Fokk jú!
Í tilefni þess að verið er að gera upp atvikin í Köln fyrir tæpu ári langar mig að birta nokkuð sem ég skrifaði þá á öðrum vettvangi:
Atvikin í Köln voru viðurstyggileg og bera vitni um andstyggilega kvenfyrirlitningu. Líklega eru flestir sammála þeirri fullyrðingu nema, ef vera má, þeir sem eru á því að besta leiðin til að þagga niður í óæskilegum og háværum kvenmannsröddum sé að stinga ákveðnum líkamshluta inn um málraufina, eða þá þeir sem vilja að lækningarmætti nauðganna sé haldið á lofti í umræðunni. Sá meinti lækningarmáttur á víst að vinna bót á frekju og kvenfrelsinstilhneigingu og þaggar víst listavel niður í óþægilegum kvenmannsröddum og þá einnig söngröddum. Það vilja alltént margir meina.
Punkturinn hér er nokkuð ljós og má vafalítið tína til ófá dæmi um trú fólks, þá einkum og aðallega karlpeningsins, á lækningamátt valdbeitingar og hótana. Sumir eru jafnvel á því að besta meinabótin sé hreinlega að stytta líf þeirrar persónu sem ber ábyrgð á óþægindaröddinni.
Hvað sem þetta áhrærir verður að ganga útfrá því að flestir hafi ímugust á því sem átti sér stað á aðalbrautarstöðinni í kaþólsku borginni Köln; á því sem konurnar þurftu að líða af karlmannshöndum. Þessum litla og ómerkilega pistli er einmitt ætlað það að sýna andstyggð, að segja fokk jú (it´s the same in every language) við hina fingralöngu, fálmandi fábjána sem brutu á rétti fólks.
Og aftur verður því sagt: FOKK JÚ!
Þrátt fyrir hástafnina má lýðnum ljóst þykja að lítil sem engin von sé til þess að pistill þessi fái einhverju áorkað. Jafnvel algerlega engin von. Og líkast til er gersamlega útlokað að hinir seku berji hann augum og gildir þá einu hve mikið er notast við hástafi. Bergmálsvanhæfni þessara orða er mikið en það verður bara að hafa það.
Hvað sem því líður vekja atburðirnir upp hugrenningar og góðu heilli ekki þær sem tengja þessa voveiflegu atburði kynþætti, trúarbrögðum, flóttafólki, því sem kann að rísa hold, og fjölmenningunni. Margur er nefnilega á því að atvikin staðfesti það sem ófáir (laumu)kynþáttahatararnir hafa predikað útfrá sinni einföldu heimsmynd. Í heimi þessara predikara koma gerendurnir auðvitað allir með tölu fram fyrir sinn kynþátt og sín trúarbrögð.
Að sjálfsögðu er ekki hjá því komist að spyrja hvað veldur? Hvað fær menn til að ástunda slíka hegðun þótt vitað sé að hjarðdýrahvötin í mannskepnunni sé rík og fær hana til að framkvæma alls kyns óhæfuverk? Hvaða land, ef við persónugerum landið, ætti einmitt að vita það betur en Þýskaland. Þar að auki ganga einstaklingar í heri til þess að myrða annað fólk þrátt fyrir blátt bann við slíku í 5. Mósebók. Erfitt er og að átta sig á því hví svo margir eru unnendur hluta og sanka að sér allslags dóti fram í rauðan dauðan einkum og sér í lagi þegar ríkidæmi skiptir vart miklu máli þegar manni er holað í jörðina.
Allavega er hér mikilvægt að spyrja af hverju og hvað megi gera til að „Kölnar-atvikin“ endurtaki sig ekki? Svar við þeirri spurningu er ekki að finna hér. En ljóst má þykja að það verður málstaðnum örugglega ekki til framdráttar að útmála þjóðfélagshópa sem óalandi og óferjandi þrátt fyrir að vissir óbótamenn tilheyri honum. Það ættu Þjóðverjar sannlega að vita líka.
Sá ótti lætur víslega á sér kræla að áþekkir atburðir kunni að eiga sér stað á ný og að ef svo verði þá muni æ fleiri byrja að grafa skotgrafir og undirbúa sig fyrir eilífan ófrið okkar og þeirra, þeirra og okkar, þar sem við verðum þeir og þeir verða við. Við slíkan þangagang ber einnig að segja: "Fokk jú!"
Tekið skal fram að pistill þessi mælist ekki til þess að höfðinu sé stungið í sandinn og er hann ekki heldur settur saman af neitt sérstaklega góðri manneskju sem hefir ekkert sérstakt dálæti á 101 Reykjavík og drekkur ekki latte né gengur með trefil.
Athugasemdir