og óbeint í vestrænu samfélagi á afar blátt áfram hátt. Eða hvað?

Hún er nefnilega ekki fær um að fylgja staðalmyndinni út í hörgul. Akkilesarhælarnir eru nokkrir; eitthvað farið að síga á seinni hluta lífsskeiðs hennar í útlitslegum skilningi og hún hefir auk framstæðs barms framstæðan maga og er hún klæðist sínum þröngu fötum á hann það til að slútta fram. Stundum gengur hún svo það langt í viðleitni sinni við að vera þokkafull að hún virkar hálf afkáraleg. Of mikið af því góða að segja má.

Líklega hafa flestir sem lesa þennan texta áttað sig á því við hvaða manneskju er átt. Tónlistarkonan Leoncie, Indverska prinsessan, Icy spicy og svo framvegis. Hér verður tónlistin og ummæli hennar um meinta kynþáttafordóma Íslendinga í hennar garð að mestu látin liggja milli hluta, en færa, má engu að síður, fyrir því rök að tónlist hennar lúti nokkurn veginn sömu formerkjum og útlitsímynd Leoncie.

Leoncie er merkileg manneskja. Hún hefur óbilandi sjálfstraust sama hvað gengur á. Hún er alltaf langflottust, hæfileikaríkust, klárust og er þar enginn millivegur farinn. Efsta stig lýsingarorða í jákvæðri notkun á, án undantekninga, við um hana. Þeir sem segja annað vita ekki sínu viti (að vísu getur verið frekar hvimleitt að hlýða á rasistaræðuna sem er um margt yfirfærð á alla Íslendinga nema kannski mann hennar og lífvörð Viktor). Fyrir vikið á hún það til að verða skotspónn hæðni og kerskni, þótt að vísu verði það ekki af henni tekið að margir eru uppfullir af aðdáun í hennar garð og það raunverulegri aðdáun.

 Ég sjálfur ætla því fjarri að að leggja dóm á það hversu stórkostleg, eða miður stórkostleg Leoncie er. Það er aftur á móti afar merkilegt hvernig gengist er upp í vissri staðalmynd og hún keyrð í botn af fullu sjálftrausti þeirrar manneskju sem veit að hún er málið. Útlistslegar fyrirmyndir hennar eru að vísu ekki svo ljósar en í tónlistarlegum skilningi eru fyrirmyndirnar (ef hægt er að tala um að Leoncie hafi einhverja fyrirmynd aðra en sig) svokallaðar dívur, líkt og gærdagsins stjörnur Whitney Houston, Shirley Bassey og Tina Turner. Auðvitað er svo niðurstaðan allt önnur. Leoncie er engin Whitney Houston, Tina Turner, Shirley Bassey eða Madonna. Hún er Leoncie.

Að vísu er hún afar meðvituð um sinn einsstaklingsleika, þannig að stundum læðist að manni sá grunur að hún sé í raun að spila með okkur og leika sér með þær hugmyndir sem við höfum um fegurð og tónlist; með því að spila sig inn í ímynd ofurbombunnar eða dívunnar. Hvort sem hún gerir það meðvitað eður ei breytir ekki máli í þessu samhengi. Maður getur gert margt án þess að ætla sér það beint. Þannig stendur hún í andstöðu við hið hefðbundna með þessari framsetningu sjálfs síns og mótmælir þeim mælikvörðum sem lagðir eru á holdlega fegurð.

Þannig minnir hún á á vissan hátt á hina frönsku listakonu Orlan (1947), þótt aðferðir Leoncie sé ekki jafn öfgafullar. Hér er þó eingöngu átt við þá hlið listar Orlan sem snýr að líkamanum (sem er að vísu stór hluti listar hennar), svokölluð holdleg list, sem miðar að því að nota líkamann í bókstaflegum skilningi sem efnivið eða miðju sköpunar þannig að líkaminn umbreytist í tungumál; hefur endaskipti á biblíuhugmyndinni um að orð sé hold; holdið verður að orði.[1] Þannig er líkaminn settur ofar andanum, þótt vitanlega sé málið tvíeggjað þar sem framsetning þess listræna líkamsgjörnings sem felst í holdlegu listinni er að sjálfsögðu huglæg.

Holdlægu listinni er öðru fremur stefnt gegn almennum viðmiðum um  líkamsásýnd og fegurðarstaðla einkum þá sem lúta kvennlíkamanum og gengur hún gegn þeim á öfgafullan, gróteskan og síðast en ekki síst paródískan hátt.

Til að lýsa list Orlan í stuttu máli þá má segja að hún umbreyti líkama sínum með lýtaaðgerðum eða fegrunarskurðaðgerðum. Hún lætur þó ekki bara breyta líkama sínum samkvæmt stöðlunum, heldur hefir hún t.a.m. látið græða í sig e.k. horn á andlitið; sílikonhnúða sem allajafna eru notaðir til að lyfta upp kinnbeinum. Skurðaðgerðirnar gerir hún að sjónarspili sem hún nefnir skurðaðgerðargjörninga (Surgery Preformance). Hún hefir gengið í gegnum níu slíka, þann síðasta 21. desember 1993.

Nú ætla ég ekki að ganga svo langt að leggja Leoncie alveg að jöfnu við Orlan, enda væri það fráleitt. Engu að síður eru vissir hlutar sem sjá má sameiginlega hjá þessum annars ólíku listakonum. Báðar hafa þær líkamann í forgrunni þess sem þær gera. Orlan með skurðaðgerðunum, Leoncie með hinni sexí framsetningu á sjálfri sér. Báðar standa þær svo í andstöðu við viðmið og venjur og endurmynda hugmyndir um líkamsásýnd. Orlan gerir það að vísu meðvitað með og í þágu listarinnar gegn hugmyndum og fegðurðarkröfum samfélagsins. Leoncie hefir aftur á móti engin slík yfirlýst markmið en gerir það engu að síður bara með því hvernig hún er.

Þannig mætti lýsa því yfir að Leoncie eða hugmyndin um indversku prinssesuna, ef maður gefur sér að munur sé á persónunni og listamanninum Leoncie, sé listræn gjörningur; paródía á samfélaga sem hefir skýrar reglur um það hvernig líkamar séu æskilegir og ekki bara það heldur segja til um hverjir eigi tilkall til þess að kalla sig gyðjur eða mega vera nefndar gyðjur eða toppmódel út á við.

Það væri kannski réttast að boða til keppni þar sem fólk keppir um það hver verður Íslands næsta Icy spicy nú þegar hún er flutt af landi brott?

 

Heimildir

McNiven, Andrew og Napoli, Stephane. 1998. „Hin holdlega list Orlan.“ Flögð og

fögur skinn, bls. 234-235. Bárður R. Jónsson íslenskaði. Ritstýrt af  Jóni

Proppé. Íslenska menningarsamsteypan art.is, Reykjavík.

Sjá svo:

http://blog.central.is/lovemessages

http://myspace.com/leoncie

http://www.leoncie-music.com

http://www.orlan.net

 

 

 

 

 



[1] McNiven, Andrew og Napoli, Stephane 1998:234.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni