Óíslenska þjóðfylkingin
Það kemur sannlega ekki íslenskt fyrir sjónir að grunnsstefna Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem notast við skammstöfunina ÍÞ, sé ekki vilhöll undir alíslenskar stafsetningarreglur.
-Venju samkvæmt er einn punktur notaður fyrir hvert stytt orð og ætti því skammtöfunin að vera Í.þ.
Einnig verður að teljast afar, einkar og einstaklega óíslenskt að stafsetningarvillur sé þar að finna. Hvernig í ósköpunum er hægt að treysta því að flokkur sem virðir ÍSLENSKAR reglur að vettugi standi nægilega vörð um land vort og Húsavíkur-Jóns. Það hlýtur að teljast lágmarkskrafa fyrir stoltan íslenskan, þjóðerniselskandi stjórnmálaflokk að hann standi vörð um það sem íslenskt er!
Er hér íslenskt sannkristið, frómt og guðhrætt fólk hvatt til þess að líta á grunnstefnuna og gera leit að villunum og síðan senda harðort bréf til flokksins til að mótmæla þessu óíslenska framferði harðlega. Þessar villur eru sannlega hneyksli. Reginhneyksli. Hvernig getur sannkristinn, ógenaspilltur, þjóðernissinnaður Íslendingur trúað því að slíkur flokkur standi vörð um íslenska menningu.
Sannlega má segja yður að hér gæti verið um erlend áhrif að ræða, erlend áhrif forheimskunar eins og finna má svo glögglega hjá þeim þjóðunum sem oss Íslendingum er tamt að bera oss við.
-Vel má vera að villur þessar hafi verið lagaðar og að nýtt og betrumbætt grunnstefnuplagg sé einhvers staðar að finna. En það gildir einu. Þetta er engu að síður svívirðing hin mesta!
Athugasemdir